Útlendingar. Málsmeðferð.

(Mál nr. F78/2018)

Að gefnu tilefni var ákveðið að kanna virkjun verkferla af hálfu Útlendingastofnunar þegar grunur leikur á að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi orðið fyrir pyndingum. Það kom m.a. fram að þrátt fyrir að umsækjendum sem þess þurfi hafi verið útveguð aðstoð hafi ekki legið fyrir formlegir og staðfestir verkferlar innan stofnunarinnar um viðbrögð við hugsanlegum þolendum pyndinga. Hins vegar standi yfir þróun tiltekins skimunarlista sem notast eigi við í framtíðinni. 

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar en áréttaði að mikilvægt væri að slíkt mælitæki taki mið af ólíkum ástæðum sem geta legið til grundvallar því að umsækjandi teljist í viðkvæmri stöðu samkvæmt lögum nr. 80/2016, um útlendinga, þ. á m. að hann hafi orðið fyrir pyndingum.

Forathugun umboðsmanns lauk með bréfi til Útlendingastofnunar, dags. 31. október 2018, sem hljóðar svo:

Hér með tilkynnist að ég hef lokið forathugun minni á virkjun verkferla af hálfu Útlendingastofnunar þegar grunur leikur á að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi orðið fyrir pyndingum.

Eins og fram hefur komið í fyrri samskiptum þá varð frétta­flutningur af úrskurði kærunefndar útlendinga­mála í janúar sl. til þess að ég skrifaði Útlendingastofnun bréf, dags. 28. febrúar sl. Þar var m.a. óskað eftir viðbrögðum stofnunarinnar vegna málsins en einnig að hún upplýsti hvort til staðar væru verkferlar þegar grunur leikur á að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi orðið fyrir pyndingum og þá hverjir þeir væru. Dómsmála­ráðuneytinu var jafnframt ritað bréf, dags. sama dag, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort málið hefði orðið tilefni til einhverra viðbragða af hálfu ráðuneytisins eða hvort slíkt stæði til.

Tilefni þess að ég taldi rétt að óska eftir framangreindum upp­lýsingum er sú skylda sem hvílir á Útlendingastofnun við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Stofnunin skal tryggja, eins fljótt og kostur er og með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, að fram fari einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laganna. Einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum eru meðal þeirra sem taldir eru upp í í ákvæðinu dæmaskyni.

Í svari Útlendingastofnunar, dags. 3. apríl sl., kom m.a. fram að ekki hafi legið fyrir formlegir og staðfestir verkferlar innan stofnunarinnar um viðbrögð við hugsanlegum þolendum pyndinga. Hins vegar hafi það verið svo að ef umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi lýst atburðum eða líðan sem hafi kallað á aðkomu sálfræðinga, geðlækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna hafi viðkomandi verið útvegaður tími og tryggð sú aðstoð sem viðkomandi hafi þurft á að halda og eigi rétt á í samræmi við reglugerð nr. 540/2017, um útlendinga. Í því sambandi var verklagi slíkra mála nánar lýst.

Í svari stofnunarinnar kom jafnframt fram að frá haustinu 2017 hafi verið reynt að finna ákjósanlegt mælitæki sem nýta mætti til að bæta skimun fyrir andlegum veikindum hjá umsækjendum um alþjóðlega vernd. Meðan á henni stóð hafi kærunefnd útlendingamála beint þeirri kröfu til Útlendingastofnunar að bætt yrði úr skimun fyrir andlegum veikindum og virkjaðir tilteknir verkferlar ef grunur væri um að umsækjandi um alþjóðlega vernd hefði orðið fyrir pyndingum. Ákveðið hefði verið að hefja tilraunaverkefni til u.þ.b. eins mánaðar þar sem tiltekið próf, svokallað Refugee Health Screener – 15 (RHS–15), yrði lagt fyrir í öllum fyrstu viðtölum til að skima fyrir hvort umsækjandi þyrfti á aðstoð að halda. Í svari dómsmálaráðuneytisins, dags. 12. mars sl., var tekið fram að Útlendingastofnun hefði haldið ráðuneytinu upplýstu um framangreinda vinnu og muni það fylgjast áfram vel með framvindu málsins og vera innan handar við frekari aðstoð eða ráðleggingar, sé þess þörf. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 22. maí sl., kemur enn fremur fram að við notkun prófsins hafi komið í ljós að aðlaga þyrfti viðmið þess betur að aðstæðum Útlendingastofnunar. Til standi að notast áfram við skimunar­listann með aðlöguðum viðmiðum og styðjast við niðurstöður hans þegar tekin er ákvörðun um hvort leiðbeina eigi viðkomandi sérstaklega til heilbrigðis­starfsmanna og eftir atvikum óska eftir sérstöku sálfræðimati.

Í ljósi þeirrar vinnu við innleiðingu verkferla og skimunarlista sem lýst er í svörum Útlendingastofnunar, sem og að dómsmálaráðuneytið kveðst ætla að fylgjast áfram með framvindu málsins og vera stofnuninni innan handar við frekari aðstoð eða ráðleggingar, tel ég ekki tilefni til að taka framkvæmd Útlendinga­stofnunar að þessu leyti til formlegrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ég mun við undirbúning að skýrslu minni til Alþingis fyrir árið 2018 óska eftir upplýsingum um stöðu málsins nema upplýsingar um það hafi borist mér áður.

Um leið og ég lýk forathugun minni á þessu máli árétta ég mikilvægi þess að Útlendingastofnun uppfylli þær skyldur sem á stofnunni hvíla, skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, í þeirri vinnu sem framundan er á þessu sviði. Mikilvægt er að þau mælitæki sem stuðst er við taki, eftir því sem unnt er, mið af þeim ólíku ástæðum sem geta legið til grundvallar þess að umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist í viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga nr. 80/2016, þ. á m. að hann hafi orðið fyrir pyndingum, sbr. 14. gr. pyndingasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Ég tek fram að kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðuneytinu verður sent afrit af þessu bréfi til upplýsingar.