Mannréttindi. Trúfrelsi. Vottorð um úrsögn úr þjóðkirkjunni og skráning þess í þjóðskrá.

(Mál nr. 76/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 31. janúar 1990.
A hafði ekki leitað eftir vottorði prests um úrsögn úr þjóðkirkjunni í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laga nr. 18/1975 um trúfélög. Að fengnu slíku vottorði gæti A óskað eftir því við Hagstofu Íslands, að það yrði skráð samhliða upplýsingum Hagstofunnar um skírn A. Umboðsmaður taldi því ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að hann fjallaði um kvörtun A.

Með bréfi, dags. 6. janúar 1989, var til mín leitað vegna A „varðandi riftun á skírnarsáttmála og rétta skrásetningu þeirrar riftunar í skjöl hins opinbera“. Var þess farið á leit, að ég sæi til þess, að erindi þetta yrði tekið til alvarlegrar og vinsamlegrar athugunar hjá viðkomandi ráðuneyti. Kom fram, að A væri ósáttur við þá yfirlýsingu, sem færð hefði verið um riftun þessa, á gögn Hagstofu Íslands 13. október 1972 að beiðni hans, þar sem hann æskti viðurkenningar ríkisins á trúfrelsi sínu. Jafnframt varðaði erindi A álitsgerð læknis frá 30. október 1972, er hann lét í té að ósk Sakadóms Reykjavíkur. Með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis taldi ég ekki lagaskilyrði fyrir því að fjalla um atvik þessi, þar sem lögmæltur ársfrestur til þess að bera fram kvörtun væri liðinn. Varðandi álitsgerðina kom og til, að ég taldi, að öflun slíkra gagna af hálfu sakadóms félli ekki undir starfssvið mitt, sbr. 4. tl. 3. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

Fram kom í kvörtun A, að hann taldi, að skráning opinberra aðila um persónuleg málefni hans væri enn röng. Ég leit svo á, að þetta atriði kvörtunarinnar gæti ég tekið til meðferðar. Ég óskaði því eftir því með bréfi, dags. 14. mars 1989, að Hagstofa Íslands léti mér í té þjóðskrárupplýsingar um A svo og greinargerð um það, hvaða reglu stofnunin fylgdi, ef einstaklingar óskuðu eftir breytingum á skráðum upplýsingum um þá. Með bréfi, dags. 31. mars 1989, svaraði Hagstofan erindi mínu og lét ég umboðsmanni A í té ljósrit af því bréfi og fylgigögnum þess. Þá gerði ég umboðsmanni A grein fyrir því, að hagstofustjóri hefði lýst því munnlega yfir, að Hagstofa Íslands væri reiðubúin til að gefa þá yfirlýsingu, að ekki yrðu látnar í té upplýsingar um skírn A, án þess að jafnframt yrði gerð grein fyrir þeirri yfirlýsingu, sem skráð hefði verið hjá stofnuninni 13. október 1972.

Þá fór ég fram á það við biskup Íslands með bréfi, dags. 15. ágúst 1989, í tilefni af kvörtuninni og með hliðsjón af því ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar, að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, að hann léti mér í té upplýsingar um afstöðu þjóðkirkjunnar til eftirfarandi atriða:

„a) Hvaða þýðingu hefur úrsögn úr þjóðkirkjunni gagnvart þeim trúarheitum og trúarathöfnum, s.s. skírn og fermingu, sem sá, er óskar úrsagnar, hefur tekið þátt í eða undirgengist innan þjóðkirkjunnar?

b) Getur sá, er óskar eftir að segja sig úr þjóðkirkjunni, lýst yfir því, að hann fyrir sitt leyti óski eftir að ónýta skírn sína og fermingu? Getur hann þá jafnframt, um leið og prestur lætur honum í té úrsagnarvottorð samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 18/ 1975, fengið vottorð prests um það að hann hafi veitt slíkri yfirlýsingu viðtöku?“

Ég tók jafnframt fram, að á þessu stigi væri ekki óskað skýringa þjóðkirkjunnar skv. 9. gr. laga nr. 13/1987. Biskup svaraði með bréfi, dags. 24, nóvember 1989, og vísaði til fyrri umfjöllunar embættisins um mál A. Jafnframt fylgdi bréfi biskups bréf prófessorsins í trúfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands, þar sem spurningum mínum var svarað og kvaðst biskup taka undir niðurstöður prófessorsins.

