Húsnæðismál. Umsóknarfrestur um lán úr Byggingarsjóði ríkisins.

(Mál nr. 282/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 22. nóvember 1990.

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið fyrirgreiðslu frá Húsnæðisstofnun ríkisins vegna kaupa á jörð nokkurri ásamt íbúðarhúsi. Um mánaðamótin maí/júní 1988 sótti A um lán úr Byggingarsjóði ríkisins í tengslum við jarðakaupin með því að íbúðarhús fylgdi, en kaupin höfðu verið gerð 5. desember 1986. Í bréfi mínu til A, dags. 22. nóvember 1990, sagði svo:

„Á þeim tíma, sem þér sóttuð um umrætt lán, voru í gildi lög nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins með síðari breytingum. Með stoð í lögunum var sett reglugerð nr. 321/1986 um lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar var tekið fram, að lánsumsókn vegna nýbygginga eða kaupa á eldra húsnæði skyldi berast innan eins árs frá dagsetningu kaupsamnings. Í núgildandi reglugerð nr. 54/1989 um lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins, settum með stoð í lögum nr. 86/1988, er í 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar sams konar ákvæði og í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 321/1986.“

Ég tjáði því A, að með vísan til ofangreindra reglna teldi ég ekki tilefni til athugasemda við afgreiðslu Húsnæðisstofnunar ríkisins á umsókn hans.