Lögheimili. Þjóðskrá.

(Mál nr. F72/2017)

Umboðsmaður Alþingis ákvað að kanna nánar hvernig staðið væri að meðferð mála þar sem lögheimili er breytt án þess að fyrir liggi skýr beiðni viðkomandi um það, þ.m.t. þegar breyting er byggð á gögnum sem komið hafa fram við meðferð máls hjá öðru stjórnvaldi. Af hálfu Þjóðskrár Íslands var upplýst að í ljósi þessa máls hefði verið ákveðið að breyta verklagi í slíkum málum þannig að það yrði tryggt að viðkomandi staðfesti sjálfur nýtt lögheimili áður en því væri breytt í þjóðskrá. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

Forathugun umboðsmanns lauk með bréfi til Þjóðskrár, dags. 31. október 2018, sem hljóðar svo:

Hér með tilkynnist að ég hef lokið forathugun minni á meðferð mála af hálfu Þjóðskrár Íslands þegar lögheimili einstaklinga er breytt án frumkvæðis þeirra.

Eins og áður hefur komið fram varð fréttaflutningur um að lögheimili manns hefði verið flutt til landsins X að honum forspurðum til þess að þjóðskrá var ritað bréf, dags. 26. september 2017. Þar var m.a. óskað eftir upplýsingum um lagagrundvöll breytingarinnar, málsmeðferð vegna hennar og hvort hún hafi verið dæmigerð fyrir slík mál. Ástæða þess að ég taldi rétt að óska eftir þessum upplýsingum er að ákvarðanir um breytt lögheimili geta í sumum tilvikum haft veruleg áhrif á réttarstöðu viðkomandi, s.s. í heilbrigðis- og almanna­tryggingakerfinu og vegna félagsþjónustu sveitarfélaga. Því er mikilvægt að meðferð þessara mála sé í réttu horfi hjá hlutaðeigandi stofnunum m.t.t. réttarstöðu og hagsmuna borgaranna.

Í svari Þjóðskrár, dags. 19. október 2017., kom m.a. fram að lög­heimili viðkomandi hefði verið breytt í kjölfar staðfestingar sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag, sem hann var aðili að, sem einnig var grundvöllur slita á skráðri sambúð. Í staðfestingunni hafi komið fram að maðurinn væri búsettur í landinu X. Lögheimili beggja aðila hafi í kjölfarið verið breytt í samræmi við vinnureglur stofnunarinnar. Vísað var til þess að samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003 þurfi við slit sambúðar sem skráð er í þjóðskrá að liggja fyrir hvernig farið skuli með forsjá og lögheimili barns. Í mörgum tilfellum tilkynni aðilar samhliða um nýtt lögheimili annars eða beggja þegar gengið sé frá þessu. Í kjölfarið berist þjóðskrá tilkynning frá sýslumanni um nýtt lögheimil aðila. Þessi tilkynning byggi á staðfestum samningi sem aðilar hafi samþykkt og skrifað undir og því sé ekki um að ræða neinar upplýsingar sem aðilar hafi ekki sjálfir staðfest.

Í kjölfarið taldi ég tilefni til að kannar nánar hvernig staðið væri að meðferð mála þar sem lögheimili er breytt án þess að fyrir liggi skýr beiðni viðkomandi þar um, þ.m.t. þegar breytingin er byggð á gögnum sem komið hafa fram við meðferð máls af hálfu annars stjórnvalds, sbr. bréf mitt til stofnunarinnar, dags. 18. desember sl.

Þjóðskrá upplýsti í bréfi, dags. 17. janúar sl., að tilkynning frá þriðja aðila um breytta lögheimilisskráningu, án þess að við­komandi tilkynni slíkt, væri ávallt meðhöndluð sem ábending. Viðkomandi væri greint frá henni og óskað eftir upplýsingum um búsetu. Bærust engin svör væru gögn málsins metin og tekin ákvörðun um hvort breyta ætti lögheimili aðila eða fella málið niður. Viðkomandi væri send tilkynning um lyktir málsins og leiðbeiningar um kæruheimild til æðra stjórnvalds væri lögheimilisskráningu breytt. Hvað snerti tilkynningar um skilnað að borði og sæng, lögskilnað eða aðrar tilkynningar frá sýslumanni hefði þjóðskrá einungis breytt lögheimili ef fram kæmi í tilkynningunni að einstaklingur hefði sjálfur upplýst um breytt lögheimili hjá sýslumanni. Þjóðskrá hefði þó í ljósi þessa máls ákveðið að breyta verklagi slíkra mála. Þegar tilkynningar bærust samhliða úrlausn mála hjá sýslumanni yrði tryggt að viðkomandi staðfesti sjálfur nýtt lögheimili áður en breyting væri gerð í þjóð­skrá. Greint yrði frá breytingunum eftir samráð við sýslumanns­embættin.

Eftir að hafa spurst fyrir um stöðu málsins 21. ágúst sl. fengust þær upplýsingar frá Þjóðskrá í byrjun september sl. að unnið væri að nýju verklagi ásamt sýslumannsembættunum. Í bréfi, dags. 23. október sl., upplýsti Þjóðskrá að stofnunin hefði fundað með fulltrúum sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu og verkferill verið yfirfarinn. Sameiginleg niðurstaða hefði verið sú að sýslumenn myndu halda áfram að gefa aðilum kost á að upplýsa um nýtt lögheimili við skilnað eða sambúðar­slit með þeim leiðbeiningum að tilkynningunni yrði komið til þjóðskrár samhliða skráningu samvistarslita, skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar. Aðilar staðfestu þessar uppýsingar með undir­ritun sinni hjá sýslumanni. Ef aðilar staðfestu ekki nýtt lögheimili hjá sýslumanni yrði lögheimili þeirra ekki breytt við móttöku/skráningu sambúðaslita, skilnaðar að borði og sæng eða lög­skilnaðar. Yrði aðili þá sjálfur að tilkynna þjóðskrá um nýtt lög­heimili eða eftir atvikum sérstakt stjórnsýslumál hafið af hálfu stofnunarinnar vegna lögheimilisskráningar aðila.

Í bréfi þjóðskrár kom jafnframt fram að stofnunin hefði fundað með dómsmálaráðuneytinu og samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneytinu um málið. Síðarnefnda ráðuneytið væri að kanna möguleika á að fjalla með skýrari hætti um skráningu lögheimilis við sambúðaslit, skilnað að borði og sæng og lögskilnað í nýrri reglugerð um lögheimili og aðsetur, sem verið væri að útfæra á grundvelli 5. gr. og c- og d-liðar 18. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili, sem taka gildi 1. janúar nk.

Með hliðsjón af þessu tel ég ekki tilefni til að taka málið til formlegrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis.