Heilbrigðismál. Skilyrði fyrir heimaslátrun búfjár.

(Mál nr. 334/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. nóvember 1990.

A taldi, að ákvæði í reglugerð nr. 459/1989 um breytingu á heilbrigðisreglugerð nr. 45/1972 bönnuðu honum að slátra sjálfur eigin búfé, sem hann hélt í landi „lögbýlisins“ X í Y-kaupstað. Í bréfi mínu til A, dags. 27. nóvember 1990, tók ég fram, að nefnd reglugerð væri breyting á reglugerð nr. 45/1972, en heimild til setningar heilbrigðisreglugerðar væri nú 2. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Samkvæmt 8. tl. 2. gr. laga þessara skyldu vera í heilbrigðisreglugerð almenn ákvæði um matvæli og aðrar neyslu og nauðsynjavörur svo og húsakynni, tæki og allt, er snerti matvælaframleiðslu og matvælaiðnað, matvörugeymslur og matvæladreifingu. Í samræmi við þetta ákvæði hefðu í 176. gr. reglugerðar nr. 45/1972 verið sett ákvæði um sláturhús. Með reglugerð nr. 716/ 1983 hefði verið aukið við þá grein og svofelld ákvæði sett í 4. tl. 176. gr.: „Í kaupstöðum og kauptúnum er óheimilt að slátra búfé utan sláturhúsa, enda þótt afurðir séu ætlaðir til heimilisnota eingöngu“. Með reglugerð nr. 459/1989 hefði enn verið aukið við 176. gr. reglugerðarinnar og bætt við 5. tl. svohljóðandi: „Öll heimaslátrun utan kaupstaða og kauptúna er óheimil. Ábúandi lögbýlis í strjálbýli má þó slátra hæfilegum fjölda af eigin búfé heima á lögbýlinu sé það eingöngu ætlað til heimilisnota á lögbýlinu. Með öllu er óheimilt að selja slíkt kjöt eða á annan hátt dreifa því frá lögbýlinu, t.d. til gjafa, vinnslu eða frystingar.“ Ég tók fram, að ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nú lög nr. 82/1988, heimiluðu, að sett væru ákvæði í reglugerð um, hvar og hvernig slátra mætti búpeningi, þegar nýta ætti afurðirnar sem matvæli. Slík fyrirmæli þyrftu að vera skýr ætti að vera unnt að beita þeim og borgararnir að geta gert sér grein fyrir efni þeirra. Ég tjáði A jafnframt að í tilefni af athugun minni á nefndum reglugerðarákvæðum hefði ég ritað heilbrigðisráðherra bréf, dags. 30. nóvember 1990, er fylgdi svarbréfi mínu til A í ljósriti. Bréf þetta var svohljóðandi:

„Ég hef haft til athugunar kvörtun, sem fram er borin vegna ákvæða í 176. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 45/1972, sbr. breytingar með reglugerðum nr. 716/1983 og nr. 459/1989. Ég hef afgreitt kvörtun þessa, eins og fram kemur í meðfylgjandi ljósriti af bréfi mínu til [A]. Af þessu tilefni tel ég rétt að vekja athygli ráðuneytis yðar á því, að í nefndu ákvæði er gildissvið ákvæðanna miðað við „kaupstaði“, „kauptún“ og „lögbýli“, án þess að fram komi skilgreining á þessum hugtökum eða tilvísun til skilgreiningar í öðrum lögum. Rétt er hér einnig að minna á ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um skipan sveitarfélaga. Tel ég vera athugunarefni, hvort ekki sé ástæða til að afmarka með skýrari hætti gildissvið framangreindra reglugerðarákvæða.“

Vegna bréfs A að öðru leyti tjáði ég honum í bréfi, dags. 30. nóvember 1990, að þar væri ekki tilgreint, hvort og þá með hvaða hætti ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda á grundvelli nefndra reglugerðarákvæða hefðu beinst að honum. Samkvæmt lögum nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis fjallaði umboðsmaður um kvartanir vegna tiltekinna stjórnsýslugerninga, enda hefði máli þá áður verið skotið til æðra stjórnvalds, væri heimild til slíks, sbr. t.d. 30. gr. laga nr. 82/1988. Væri því ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu í kvörtun hans.

Í framhaldi af bréfi mínu, barst mér afrit af bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 1l. desember 1990, til Hollustuverndar ríkisins. Þar sagði:

„Umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli ráðuneytisins á því að í 176. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 45/1972, með breytingu nr. 716/1983 og nr. 459/1989, sbr. nú 82. gr. tl. 14 og 15 í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, sé gildissvið miðað við „kaupstað“, „kauptún“ og „lögbýli“, án þess að fram komi skilgreining á þessum hugtökum eða vísað sé til skilgreininga í öðrum lögum. Ennfremur vekur umboðsmaður Alþingis athygli á ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um skipan sveitarfélaga. Telur hann og athugunarefni, hvort ekki sé ástæða til að afmarka með skýrari hætti gildissvið framangreindra reglugerðarákvæða.

Ráðuneytið kemur hér með ábendingum umboðsmanns Alþingis á framfæri með beiðni um að Hollustuvernd ríkisins fjalli um málið með hliðsjón af ábendingunum. Ráðuneytið getur fyrir sitt leyti fallist á að kveða þurfi á um þessa þætti með skýrari hætti t.d. þannig að miðað sé við bóndabýli, þannig að ekki þurfi að skýra orðið „lögbýli“ enda búfjárhald bundið leyfum sem kunnugt er.“