Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Eignir ríkisins.

(Mál nr. 9019/2016)

A leitaði til mín með erindi er laut að sölu fjármálaráðherra á landi í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar. Óskað var eftir því að upplýst yrði um lagaheimild ráðherra til sölu landsins og hvort umboðsmaður myndi hefja rannsókn á því hvort salan hefði verið í samræmi við lög.

Ég lauk málinu með bréfi, dags. 12. september 2016. Ég tók fram að af lögum um umboðsmann Alþingis leiði að starfsemi stjórnvalda verði að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá honum á grundvelli kvörtunar heldur verði kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum eða ákvörðunum stjórnvalda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans. Það sé hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn, ákvörðun eða athafnaleysi stjórnvalds sé að ræða í ofangreindum skilningi, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þar sem ég fékk ekki ráðið að þau atriði sem A vakti athygli á snertu beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra taldi ég mig ekki hafa forsendur að lögum til að taka erindið til nánari athugunar sem kvörtun. Ég lauk því meðferð minni á málinu.