Lögreglurannsókn. Ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu máls.

(Mál nr. 171/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 28. desember 1990.

Umboðsmaður taldi, að ekki væru rök til að finna að þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að fella niður mál án frekari rannsóknar, þar sem hæpið væri að í gildandi lögum hefði verið viðhlítandi heimild til refsingar fyrir þá háttsemi, sem geðlæknirinn X var sakaður um. Umboðsmaður vakti hins vegar athygli Alþingis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og landlæknis á því, að lögum væri áfátt og að hann teldi, að skýr lagaheimild ætti að vera til að refsa fyrir misneytingu læknis gagnvart sjúklingi með hliðstæðum hætti og væri, ef brot læknisins væri í opinberu starfi.

I. Kvörtun og málavextir.

A bar fram kvörtun yfir því að lögreglurannsókn Rannsóknarlögreglu ríkisins í tilefni

af kæru A vegna framferðis geðlæknisins X gagnvart henni hefði verið ófullkomin. Einnig kvartaði hún yfir þeirri afgreiðslu ríkissaksóknara að láta málið niður falla á grundvelli áðurnefndrar rannsóknar.

Ríkissaksóknari hafði með bréfi, dags. 21. desember 1988, sent rannsóknarlögreglustjóra ríkisins beiðni um að hafin yrði rannsókn, sem beindist að því að upplýsa, hvort X hefði í læknisstörfum sínum gerst brotlegur með þeim hætti, er lýst var í þeim gögnum, sem fylgdu bréfinu. Vísaði ríkissaksóknari til bréfs landlæknis og fylgiskjala þess, en þar kæmi fram, að landlækni hefði verið greint frá alvarlegum sökum, sem bornar hefðu verið á hendur X af hálfu sjúklinga, sem verið höfðu til læknismeðferðar hjá honum. Er í nefndum gögnum frá landlækni greint frá grunsemdum um að geðlæknirinn hafi gerst sekur um kynferðisafbrot gagnvart konum, sem voru undir hans læknishendi. Þá kemur fram í bréfi ríkissaksóknara, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi greint honum frá því að ráðherra hafi, að tillögu landlæknis, svipt X leyfi til að kalla sig lækni og til að starfa sem slíkur frá og með 2. desember 1988 til og með 31. maí 1989. Í bréfi landlæknis og þeim gögnum, sem því fylgdu, og öðru bréfi, sem hann sendi 28. desember 1989, er gerð nánari grein fyrir þeim atvikum, sem grunsemdirnar voru byggðar á, og m.a. er þar gerð grein fyrir máli A. Fram kemur í bréfum landlæknis, að konurnar séu ekki tilbúnar að koma fram sem kærendur, en frásagnir þeirra eru m.a. studdar bréfum frá geðlæknum, sem þær höfðu síðar leitað til. Tvær kvennanna eru nafngreindar og er A önnur þeirra. Í bréfi til landlæknis hafði hún gefið honum leyfi til að nota upplýsingar þær, sem hún hafði gefið, í þágu embættisins og tók þar fram, að hún væri tilbúin til að veita frekari upplýsingar, ef þörf krefði, en óskaði eftir að gætt yrði nafnleyndar gagnvart henni.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Samkvæmt beiðni minni fékk ég afhent frá ríkissaksóknara rannsóknargögn málsins, þ.e. framlögð bréf og skýrslur, sem teknar voru hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þar kemur fram, að áðurgreind bréf ríkissaksóknara bárust Rannsóknarlögreglu ríkisins 23. desember 1988 og 3. janúar 1989. Fyrsta skýrsla vegna málsins var tekin af A 9. febrúar 1989 en alls voru teknar þrjár skýrslur af henni sem vitni. Sjö aðrir voru yfirheyrðir sem vitni á tímabilinu 16. febrúar til 1. mars 1989. Í þeim hópi var kona, sem nafngreind var í fylgiskjölum með bréfi landlæknis, en hin vitnin voru fjórir geðlæknar, vinkona A og hjúkrunarfræðingur, sem greint hafði frá frásögnum kvenna um kynferðislega áleitni X. Loks var ein skýrsla tekin af X 17. mars 1989.

