Menntamál. Grunnskólar. Undanþága frá skyldunámi. Lagaheimild. Stjórnvaldsfyrirmæli. Skyldubundið mat. Meinbugir á stjórnvaldsfyrirmælum.

(Mál nr. 9616/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun skólastjóra grunnskóla um að hafna beiðni A og B um undanþágu frá skólasundi fyrir dóttur þeirra sem þá var nemandi í 1. bekk skólans. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist einkum á því að ekki væri heimilt samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla að veita umbeðna undanþágu. Þar væri mælt fyrir um að skólastjóri veiti ekki nemendum í 1.–7. bekk undanþágu vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi.

Umboðsmaður benti á að skólastjórum grunnskóla væri heimilt að veita nemendum undanþágu frá skyldunámi í tiltekinni námsgrein á grundvelli grunnskólalaga. Af þeirri heimild yrði ekki annað ályktað en að leggja yrði einstaklingsbundið mat á það hvort sýnt hefði verið fram á að gild rök mæltu með því að veita slíka undanþágu. Það var álit umboðsmanns að orðalag þess viðmiðs í aðalnámskrá grunnskóla sem byggt var á í málinu, um að skólastjóri veiti nemendum í 1.-7. bekk grunnskóla ekki undanþágu frá skólaíþróttum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi, væri sett fram með of fortakslausum hætti með hliðsjón af öðrum viðmiðum í aðalnámskrá og því skyldubundna mati sem skólastjórum grunnskóla væri falið samkvæmt grunnskólalögum. Taldi umboðsmaður að ráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að niðurstaða þess hefði tekið með fullnægjandi hætti mið af því skyldubundna mati sem mælt væri fyrir um í 3. mgr. 15. gr. grunnskólalaga. Af því leiddi að úrskurður mennta- og menningarmálaráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður taldi tilefni til að vekja athygli mennta- og menningarmálaráðuneytisins á meinbugum á orðalagi þeirra viðmiða í aðalnámskrá grunnskóla sem byggt var á í málinu. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það myndi fylgja eftir áformum um að endurskoða viðmið í aðalnámskrá grunnskóla. Einkum orðalag kaflans um undanþágur frá skyldunámi, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

Umboðsmaður beindi jafnframt þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál A og B til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þar um frá þeim. Ennfremur að ráðuneytið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Loks taldi umboðsmaður tilefni til að beina því til ráðuneytisins að kynna stjórnendum grunnskóla þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu samhliða breyttum viðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla.