Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Opinber hlutafélög.

(Mál nr. 8506/2015)

A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir að hafa ekki fengið svör frá Isavia ohf. eftir að honum var sagt upp störfum og sóttist eftir að fá starf á ný eftir að dómur gekk þar sem uppsögn hans var dæmd ólögmæt.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. júní 2015. Þar benti hann á að Isavia ohf. hefði orðið til í kjölfar samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurvallar sem samgönguráðherra hefði verið heimilað að ákveða með lögum. Isavia ohf. væri opinbert hlutafélag sem m.a. væri starfrækt á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Félagið starfaði því á grundvelli einkaréttar þótt það væri í eigu ríkisins og félli því ekki undir starfsemi umboðsmanns Alþingis. Ákvarðanir Isavia ohf. um ráðningu í starf væri því einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna. Taldi umboðsmaður því ekki lagaskilyrði til að taka kvörtun A yfir Isavia ohf. til meðferðar eða aðhafast vegna skorts á svörum þess við erindum A. Með vísan til framangreinds lauk umboðsmaður athugun sinni á málinu.