Foreldrar og börn. Ákvörðun og endurskoðun meðlagsfjárhæðar.

(Mál nr. 195/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 29. desember 1990.

I.

Hinn 27. október 1989 bar A fram kvörtun við mig út af ákvörðunum dómsmálaráðuneytisins um meðlag, er A var gert að greiða með börnum sínum þremur í tilefni af skilnaði. Í kvörtun A kom fram, að hann taldi, að ekki hefði verið farið að lögum, þegar upphæð meðlagsins var ákveðin, þrátt fyrir fullyrðingar dómsmálaráðuneytisins um hið gagnstæða. Ráðuneytið hefði engra upplýsinga aflað sér um tekjur A eða fyrrv. eiginkonu hans, þegar farið hefði verið fram á, að úrskurður um meðlag yrði endurskoðaður, þrátt fyrir að beiðni um það hefði m.a. byggst á lækkuðum tekjum. Þá hefði meðlagsúrskurður ráðuneytisins eingöngu byggst á ósk móður barnanna og danskri vinnureglu um tekjuviðmiðun meðlagsskyldra foreldra án tillits til barnafjölda. A vísaði til þess að í 14. og 15. gr. barnalaga nr. 9/1981 segði m.a., að framfærslueyri skyldi ákveða með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þ.á. m. aflahæfi þeirra. Ennfremur að sambúðarforeldri væri skylt að framfæra sambúðarbarn sem sitt eigið væri. Taldi A, að ráðuneytið hefði horft fram hjá 14. og 15. gr. barnalaga þegar meðlagið hefði verið úrskurðað.

II

Ég taldi kvörtun A lúta að tveimur atriðum. Annars vegar að því, að upphafleg ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 6. janúar 1988 hefði ekki verið í samræmi við lög, og hins vegar að því, að ráðuneytið hefði ekki staðið réttilega að afgreiðslu beiðni A um breytingu á úrskurði um tvöfalt meðlag með börnunum. Víkur fyrst að niðurstöðu athugunar minnar á fyrra atriðinu. Umrædd ákvörðun var úrskurður ráðuneytisins í tilefni af hjónaskilnaðarmáli A og B. Kvað úrskurðurinn svo á, að B skyldi hafa til bráðabirgða forsjá þriggja barna þeirra. Þá var svo kveðið á í úrskurðinum, að með vísan til 14. og 15. gr. barnalaga skyldi A greiða B tvöfalt meðlag með hverju barni eins og barnalífeyrir skv. lögum um almannatryggingar ákvarðaðist hverju sinni frá 1. nóv. 1987 þar til endanlega yrði tekin ákvörðun um forsjána. Meðlagið skyldi greiðast mánaðarlega fyrirfram en áfallið meðlag þegar í stað.

Í bréfi mínu til A, dags. 28. desember 1990, sagði svo um niðurstöðu athugunar minnar á þessum þætti málsins:

„Í leyfisbréfi til lögskilnaðar, sem gefið var út 30. maí 1988, var fyrrgreind skipan á forsjá og meðlagsgreiðslum staðfest. Úrskurður dómsmálaráðuneytisins um að þér greiðið tvöfalt lágmarksmeðlag með börnum yðar er reistur á 1. mgr. 14. gr., 2. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. barnalaga nr. 9/1981. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. barnalaga ber valdsmanni (dómsmálaráðuneytinu) að ákveða framfærslu með hliðsjón af þörfum

barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þ.á m. aflahæfi þeirra. Í 2. mgr. 16. kemur síðan fram, að í meðlagsúrskurði megi aldrei ákveða meðlagsgreiðslur lægri en sem nemi barnalífeyri, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma í lögum um almannatryggingar. Tilvitnuð lagaákvæði veita dómsmálaráðuneytinu töluvert svigrúm til að ákvarða fjárhæð meðlags, eftir því sem eðlilegt þykir í hverju tilfelli, og til að móta nánar þær reglur, sem fylgt er í þeim efnum.

