Húsnæðismál. Húsfélög og samtök í verkamannabústöðum. Skylduaðild að húsfélagi.

(Mál nr. 175/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. september 1990.

A bar fram kvörtun við mig hinn 12. september 1989 út af samtökum húsfélaga verkamannabústaða í tilteknu hverfi í Reykjavík. Kvörtun A laut í fyrsta lagi að því, að hún væri ekki sátt við skyldu til að vera í húsfélagasamtökum þessum. Í öðru lagi taldi hún tilteknar ákvarðanir samtakanna ekki lögmætar. Í bréfi mínu til A, dags. 17. september 1990, vísaði ég til þess, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis ætti umboðsmaður að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og af þeirri reglu leiddi, að hann gæti ekki fjallað um ágreining einstaklinga, þ.m.t. ágreining einstaklinga í félögum, sem þeir ættu aðild að, og ágreining milli slíkra félaga. Af þessum ástæðum hefði athugun mín beinst að því, hvort stjórnvöld hefðu átt hlut að máli, að því er snerti þau atriði, sem kvörtunin beindist að, eða þeim borið að láta nefnd atriði til sín taka. Ég hefði því aflað upplýsinga félagsmálaráðuneytisins, húsnæðismálastjórnar og stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík. Í bréfi mínu, dags. 17. september 1990, greindi ég A frá niðurstöðu athugana minna. Sagði svo orðrétt um þær:

„1. Aðild að umræddum húsfélagasamtökum.

Þegar þér festuð kaup á íbúð yðar, voru í gildi lög nr. 30/1970 um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Í IV. kafla þeirra laga voru ákvæði um Byggingarsjóð verkamanna og verkamannabústaða. Í 4. mgr. 25. gr. þeirra laga var svofellt ákvæði:

„Sala íbúðar til umsækjanda, sem fengið hefur úthlutun, fer fram með þeim hætti, að umsækjandi fær skriflegt afsal fyrir íbúðinni frá sveitarstjórn gegn fullnaðargreiðslu, sbr. 2. mgr. og yfirtöku lána samkvæmt B- og C-liðum 22. gr. Í afsali skal tekið fram, að íbúðin sé háð ákvæðum þessa kafla um verkamannabústaði, eins og þau eru á hverjum tíma. Enn fremur skal í afsali kveða á um skyldu búðareiganda til þátttöku í húsfélagi með öðrum íbúðareigendum í fjölbýlis- eða sambýlishúsum, sem annist sameiginlegt viðhald húsanna, sameiginlegar greiðslur og annað, er stjórn verkamannabústaða ákveður sem verkefni húsfélags.“

Líkt ákvæði var einnig í síðari lögum, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins:

„Í afsali skal taka fram, að íbúðin sé háð ákvæðum laga þessara eins og þau eru á hverjum tíma. Enn fremur skal í afsali kveða á um skyldu íbúðareiganda til þátttöku í húsfélagi með öðrum íbúðareigendum í sambýlishúsinu, sem annist sameiginleg verkefni eftir nánari ákvörðun stjórnar verkamannabústaða.“

Í 2. mgr. 47. gr. laga nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins var svohljóðandi ákvæði:

„Í afsali skal taka fram að íbúðin sé háð ákvæðum laga þessara eins og þau verða á hverjum tíma. Enn fremur skal í afsali kveða á um skyldu íbúðareiganda til þátttöku í húsfélagi með öðrum íbúðareigendum í sambýlishúsinu sem annist sameiginleg verkefni.“

Í núgildandi lögum nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins er ákvæði í 2. mgr. 64. gr. laganna, sem er samhljóða 2. mgr. 47. gr. laga nr. 60/1984.

Í gildistíð ofangreindra laga hafa jafnframt gilt reglugerðir, sem settar hafa verið með stoð í lögunum. Hefur þar einnig verið kveðið á um skyldu íbúðareiganda til þátttöku í húsfélagi með öðrum íbúðareigendum í sambýlishúsum.

Í afsali fyrir íbúð yðar, sem þinglýst var á árinu 1977, segir, að íbúðin sé háð ákvæðum laga um verkamannabústaði, eins og þau séu á hverjum tíma. Í afsalinu segir ennfremur:

„Stjórn verkamannabústaða í Reykjavík hefir sett grundvallarreglur um verkefni og skipan húsfélaga í verkamannabústöðum í [X-hverfi] í Reykjavík. Reglur þessar, sem eru þinglýstar eru útgefnar 30. júlí 1976. Kaupandi hefur kynnt sér þessar reglur og skuldbindur sig til þess að hlíta þeim.“

Það er skoðun mín að ofangreind lagaákvæði hafi falið í sér nægilega heimild til stofnunar umræddra Samtaka húsfélaga verkamannabústaða í [X-hverfi] og til að skylda eigendur íbúða þar til aðildar að samtökunum.

2. Ákvarðanir stjórnar húsfélagasamtakanna.

Enda þótt stofnun umræddra húsfélagasamtaka hafi verið lögmæt, getur engu að síður risið vafi um hlutverk þeirra og verksvið og þá ekki síst eftir stofnun húsfélaga í einstökum fjölbýlishúsum, sem lúta þá almennt lögum nr. 59/1976 um fjölbýlishús (sjá Alþt. 1975, A-deild, bls. 1401). Getur þannig risið spurning um, hvaða ákvarðanir heyri beinlínis undir einstök húsfélög og hverjar verði aðeins teknar sameiginlega af húsfélögunum. Sama máli gegnir um það, hvernig kostnaður af framkvæmdum eigi að skiptast. Fjallar kvörtun yðar einmitt um slíkan ágreining.

Það er skoðun stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík, húsnæðismálastjórnar og félagsmálaráðuneytis að þessir aðilar hafi ekki vald til að skera úr ágreiningi af því tagi, sem hér ræðir um. Ég vil ekki staðhæfa, að sú skoðun fái ekki staðist. Af því leiðir hins vegar að ekki er heldur á starfssviði mínu að fjalla um slík ágreiningsmál. Verða þeir, sem í hlut eiga, að leggja mál sín fyrir dómstóla, ef ekki tekst að ljúka þeim með samkomulagi.

3. Samantekt.

Niðurstaða mín er samkvæmt framansögðu sú, að ég geti ekki fjallað frekar um kvörtun yðar. Æskilegra hefði hins vegar verið að mótaðar hefðu verið skýrari reglur um starfssvið húsfélaga í verkamannabústöðum gagnvart samtökum af því tagi, sem hér hefur verið rætt um.“