Foreldrar og börn. Forsjá. Umgengnisréttur.

(Mál nr. 182/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 4. maí 1990.

A lagði fram kvörtun út af forsjá og umgengnisrétti vegna barns hennar B, en dómsmálaráðuneytið hafði fengið föður barnsins forsjána. Laut kvörtun A í fyrsta lagi að þeirri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 28. ágúst 1989, að hafna kröfu A um breytta forsjá B og fá A forsjána. Í öðru lagi varðaði kvörtun A ætlaða ófullnægjandi öflun gagna um aðbúnað barnsins hjá föðurnum, sem búsettur var erlendis. Í þriðja lagi gerði A athugasemdir við það, að dómsmálaráðuneytið skyldi ekki hafa fjallað um umgengnisrétt í tengslum við ákvörðun þess um forræðið. Eftir viðtöku kvörtunar A óskaði ég eftir því við dómsmálaráðherra, að ráðuneyti hans skýrði afstöðu sína til kvörtunarinnar og léti mér í té þau gögn, sem málið vörðuðu, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Bárust mér gögn og skýringar ráðuneytisins. Gaf ég lögmanni A kost á því að gera athugasemdir við greinargerð ráðuneytisins og bárust mér athugasemdir frá lögmanninum.

Að kvörtuninni athugaðri og þeim skýringum, sem dómsmálaráðuneytið hafði fram að færa, varð niðurstaða mín eins og fram kemur í bréfi mínu til A, dags. 4. maí 1990, varðandi einstaka þætti þess svo sem hér segir:

„1. Breyting forsjár B.

Ég tók fram, að um hefði verið að ræða úrlausn um breytingu á fyrri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um forsjá barns. Um það færi eftir 2. mgr. 39. gr. barnalaga nr. 9/1981. Ég taldi rétta þá skýringu ráðuneytisins, að breyttar aðstæður þess foreldris, sem ekki hefði forsjá barns, réttlættu ekki einar út af fyrir sig, að ákvörðun um forsjá yrði breytt samkvæmt lagaákvæði þessu. Um yrði að vera að ræða breytingar á aðstæðum að öðru leyti, sem yrðu að teljast skaðlegar hagsmunum og þörfum barns miðað við þá kosti, sem forsjárbreytingu fylgdu, eða breytingar, sem stefndu hag barns í slíka hættu. Breytingar hefðu orðið á högum föður B eftir að forsjárúrskurðir dómsmálaráðuneytisins hefðu gengið, þar sem hann hefði flust úr landi og stofnað heimili erlendis. Dómsmálaráðuneytið hefði í greinargerð sinni gefið ítarlega skýringu á því, hvernig það komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri réttlætanlegt að breyta forsjá B. Þar á meðal hefði ráðuneytið skýrt þá skoðun sína, að staðhæfingar um slæman aðbúnað B á heimili föður ættu ekki við rök að styðjast. Ég skýrði A frá því, að athugun mín hefði ekki leitt í ljós, að dómsmálaráðuneytið hefði við úrlausn sína frá 28. ágúst 1989 um forsjá B lagt til grundvallar ólögmæt sjónarmið eða óforsvaranlegt mat á aðstæðum eða atvikum, sem máli skiptu.

2. Gagnaöflun dómsmálaráðuneytisins.

Varðandi þennan þátt kvörtunarinnar benti ég á, að fyrir dómsmálaráðuneytinu hefðu legið andstæðar skýrslur um hagi B á heimili föður erlendis og hefðu skýrslur þessar verið gefnar af mönnum tengdum deiluaðilum. Féllst ég á það með ráðuneytinu, að almennt yrði lítt byggt á slíkum skýrslum og ekki hefði verið ástæða til að ganga eftir skýrslum frá öðrum slíkum aðilum. Ég vísaði til þess, að aflað hefði verið álits sálfræðings varðandi B og skýrslu félagsþjónustu erlendis um hagi og aðstæður barnsins þar. Ekki yrði séð, að ástæða væri til þess að tortryggja skýrslu stofnunarinnar. Tjáði ég A, að ekki væru rök til þess að mínum dómi að finna að gagnaöflun ráðuneytisins.

3. Umgengnisréttur.

Ég taldi ekki ástæðu til athugasemda af minni hálfu við þá ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að láta úrlausn um umgengnisrétt bíða síðari tíma eins og atvikum málsins væri háttað.“