Húsnæðismál. Forkaupsréttur sveitarfélaga að félagslegum íbúðum.

(Mál nr. 187/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 2. maí 1990.

Hinn 10. október 1989 kvartaði A við mig út af því að bæjarráðið í X-kaupstað hefði hafnað beiðni hennar um, að bærinn félli frá forkaupsrétti að íbúð hennar í bænum. Taldi A, að sér hefði verið mismunað að þessu leyti, þar sem dæmi væru um það, að bærinn hefði fallið frá forkaupsrétti. Í bréfi mínu til A, dags. 2. maí 1990, sagði svo:

„Samkvæmt þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, gilti um íbúð yðar 2. gr. laga nr. 106/1970 um sölu á íbúðum, sem byggðar eru af framkvæmdanefnd byggingaáætlunar í Reykjavík eða til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Átti [X-kaupstaður] því forkaupsrétt að íbúðinni. Með bráðabirgðalögum nr. 50/1983 um breyting á lögum nr. 51/1980 um Húsnæðisstofnun ríkisins voru lög nr. 106/1970 felld úr gildi, án þess að tekið væri fram, hvernig fara skyldi um forkaupsrétt samkvæmt þeim lögum. Bráðabirgðalögin voru lögð fyrir Alþingi 1983-1984 en voru ekki staðfest á þinginu. Á sama þingi voru samþykkt lög nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins, en þar voru heldur ekki nein ákvæði um það, hvernig fara ætti með forkaupsrétt og aðrar kvaðir samkvæmt lögum nr. 106/1970. Í lögum nr. 77/1985 um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. 1. gr., var hins vegar svo kveðið á, að sveitarfélög skyldu eiga forkaupsrétt að íbúðum, sem byggðar hefðu verið til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis fyrir gildistöku laga nr. 51/1980, enda hefðu ríki og sveitarfélög lánað til kaupa þeirra íbúða og þau lán verið til 40 ára eða lengri tíma.

Því hefur verið haldið fram, að lög nr. 106/1970 hafi gengið í gildi á ný, þar sem bráðabirgðalög nr. 50/1983 hefðu ekki verið staðfest á þinginu 1983 og virðist gengið út frá þeirri niðurstöðu í lögum nr. 77/1985, sbr. 2. gr. Hvað sem því líður er ljóst, að óvissa ríkti um forkaupsrétt að íbúðum af því tagi, er hér ræðir um, frá gildistöku bráðabirgðalaga nr. 50/1983 og fram að gildistöku laga nr. 77/1985. Verður ekki betur séð en að síðastgreind lög nr. 77/1985 áskilji [X-kaupstað] forkaupsrétt að íbúð yðar. Sjálfsagt má deila um, hvort með lögum nr. 77/1985 hafi eldri forkaupsréttur aðeins verið áréttaður eða nýr stofnaður. Ég tel hins vegar ekki grundvöll fyrir því, að ég fjalli um það atriði, þar sem umboðsmanni Alþingis er almennt aðeins ætlað að fjalla um stjórnsýslu stjórnvalda en ekki lagasetningu Alþingis. Ég geng þess vegna út frá því, að [X-kaupstaður] eigi forkaupsrétt að íbúð yðar, fyrst samkvæmt 2. gr, laga nr. 106/1970 og síðan samkvæmt 1. gr. laga nr. 77/1985. Hefur ekki komið fram, að sá forkaupsréttur sé niður fallinn.

Fyrir liggur, að [X-kaupstaður] hefur þrívegis fallið frá forkaupsrétti sínum að íbúðum samkv. 2. gr. laga nr. 106/1970. Það gerðist á fyrrgreindu tímabili, þegar óvissa ríkti um forkaupsréttinn. Það er því skoðun mín, að skiljanlegt sé, að bærinn tók þessa afstöðu á þeim tíma. Ekki eru hins vegar dæmi um, að bærinn hafi fallið frá forkaupsrétti eftir gildistöku laga nr. 77/1985. Ég tel því, að [X-kaupstaður] geti ekki talist hafa mismunað yður með ólögmætum hætti, þegar hann samkvæmt framansögðu ákvað að falla ekki frá forkaupsrétti að íbúð yðar.

Niðurstaða mín er samkvæmt framansögðu sú, að ekki sé grundvöllur fyrir frekari athugun á kvörtun yðar af minni hálfu.“