Í bréfi prófessorsins sagði svo um fyrri spurningu mína:

„Svo sem tekið er fram í bréfi umboðsmanns Alþingis getur hver sem orðinn er 16 ára að aldri tekið ákvörðun um inngöngu í trúfélag eða úrsögn samkvæmt 3. gr. laga nr. 18/1975 um trúfélög og skv. 3. mgr. 8. gr. sömu laga skal prestur eða forstöðumaður trúfélags láta í té inngöngu eða úrsagnarvottorð. Ef óskírður einstaklingur óskar inngöngu í þjóðkirkjuna hlýtur hann að taka skírn, en eðlilegt, að áður skírður einstaklingur sé látinn gangast undir fermingu. Við inngöngu í þjóðkirkjuna öðlast menn réttindi og skyldur, er fylgja aðild að þjóðkirkjunni. Til réttinda telst atkvæðisréttur á safnaðarfundum o.þ.h. og undir skyldur heyra atriði er lúta að kirkjurækni og almennri trúrækni svo og sú skylda að ala börn sín upp í kristinni trú.

Við úrsögn úr þjóðkirkjunni falla þessi réttindi og skyldur niður og viðkomandi getur með úrsagnarvottorði sannað, að svo sé. Úrsögn viðkomandi getur verið af ýmsum

ástæðum m.a. þeirri, að menn sætta sig ekki við kenningargrundvöll kirkjunnar. Í því tilfelli er úrsögnin staðfesting á afneitun viðkomandi á gildi þess, sem gerist innan kirkjunnar og hann áður tók þátt í eða gekkst undir.

Samkvæmt játningarritum hinnar íslensku þjóðkirkju er skírnin sakramenti, en sakramenti skera sig úr hópi annarra trúarathafna á þann hátt, að í þeim veitist sú gjöf, sem þau gefa fyrirheit um. Í skírninni veitist „fyrirgefning syndanna“ (Níkeujátningin), „endurfæðing“, „náð Guðs“ (Ágsborgarjátning 2. og 9. gr.), „frelsun“, „eilíf sáluhjálp“ (Fræði Lúthers hin minni). Að skilningi nefndra játningarrita er gjörandinn í skírninni Guð sjálfur, sem notar orð og vatn sem verkfæri sitt eða tæki (Ágsborgarjátning 13. gr.; Fræði Lúthers). Í skírninni tekur Guð móti skírnþega í náðarríki Krists og er kirkjan hin sýnilega mynd þess.

Að skilningi þjóðkirkjunnar er náðarríki Krists ekki bundið neinni ákveðinni kirkjudeild, heldur er það handan og ofan þeirra, um leið og það birtist í þeim. Sú kirkja eða kirkjudeild, þar sem skírnin fer fram, tekur á móti skírnþega fyrir hönd Krists inn í náðarríki hans, sem viðkomandi kirkja er fulltrúi fyrir. Viðurkennir því þjóðkirkjan hverja skírn, þar sem skírt er í vatni og í nafni heilagrar þrenningar. Hver sá sem óskar inngöngu í þjóðkirkjuna og er áður skírður, er því ekki skírður að nýju, ef ljóst er, að skírn hans samrýmist þeim skilyrðum, er þjóðkirkjan gerir til skírnar. Skírn má m.ö.o. ekki endurtaka. Ef óskírður maður óskar þess hins vegar að ganga í þjóðkirkjuna, hlýtur sá hinn sami að taka skírn.

Þjóðkirkjan álítur líka útilokað, að skírn þess, sem yfirgefur þjóðkirkjuna ógildist, og byggist sá skilningur á þeirri trú, að Guð geti ekki gengið á bak orða sinna og ef það er Guð, sem gefur manni ákveðna gjöf í skírninni, þá tekur hann þá gjöf ekki aftur, enda þótt maðurinn afneiti henni. Menn geta m.ö.o. afneitað skírninni og krafti hennar, en Guð afneitar ekki neinum þeim, sem hann hefur tekið að sér í heilagri skírn og þess vegna getur fólk aftur horfið á vit skírnar sinnar. Fólk getur með margvíslegum hætti afneitað skírn sinni og krafti hennar. Þjóðkirkjan lítur svo á, að hver sá er afneitar skírn sinni og krafti hennar, eigi eftir sem áður kost á því að snúa aftur og sá sem snýr við eftir tímabil afneitunar, getur þegið endurnýjun skírnarnáðarinnar í skriftum og aflausn, en skírist ekki að nýju. Að snúa við og hljóta endurnýjun skírnarnáðarinnar er þá jafnframt réttur hverjum þeim, sem fellur frá og gengur úr kirkjunni.

Um ferminguna gegnir öðru máli en um skírnina. Fermingin er ekki sakramenti, heldur athöfn, þar sem menn eru minntir á gjöf skírnarinnar og hvattir til þess að rækja hana. Sá sem óskar inngöngu í þjóðkirkjuna og er áður skírður, getur fermst eins þótt hann hafi áður fermst á ungum aldri.“

Um hina síðari spurningu hafði prófessorinn eftirfarandi fram að færa:

„Sá sem óskar eftir að segja sig úr þjóðkirkjunni hlýtur að geta lýst yfir því, að hann óski eftir að ónýta skírn sína og fermingu. Úrsögnin sem slík er auðvitað yfirlýsing í þá veru, að viðkomandi afneiti skírn sinni og krafti hennar, en ef einhver óskar að ítreka slíka yfirlýsingu, hlýtur það að vera honum heimilt samkvæmt ákvæðum trúfrelsislaga. Jafnframt skal þó minnt á, að slíkt verður að gerast innan ramma góðs siðferðis og allsherjarreglu (sbr. 63. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og 1. gr. laga nr. 18/1975 um trúfélög).

Prestur getur staðfest skriflega, að hann hafi veitt slíkri yfirlýsingu viðtöku, um leið og hann gefur út úrsagnarvottorð, en hann getur ekki gefið út vottorð í embættisnafni um það, að skírnin sé ógild. Einstaklingar geta gert skírn sína ógilda með ýmsu móti, en kirkjan tekur ekki að sér að dæma um það, hverjir það gera og hvernig. Það er líka útilokað, að prestur framkvæmi nokkra þá athöfn, þar sem skírnarsáttmálanum væri sagt upp, þar eð kirkjan getur ekki tekið aftur þá blessun, sem hún hefur áður veitt í nafni Guðs.“

Í bréfi mínu, dags. 31. janúar 1990, til umboðsmanns A sagði:

„Tilefni kvörtunar yðar f.h. [A] er að [A] telur, að hann hafi ekki fengið viðurkenningu ríkisins á trúfrelsi sínu. Jafnframt kemur fram í bréfum yðar, sbr. einkum bréf, dags. 21. maí 1989, að [A] telji að slík viðurkenning fáist, ef framan við texta þeirrar yfirlýsingar, sem færð var í gögn Hagstofunnar 13. október 1972 komi eftirfarandi orð: „[A] ónýtti skírnarsáttmála sinn í Dómkirkjunni í Reykjavík 16. október 1966. Af því tilefni var skráð eftirfarandi yfirlýsing: ...“

Eins og rakið er hér að framan, tekur biskup Íslands undir þær niðurstöður, sem [X], prófessor, gerir grein fyrir í bréfi sínu frá 22. nóvember. Í bréfi [X] fjallar hann sérstaklega um vottorð prests um móttöku á yfirlýsingu um úrsögn úr þjóðkirkjunni og efni slíkrar yfirlýsingar. Af þeim bréfum og gögnum, sem mér hafa borist vegna þessa máls, verður ekki ráðið að [A] hafi beinlínis leitað eftir slíku vottorði, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 18/1975 um trúfélög. Ég tel því rétt að [A] leiti eftir vottorði prests í samræmi við það, sem fram kemur í áður tilvitnuðu bréfi [X].

Að fengnu slíku vottorði er síðan rétt að óska eftir því, að þau gögn verði afhent Hagstofu Íslands með ósk um að þau verði skráð samhliða núverandi upplýsingum Hagstofu Íslands um skírn A.

Samkvæmt lögum nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki gert ráð fyrir afskiptum umboðsmanns fyrr en viðkomandi mál hefur fengið fullnaðarúrlausn í stjórnsýslunni. Er framangreind niðurstaða mín á þessu byggð og ég tel því ekki rétt að fjalla á þessu stigi frekar um mál þetta og þ.m.t. um það, hvort lagaákvæði um þetta málefni og framkvæmd stjórnvalda sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi og ákvæði þeirra alþjóðasáttmála um sama efni, sem Ísland er aðili að.

Ég tek að síðustu fram, að telji [A] að hann fái ekki fullnægjandi úrlausn sinna mála eftir þeim leiðum, sem ég hef gert grein fyrir hér að framan, og hann sé rangindum beittur af stjórnvöldum, er honum heimilt að bera á ný fram kvörtun til mín.“