Námslán og námsstyrkir. Meðferð lánsumsóknar hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

(Mál nr. 318/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 1. október 1990.

A kvartaði við mig með bréfum, dags. 16. júlí 1990 og 7. ágúst 1990, út af því annars vegar, hvernig háttað hefði verið meðferð á þeirri beiðni hans, að beitt yrði grein 3.3.2. í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) fyrir 1989-1990 um umsókn hans um námslán veturinn 1990-1991, og því hins vegar, að stjórn LÍN hefði ákveðið 2. ágúst 1990 að synja umsókninni. Í svarbréfi mínu til A, dags. 1. október 1990, tjáði ég honum, að ég fengi ekki séð af gögnum málsins, að stjórn LÍN hefði fyrr en með bréfi sínu til A, dags. 3. ágúst 1990, tekið endanlega ákvörðun um umsókn hans eða að slík ákvörðun hefði verið birt honum fyrr en þá. Þar til slík bindandi ákvörðun hefði legið fyrir, hefði stjórn LÍN verið heimilt að taka fyrir ákvarðanir og fyrirmæli varðandi umsóknina til endurskoðunar og skipti ekki máli, hvort það hefði verið að frumkvæði starfsmanns eða ekki. Þá greindi ég A frá því, að stjórn LÍN hefði verið heimilt að afla lögfræðilegs álits á umsókn hans og að ekki hefði verið skylt að gefa honum kost á að tjá sig um álitið. Af þessu leiddi og að framlagning álitsins hefði verið heimil, hvert svo sem gildi þess hefði verið fyrir úrlausn málsins.

Varðandi synjun umsóknarinnar hélt A því fram, að gildandi úthlutunarreglum hefði verið beitt með afturvirkum hætti. Um þetta atriði sagði svo í bréfi mínu:

„Samkvæmt 16. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og 17. gr. reglugerðar nr. 578/1982 voru úthlutunarreglur LÍN fyrir 1990-1991 settar með lögmætum hætti, enda er úthlutunarreglum sjóðsins almennt aðeins ætlað að gilda fyrir það skólaár, sem í hönd fer, og skal þær gefa út fyrir 1. júní ár hvert, að fengnu samþykki ráðherra. Þá hefur athugun mín ekki leitt í ljós, að grein 3.3.2. í úthlutunarreglum LÍN fyrir 1990-1991 hafi verið andstæð því meginmarkmiði laga nr. 72/1982, að opinber aðstoð skuli nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði, sbr. nánar 1. mgr. 3. gr. laganna.“

Það varð því niðurstaða mín, að málavextir gæfu ekki tilefni til frekari umfjöllunar um kvörtun A.