A bar fram kvörtun við mig út af þeirri ákvörðun Barnaverndarráðs Íslands, að synja um frestun á ákvörðun barnaverndarnefndar Y-kaupstaðar um að svipta A forræði barnsins B með vísan til 2. mgr. 56. gr. laga nr. 53/1966 um vernd barna og ungmenna. Í ákvæði þessu er tekið fram, að málskot til barnaverndarráðs fresti ekki framkvæmd ákvörðunar barnaverndarnefndar, en „þegar sérstaklega stendur á, getur barnaverndarráð þó ákveðið, að framkvæmd ályktana barnaverndarnefndar skuli frestað, uns ráðið hefur fellt úrskurð sinn. Skal barnaverndarráð þá hraða störfum svo sem framast er unnt.“ B var á þeim tíma, er hér skipti máli, vistað á vistheimili með samþykki móður. Synjun barnaverndarráðs var frá 26. júní 1990, en úrskurð sinn í málinu kvað ráðið upp 12. júlí 1990. Ég taldi samkvæmt þessu ekki ástæðu til þess að gera athugasemd við umrædda synjun barnaverndarráðs.
Kvörtun A laut einnig að hæfi nefndarmanna í barnaverndarnefnd Y-kaupstaðar til þess að ákveða forsjársviptinguna og fara yfirleitt með það mál vegna fyrri afskipta nefndarinnar í forsjármáli A, er varðaði önnur börn hennar. Ég vísaði til þess, að í 14. gr. laga nr. 53/ 1966 væri tekið fram, að um vanhæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála giltu ákvæði 36. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, eftir því sem við gæti átt. Ég kvað það skoðun mína, að almennt gætu nefndarmenn ekki talist vanhæfir til meðferðar forsjársviptingarmáls samkvæmt lagaákvæðum þessum, þótt þeir hefðu áður fjallað um forsjá barna sama foreldris og í hlut ætti. Slík niðurstaða yrði aðeins byggð á sérstökum atvikum, sem til þess væru fallin að óhlutdrægni yrði dregin í efa. Hefði athugun mín á gögnum málsins ekki leitt slík atvik í ljós.