A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þess efnis að greiðsluhlutfall örorkulífeyris hennar skyldi lækkað úr 47,14% í 21,79% í samræmi við nýjan útreikning á búsetuhlutfalli hennar á Íslandi. Við útreikning búsetuhlutfalls leit nefndin til hlutfalls búsetu A á Íslandi annars vegar og í Danmörku hins vegar frá 16 ára aldri til fyrsta örorkumats og skipti síðan framreiknuðum búsetutíma hennar til 67 ára aldurs milli landanna eftir sömu hlutföllum. Byggðist sú aðferð nefndarinnar einkum á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um samræmingu almannatryggingakerfa. Athugun umboðsmanns laut að því hvort viðhlítandi lagastoð hefði verið fyrir því að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega með þessum hætti.
Í lögum um almannatryggingar var kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma umsækjenda um örorkulífeyri skyldi reikna með tímann fram til 67 ára aldurs. Umboðsmaður tók fram að eins og umrætt lagaákvæði væri orðað teldi hann, til samræmis við heimildir stjórnvalda annars vegar til að semja við erlend ríki um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita og hins vegar til að birta sem reglugerðir almannatryggingareglur Evrópusambandsins, að nánari ákvæði um hlutfallsreikning í Evrópureglugerðinni gætu haft þýðingu. Því yrði að taka til skoðunar hvort ákvæðin heimiluðu beitingu framreikniaðferðarinnar sem nefndin notaðist við og þá hvort þau væru að öðru leyti í samræmi við lög og stjórnarskrá. Það var álit hans að ekki yrði fundin skýr heimild í Evrópureglugerðinni fyrir því að skipta framreiknuðum búsetutíma hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nyti ekki bóta frá öðru EES-ríki. Í ljósi þess og með hliðsjón af orðalagi þess lagaákvæðis sem fjallar um ákvörðun búsetutíma og túlkun og framkvæmd stjórnvalda á því í tilvikum einstaklinga sem hafa verið búsettir utan EES-svæðisins, yrði ekki önnur ályktun dregin af lagagrundvelli málsins en að reikna bæri öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi í tilviki A. Úrskurður nefndarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög að þessu leyti. Þá taldi umboðsmaður tilefni til að vekja athygli Alþingis og félags- og jafnréttismálaráðherra á því að ákvæði laga um almannatryggingar um útreikning búsetutíma á Íslandi væru óskýr.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndar velferðarmála að taka mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og að meðferð málsins yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti hans. Þá beindi hann þeim tilmælum til nefndarinnar og Tryggingastofnunar að leysa með sama hætti úr öðrum málum sem lokið hefði verið með hliðstæðum hætti. Jafnframt mæltist hann til þess að stjórnvöld tækju mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í framtíðar störfum sínum.