Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Kirkjumál.

(Mál nr. 8464/2015)

A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir frávísun yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar á kæru hans vegna ákvörðunar kjörstjórnar um kjörgengi hans við kosningar kirkjuþings og svörum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, síðar innanríkisráðuneytisins, við erindum hans af því tilefni.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. júní 2015. Í bréfinu rakti umboðsmaður þær breytingar sem voru gerðar á stöðu þjóðkirkjunnar með lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Vísaði hann sérstaklega til þeirrar auknu áherslu sem lögð hefði verið á sjálfstæði þjóðkirkjunnar og aðgreiningu gagnvart ríkinu, einkum hvað varðar innri málefni kirkjunnar. Með vísan til kvörtunar A benti umboðsmaður á að hann teldi skipan kirkjuþings lúta að innra skipulagi þjóðkirkjunnar fremur en samskiptum hennar við borgarana. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins, sem fram hefði komið í svörum til A, að það félli fyrir utan valdsviðs þess að skera úr þeim ágreiningi sem kvörtunin laut að eða því hefði verið skylt að taka frekari afstöðu til erindis A. Að sama skapi var það niðurstaða umboðsmanns að þær athafnir og ákvarðanir þjóðkirkjunnar sem lutu að kjörgengi A til kirkjuþings teldust ekki til stjórnsýslu ríkisins enda væri um að ræða innri málefni sjálfstæðs trúfélags en ekki verkefni eða beitingu opinberra valdheimilda sem þjóðkirkjan færi með á lögbundnum grundvelli í þágu opinberra markmiða. Niðurstaða umboðsmanns var því sú að framangreindur ágreiningur heyrði ekki undir starfssvið umboðsmanns. Með vísan til framangreinds lauk umboðsmaður athugun sinni á málinu.