Rannsóknarlögreglustjóri sendi ríkissaksóknara gögn varðandi framangreinda rannsókn með bréfi, dags. 7. apríl 1989. Í bréfi sínu tók rannsóknarlögreglustjóri fram, að ekki hefði þótt ráðlegt, og ef til vill væru ekki efni til þess, að reyna samprófun grunaðs við þá sjúklinga, sem höfðu gefið sig fram og skýrslur höfðu verið teknar af. Þá kemur fram í bréfinu, að á þeirri stundu væri ekki ástæða til þess að ætla, að fleiri sjúklingar gæfu sig fram og lýstu ávirðingum X.

Með bréfi, dags. 11. apríl 1989, tilkynnti ríkissaksóknari rannsóknarlögreglustjóra, að ekki þættu vera efni til frekari aðgerða af hálfu ákæruvalds á grundvelli framangreindra rannsóknargagna.

A sendi rannsóknarlögreglustjóra svohljóðandi bréf, dags. 8. apríl 1989:

„Ég óska eftir að bréf mitt dagsett 22/11 1988 stílað til landlæknis og vitnisburður

minn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, þann 9/2, 10/2 og 22/2 1989, ásamt viðbótarupplýsingum mínum, sjá meðfylgjandi, í máli [X], geðlæknis, verði skoðað sem lögformleg kæra (frumrit af bréfi mínu er væntanlega enn í vörslu ... landlæknis).

Jafnframt leyfi ég mér að endurtaka fyrri tilmæli um að nafnleynd gagnvart öllum utanaðkomandi aðilum verði virt eftir því sem kostur er.“

Jafnframt mætti A að eigin frumkvæði hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins 11. apríl 1989 og lagði fram viðbótarskýrslu, sem hún hafði tekið saman vegna málsins.

Bréf A og viðbótarskýrsluna sendi rannsóknarlögreglustjóri til ríkissaksóknara með bréfi, dags. 12. apríl 1989. Af hálfu ríkissaksóknara var erindi þessu svarað með bréfi, dags. 22. desember 1989, og þar segir, að umrædd viðbótargögn þyki eigi hagga þeirri ákvörðun, sem fram kom í bréfi ríkissaksóknara, dags. 11. apríl 1989, um að eigi þættu efni til frekari aðgerða í málinu af ákæruvaldsins hálfu.

III.

Í kvörtun sinni lýsir A furðu sinni á þeim vinnubrögðum Rannsóknarlögreglu ríkisins

að hraða skyndilega rannsókn málsins þannig að margítrekaðar viðbótarupplýsingar ásamt formlegri kæru hafi ekki náð að berast í tæka tíð. Hún tekur fram, að hún hafi aldrei verið látin vita að skyndilega lægi svo mikið á, enda hafi það verið í algeru ósamræmi við þá hægu afgreiðslu, sem málið hefði áður hlotið. Þessar viðbótarupplýsingar hafi því ekki fylgt gögnum málsins, þegar það hlaut afgreiðslu hjá ríkissaksóknara. Þegar kvörtunin var borin fram, hafði ríkissaksóknari ekki tekið afstöðu til þeirra viðbótargagna, sem rannsóknarlögreglustjóri sendi honum með bréfi, dags. 12. apríl 1989.

IV.

Með bréfi, dags. 24. október 1989, mæltist ég til þess, að ríkissaksóknari skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A.

