Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 8555/2015)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun tiltekins ráðherra að auglýsa embætti X laust til umsóknar en hann hafði þá gegnt embættinu síðastliðin fimm ár.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. ágúst 2015, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að nokkuð væri fram komið í málinu sem benti til þess að ákvörðun ráðherra um að auglýsa embætti X að skipunartíma A liðnum hefði skort lagastoð eða byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Hafði hann þá sérstaklega í huga að hann fékk ekki séð að sú afstaða ráðherra að almennt væri æskilegt að auglýsa embætti forstöðumanna að skipunartíma liðnum væri ómálefnaleg eða í andstöðu við lagagrundvöll málsins, en í málinu lágu fyrir þær upplýsingar að á fundi A og ráðherra hefði komið fram að ráðherra hefði ekkert út á störf A að setja. Þá taldi umboðsmaður að sú framkvæmd, að veitingarvaldshafar ákveði að nýta ekki heimild 23. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að auglýsa embætti að fimm árum liðnum, geti ekki ein og sér skapað réttmætar væntingar embættismanna til þess að óheimilt sé að nýta þá skýru lagaheimild. Í því sambandi áréttaði hann að skipun í embætti er almennt tímabundin til fimm ára nema á annan veg sé mælt í lögum.

Bréf umboðsmanns Alþingis frá 28. ágúst 2015 hljóðar svo:

I.

Ég vísa til erindis yðar, dags. 1. júní sl., þar sem þér kvartið yfir þeirri ákvörðun [...]ráðherra að auglýsa embætti X laust til umsóknar, en þér gegnduð embætti X frá [...] 2009 til [...] 2014. Í kvörtun yðar gerið þér ýmsar athugasemdir við framangreinda ákvörðun ráðherra um að auglýsa umrætt embætti.

II.

Samkvæmt kvörtun yðar barst yður tilkynning frá ráðherra um framangreinda ákvörðun með bréfi, dags. 30. júní 2014. Þar kom fram að til stæði að auglýsa embættið laust til umsóknar frá 1. janúar 2015. Sama dag voruð þér boðaðir á fund ráðherra þar sem m.a. átti að ræða skipunartíma X. Samkvæmt minnisblaði yðar um fundinn greindi ráðherra frá þeirri afstöðu sinni að auglýsa ætti allar stöður forstöðumanna hjá ríkinu á fimm ára fresti og í samræmi við það hefði hann ákveðið að auglýsa stöðu X lausa til umsóknar frá 1. janúar 2015. Þann 29. september 2014 auglýsti ráherra embætti X laust til umsóknar og voruð þér á meðal umsækjenda. Með bréfi, dags. 3. desember 2014, tilkynnti ráðherra yður að Y hefði verið skipaður í embættið.

III.

[...] Samkvæmt ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 13. tölul. 1. mgr. sömu greinar, telst X embættismaður og nýtur hann því réttinda og ber skyldur sem slíkur.

Um skipun og setningu í embætti er fjallað í V. kafla laga nr. 70/1996. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skulu embættismenn skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum. Í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur fram að ef maður hefur verið skipaður í embætti samkvæmt 1. mgr. skuli honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 70/1996 ber að líta svo á að maður sem skipaður hefur verið eða settur í embætti skuli gegna því þar til eitthvert þeirra atriða sem talin eru í ákvæðinu kemur til. Meðal þessara atriða eru að að skipunartími hans samkvæmt 23. gr. renni út, nema ákvæði 2. mgr. ákvæðisins eigi við.

IV.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar fæ ég ekki betur séð en að þær athugasemdir sem þar koma fram séu nokkuð almenns eðlis. Verður ráðið að þér dragið almennt í efa heimild ráðherra til að auglýsa embætti X umrætt sinn. Í því sambandi bendið þér á að rík hefð sé fyrir því að embætti séu ekki auglýst og því hefðuð þér réttmætar væntingar til þess að skipun yðar yrði framlengd að fimm árum liðnum. Þá bendið þér á að óæskilegt sé að ákvörðun um hvort auglýsa skuli embætti að loknum skipunartíma skuli hverju sinni byggjast á persónulegri afstöðu ráðherra.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að í 23. gr. laga nr. 70/1996 kemur fram sú meginregla að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn. Í því felst að ráðherra er heimilt að auglýsa embætti á nýjan leik að skipunartíma liðnum að gættum skilyrðum 2. mgr. ákvæðisins. Verður að játa ráðherra sem veitingarvaldshafa nokkuð svigrúm við mat á því hvort hann kýs að nýta framangreinda heimild og jafnframt við val á þeim sjónarmiðum sem hann kýs að leggja til grundvallar. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið sem ráðherra leggur til grundvallar framangreindri ákvörðun þó að vera málefnaleg.

Eins og áður segir boðaði ráðherra yður á fund sinn í tilefni af framangreindum áformum og fór hann fram 30. júní 2014. Meðfylgjandi kvörtun yðar er samantekt yðar vegna umrædds fundar, dags. 11. júlí 2014. Þar kemur fram að á fundinum hafi ráðherra gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni að hann væri almennt þeirrar skoðunar að auglýsa ætti allar stöður forstöðumanna á fimm ára fresti. Þá mun ráðherra hafa lagt áherslu á að ekkert væri út á störf yðar að setja. Samkvæmt framangreindri samantekt munuð þér á fundinum hafa komið á framfæri sjónarmiðum yðar og afstöðu vegna ákvörðunar ráðherra auk þess sem rætt var almennt um störf X.

Þegar framangreint er virt fæ ég ekki séð að nokkuð sé fram komið í málinu sem bendir til þess að ákvörðun ráðherra um að auglýsa embætti X að skipunartíma yðar liðnum hafi skort lagastoð eða byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Hef ég þá sérstaklega í huga að ég fæ ekki séð að sú afstaða ráðherra að æskilegt sé að auglýsa embætti forstöðumanna að skipunartíma liðnum sé ómálefnalegt eða í andstöðu við framangreindan lagagrundvöll enda er ekkert í kvörtun yðar eða gögnum málsins sem bendir til annars en að sú afstaða sé almenn og beinist ekki eingöngu að því embætti sem þér gegnduð.

Þar sem þér vísið til þess í kvörtun yðar að hefð sé fyrir því að veitingarvaldshafar ákveði að nýta ekki heimild 23. gr. laga nr. 70/1996 til að auglýsa embætti að fimm árum liðnum tel ég ástæðu til að taka fram að ég tel að sú framkvæmd geti ekki ein og sér skapað réttmætar væntingar embættismanna til þess að óheimilt sé að nýta þá skýru lagaheimild sem að framan greinir. Í því sambandi árétta ég að skipun í embætti er almennt tímabundin til fimm ára nema á annan veg sé mælt í lögum. Að þessu virtu tel ég ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar af minni hálfu á málinu.

V.

Samkvæmt öllu framansögðu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að [...]ráðherra hafi auglýst embætti X laust til umsóknar að skipunartíma yðar liðnum. Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþings, er athugun minni á málinu lokið.