Í skýringum dómsmálaráðuneytisins, dags. 31. maí 1990, eru skilmerkilega rakin þau sjónarmið, sem stuðst er við, þegar úrskurðað er hærra meðlag en lágmarksmeðlag, en jafnframt áréttað, að þar sé aðeins um viðmiðanir að ræða og að líta verði til atvika allra í hverju máli. Ég tel, að þau sjónarmið, sem dómsmálaráðuneytið hefur lagt til grundvallar ákvörðun um tvöfalt meðlag í því tilfelli, sem hér um ræðir, og rakin eru í skýringum ráðuneytisins, séu í samræmi við framangreind lagaákvæði. Þá hefur athugun mín ekki leitt í ljós, að dómsmálaráðuneytið hafi við úrlausn sína um tvöfalt meðlag með börnum yðar lagt til grundvallar ólögmæt sjónarmið að öðru leyti eða óeðlilegt mat á aðstæðum.“

III.

Að því er síðara atriðið varðar, þ.e. afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á beiðni um breytingu á úrskurði um tvöfalt meðlag, þá voru málavextir þeir, að A leitaði eftir slíkri breytingu á grundvelli 20. gr. barnalaga með bréfi, dags. 10. nóvember 1988. Hann færði fram þau rök, að ekki hefði verið tekið tillit til tekna B á þeim tíma, er úrskurðurinn var kveðinn upp, en B hefði þá verið útivinnandi. Hann bar því og við, að hann væri í sambúð og með tvö börn á framfæri sínu og að tekjur hefðu lækkað talsvert að undanförnu svo sem hann skýrði frekar. Dómsmálaráðuneytið synjaði erindi A hinn 23. desember 1988.

Ég tjáði A, að hafa yrði í huga við mat á því, hvort ráðuneytið teldist hafa kannað málið nægilega, að sambúð hans og framfærsluhagir svo og tekjumál B hefðu legið fyrir, þegar lögskilnaðarleyfi var gefið út. Þessi atriði hefðu því ekki gefið ráðuneytinu ástæðu til að breyta fyrri úrskurði sínum. Rök varðandi tekjulækkun A sjálfs hefðu hins vegar lotið að breyttum aðstæðum frá útgáfu lögskilnaðarleyfis og væri því haldið fram, að tekjurnar hefðu lækkað talsvert frá því sem var, þegar ákvörðun um tvöfalt meðlag hefði verið tekin. Í bréfi mínu til A vísaði ég til skýringa dómsmálaráðuneytisins varðandi þetta atriði. Þar kæmi fram, að ekki hefði þótt ástæða til að kalla eftir gögnum um fjárhag aðila vegna kröfu A um breytingu á úrskurði ráðuneytisins frá 30. maí 1988, þar sem krafan hefði verið sett fram fimm og hálfum mánuði eftir að úrskurðurinn gekk, þ.e. 15. nóvember 1988. Hefði þá verið höfð sérstök hliðsjón af þeirri starfsreglu ráðuneytisins að leggja tekjur aðila á síðustu tveimur til þremur árum til grundvallar við ákvörðun meðlags.

Þá sagði svo í bréfi mínu til A varðandi þennan lið kvörtunar hans:

„Beiðni yðar um endurupptöku er reist á 1. mgr 20. gr. barnalaga nr. 9/1981, eins og fram er komið. Ákvæðið heimilar valdsmanni að breyta meðlagsúrskurði, ef rökstudd beiðni kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst. Eðlilegt er að skýra þetta lagaákvæði svo, að gera verði sennilegt að hagir foreldra eða barns hafi breyst til nokkurrar frambúðar. Beiðni yðar, sem kom fram aðeins fimm og hálfum mánuði eftir að lögskilnaðarleyfi var gefið út, gaf ekki tilefni til að ætla að þessu skilyrði væri fullnægt. Ég tel því, að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 23. desember 1988 hafi verið í samræmi við nefnt lagaákvæði og meðferð þess á beiðni yðar gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu.“