Opinberir starfsmenn. Sveitarfélög. Ráðningar í opinber störf. Valdframsal. Birting stjórnvaldsfyrirmæla. Skýrleiki laga. Meinbugir.

(Mál nr. 9561/2018)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ráðningum Borgarsögusafns Reykjavíkur í tvö störf á Árbæjarsafni. Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort sá aðili sem var til þess bær samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar hefði haft umsjón með ráðningarferlinu og tekið ákvörðun um hverja skyldi ráða í störfin. Þá taldi umboðsmaður tilefni til að fjalla almennt um framsal valds til ráðningar starfsmanna hjá sveitarfélögum, hvaða kröfur ákvæði sveitarstjórnarlaga gerðu til þeirra mála og birtingu ákvarðana um slíkt valdframsal.

Umboðsmaður benti á að borgarstjórn Reykjavíkur hefði í samþykktum falið safnstjóra Borgarsögusafns Reykjavíkur vald til að ráða aðra starfsmenn safnsins. Það hefði því ekki verið í samræmi við lög og reglur um valdmörk innan borgarinnar að safnstjóri hefði falið tveimur starfsmönnum safnsins að ákveða hvaða umsækjendur skyldi ráða í tvö störf á safninu og að öðrum þeirra hefði verið falin umsjón með ráðningarferlinu.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framvegis yrði þess betur gætt að haga meðferð mála við ráðningar í störf hjá sveitarfélaginu í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu og áréttaði að þau almennu sjónarmið tækju jafnt til annarra sveitarfélaga. Enn fremur benti hann á mikilvægi þess að betur yrði hugað að ákvæðum laga og framkvæmd við framsal á ráðningarvaldi starfsmanna innan sveitarfélaga. Þá kom hann þeirri ábendingu á framfæri við ráðherra sveitarstjórnarmála að orðalag sveitarstjórnarlaga um að sveitarstjórn gæti með „almennum fyrirmælum“ fært ráðningarvald annarra starfsmanna frá framkvæmdastjóra yrði tekið til endurskoðunar og gert skýrara. Auk þess beindi hann því til ráðherra að hugað yrði að því í eftirliti ráðuneytisins með sveitarfélögunum að ákvarðanir og framkvæmd sveitarfélaganna við framsal ráðningarvalds væri í samræmi við lög. Að síðustu vakti umboðsmaður athygli á mikilvægi þess að betur yrði gætt að almennri og skipulegri birtingu á reglum, samþykktum og hliðstæðum ákvörðunum sveitarstjórna.