Svar ríkissaksóknara barst mér með svohljóðandi bréfi, dags. 1. júní 1990:

„Vegna fyrirspurnar yðar til embættis ríkissaksóknara á grundvelli 9. gr. laga nr. 13/1987, skal eftirfarandi tekið fram:

1. Viðhorf ríkissaksóknara til kvartana [A] eru þau, að efni séu eigi til endurskoðunar á fyrri afstöðu ákæruvaldsins til kæruefnisins.

2. Af hálfu ríkissaksóknara þóttu og þykja enn eigi efni til athugasemda vegna starfa rannsóknarlögreglu ríkisins og rannsóknarlögreglustjóra í máli þessu.

3. Að lokum skal tekið fram, að gögnin frá kæranda, sem bárust með bréfi rannsóknarlögreglu ríkisins, dagsettu 12. apríl 1989, hefðu í engu breytt niðurstöðu ríkissaksóknara þótt þau hefðu legið fyrir við afgreiðslu málsins þann 11. apríl 1989.“

V. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 28. desember 1990, sagði m.a.:

„Fram er komið að kvörtun A var borin fram, áður en ríkissaksóknari hafði tekið afstöðu til þeirra viðbótargagna, sem honum bárust með bréfi rannsóknarlögreglustjóra 12. apríl 1989, en í þeim gögnum var formleg kæra frá A vegna málsins. Með hliðsjón af niðurstöðu ríkissaksóknara í bréfi 22. desember 1989, að þau gögn högguðu eigi fyrri ákvörðun um, að ekki þættu efni til frekari aðgerða í málinu af ákæruvaldsins hálfu, verður í áliti þessu fjallað í heild um þá ákvörðun ríkissaksóknara að láta málið niður falla á grundvelli rannsóknar Rannsóknarlögreglu ríkisins.

Rannsókn Rannsóknarlögreglu ríkisins getur ekki talist rækileg. Hlýtur sú ákvörðun ríkissaksóknara, að láta málið niður falla án frekari rannsóknar, að hafa byggst á því, að ákæra yrði ekki gefin út á hendur geðlækninum, þótt tækist að færa sönnur á þá háttsemi, sem X hafði verið sakaður um.

Þótt sú háttsemi, sem á X var borin, hefði á hann sannast, tel ég engan veginn víst að það hefði leitt til ákæru á hendur honum. Að mínum dómi er afar hæpið, að ákvæði XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við. Ákvæði 197. gr. kæmu til álita, ef brotið hefði verið framið af lækni á sjúkrahúsi gagnvart sjúklingi vistuðum þar, en atvik voru ekki þannig vaxin í þessu máli. Þá verður naumast litið svo á, að um brot í opinberu starfi sé að ræða í skilningi XIV. kafla almennra hegningarlaga. Þá verður að telja, að 6. gr. læknalaga nr. 80/1969, sbr. 18. gr. sömu laga, hafi verið mjög vafasöm refsiheimild, þar sem 6. gr. geymdi mjög almenna yfirlýsingu um skyldur lækna án frekari afmörkunar eða skýringa.

Það er samkvæmt framansögðu skoðun mín, að hæpið sé að í gildandi lögum hafi verið viðhlítandi heimild til refsingar fyrir þá háttsemi, er geðlæknirinn X var sakaður um og um er fjallað í máli þessu. Af þeim ástæðum tel ég, að ekki séu rök til að finna að þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að fella niður málið án frekari rannsóknar. Ég tel hins vegar, að skýr lagaheimild ætti að vera til að refsa fyrir misneytingu læknis gagnvart sjúklingi með hliðstæðum hætti og væri, ef brot læknisins væri í opinberu starfi, sbr. XIV. kafla almennra hegningarlaga. Eru að mínum dómi ekki rök til að gera mun á því, hvort brot læknis er í opinberu starfi eða utan þess. Ég hef því í samræmi við 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis ákveðið að vekja athygli Alþingis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og landlæknis á því, að ég tel lögum vera áfátt að þessu leyti og að ástæða sé til að endurskoða refsiákvæði læknalaga í ljósi þess.“