Opinberir starfsmenn. Stjórnsýslukæra. Kæruheimild. Álit dómnefndar. Sjónarmið sem ákvörðun byggist á.

(Mál nr. 2596/1998)

A kvartaði yfir svari Kennaraháskóla Íslands vegna stjórnsýslukæru er hann beindi til skólans með ósk um að erindinu yrði komið til rétts aðila. Laut kæran að því að rektor Kennaraháskóla Íslands hefði ekki sinnt þeirri skyldu sinni að sjá til þess að álit dómnefndar um veitingu á dósentsstarfi væri ekki haldið annmörkum. Í svari skólans kom fram að ákvörðun rektors um veitingu starfsins væri endanleg og yrði hvorki skotið til háskólaráðs né menntamálaráðuneytisins.

Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 1. júní 1999, rakti hann ákvæði laga nr. 137/1997 og laga nr. 136/1997 um hlutverk rektors og háskólaráðs og gerði grein fyrir lögskýringargögnum. Dró hann þá ályktun að gengið væri út frá ákveðinni skiptingu milli valdsviðs rektors annars vegar og háskólaráðs ríkisháskóla hins vegar. Væri rektor þannig falið endanlegt vald til að taka ákvörðun um veitingu starfa innan viðkomandi skóla. Gerði umboðsmaður því ekki athugasemd við þá niðurstöðu að ákvörðun rektors yrði ekki skotið til háskólaráðs. Þar sem lög nr. 136/1997 kvæðu á um að ríkisreknir háskólar væru sjálfstæðar ríkistofnanir yrði heldur ekki talið að unnt væri að skjóta slíku máli til menntamálaráðherra. Var þar einnig vísað til 49. gr. laga nr. 70/1996.

Efnislega laut kvörtun A að niðurstöðu dómnefndar í máli er laut að veitingu á starfi dósents. Hafði háskólaráð sett reglur um það með hvaða hætti dómnefndin skyldi meta hæfi umsækjenda. Jafnframt skyldi hún raða hæfum umsækjendum með tilliti til þess starfs sem um væri að ræða án þess að sú röð teldist bindandi. Þótt umboðsmaður teldi verulegan vafa leika á lagastoð slíkra reglna yrði ekki séð að úrlausn þess álitaefnis hefði áhrif á niðurstöðu varðandi kvörtun A. Með vísan til lögskýringargagna og dóms Hæstaréttar, H 1981:266, var talið heimilt að dómnefndin raðaði umsækjendum eftir starfshæfni enda væri sú röð ekki bindandi fyrir rektor. Umboðsmaður sá hins vegar ekki að dómnefndarálitið væri haldið þeim annmörkum varðandi rökstuðning að rektor hefði borið að fela dómnefndinni að fjalla um umsóknirnar á ný eða sjá til þess með öðrum hætti að málsatvik væru betur upplýst. Gögn málsins bæru ekki heldur með sér að niðurstaða dómnefndarinnar eða veitingarvaldshafa hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum eða verið háð öðrum efnislegum annmörkum.