Lax- og silungsveiði. Netaveiði göngusilungs í sjó.

(Mál nr. 162/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. maí 1990.

A kvartaði út af nokkrum ákvæðum í reglum nr. 378, 2. ágúst 1989, um netaveiði göngusilungs í sjó, og taldi, að þær hefðu ekki stoð í lögum nema að takmörkuðu leyti og röskuðu óhæfilega rétti veiðieigenda til silungsveiða í sjó. Annars vegar áleit A, að reglurnar fælu í sér, að einungis mætti nota lagnet við veiðar göngusilungs og hins vegar laut kvörtun hans að þeim ákvæðum reglnanna, er höfðu að geyma fyrirmæli um gerð og frágang lagneta og um nánara fyrirkomulag og tilhögun veiða með slík net.

Þorgeir Örlygsson prófessor var skipaður til að fjalla um mál þetta, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, þar sem ég ákvað að víkja sæti í því.

Í niðurstöðu skipaðs umboðsmanns, dags. 30. maí 1990, kom fram, að varðandi fyrra atriðið taldi hann, að áðurgreindar reglur fælu ekki í sér fækkun þeirra veiðitækja, sem 1. mgr. 15. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði gerði ráð fyrir að nota mætti við veiðar göngusilungs í sjó og því yrði ekki séð, að ákvæði reglnanna um þetta atriði bryti í bága við umrætt lagaákvæði. Taldi skipaður umboðsmaður því ekki ástæðu til athugasemda út af þessu, þótt heppilegra hefði verið að orðalag reglnanna um gildissvið þeirra hefði verið skýrara. Varðandi síðara atriðið vísaði umboðsmaður til þess, að landbúnaðarráðherra hefði samkvæmt lögum nr. 76/1970 heimild til að setja reglur um það efni og ekki yrði séð, að við setningu þeirra hefði ráðherra gengið lengra en lagaheimildir stæðu til eða að fyrir honum hefði annað vakað en að setja almennar reglur um veiðar göngusilungs í sjó. Umboðsmaður tók fram, að af slíkum reglum kynni að leiða, að veiðieiganda væri fyrirmunað að nota veiðiaðferð, sem áður mátti einni við koma, og að reglurnar kæmu misjafnlega við veiðieigendur. Skaðabætur vegna veiðiskerðingar skyldu ákveðnar samkvæmt mati eftir lögum nr. 76/1970. A hefði ekki óskað eftir slíku mati. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis gæfi þessi liður kvörtunarinnar ekki heldur tilefni til athugasemda. Lauk umboðsmaður máli þessu því í samræmi við a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987.