Opinberir starfsmenn. Málsmeðferð við stöðuveitingu. Svör við erindum til stjórnvalda.

(Mál nr. 56/1988)

A, sem var einn umsækjenda um lektorsstöðu við Háskóla Íslands, kvartaði yfir undirbúningi við veitingu stöðunnar og meðferð á umsókn sinni. Umboðsmaður taldi það hvorki brjóta í bága við lög né góða stjórnsýsluhætti, þótt dómnefnd um stöðuna hefði ekki getið sérstaklega tilgreindra hæfnisdóma um A í áliti sínu og horfið frá þeim áformum sínum að leita álits erlendra fræðimanna. Þá taldi umboðsmaður, að eins og á stóð, hefði menntamálaráðherra hvorki brotið gegn lögum eða góðum stjórnsýsluháttum né gerst ber að mismunun gagnvart A, þótt hann leitaði sérstaklega álits um hæfi C, sem veitt var staðan, án þess jafnframt að afla álits sömu aðila eða annarra á hæfi A. Hins vegar áleit umboðsmaður, að háskólanum og Y-deild hans hefði borið að svara bréfum A um málsmeðferð, enda væri það meginregla, að hver sá, sem bæri upp erindi við stjórnvöld, eins og háskólinn og deildir hans yrðu að teljast, ætti rétt á skriflegu svari hlutaðeigandi stjórnvalds.

I

Hinn 4. janúar 1989 barst mér kvörtun frá A vegna tiltekinna atriða varðandi meðferð á umsókn hans um stöðu lektors í X-fræði við Y-deild Háskóla Íslands og undirbúning veitingar stöðunnar hinn 30. júní 1988. A beindi kvörtun sinni að menntamálaráðuneytinu, Háskóla Íslands og Y-deild Háskóla Íslands, og voru kvörtunarefnin orðrétt svohljóðandi:

„a) að dómnefnd deildarinnar kynnti ekki vísindalega viðurkenningu sem ég hafði hlotið,

b) að ekki var staðið við fyrirheit um að leita álits erlendra fræðimanna,

c) að ráðuneytið bætti ekki úr því efni vegna mín, enda þótt það aflaði umsagnar um annan umsækjanda,

d) að deildin og Háskólinn hafi ekki svarað fyrirspurnum um málsmeðferð.“

Ég taldi rétt að víkja sæti í máli þessu. Skipuðu forsetar Alþingis Friðgeir Björnsson yfirborgardómara til að fjalla um málið, sbr. 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

II.

Umrædd lektorsstaða var með auglýsingu menntamálaráðuneytisins, dags. 6. mars 1987, auglýst laus til umsóknar og var umsóknarfrestur til 6. apríl 1987. Umsóknum skyldi fylgja rækileg skýrsla um vísindastörf umsækjenda, ritsmíðar og rannsóknir svo og námsferil og störf. Bárust menntamálaráðuneytinu fimm umsóknir um stöðuna frá þeim A, B, C, D og einum umsækjanda, sem óskaði nafnleyndar. Með bréfi, dags. 10. apríl 1987, óskaði menntamálaráðuneytið eftir umsögn Y-deildar Háskóla Íslands um umsóknirnar. Á deildarfundi í Y-deild 27. apríl 1987 var samþykkt að skipa dómnefnd til þess að fjalla um hæfi umsækjenda. Á fundi deildarinnar 29. apríl 1988 var álit dómnefndar lagt fram og erindi menntamálaráðuneytisins um umsögn deildarinnar. Í bréfi Y-deildar, dags. 2. maí 1988, til háskólarektors var greint frá því, að tveir umsækjenda, þeir B og D, væru að mati dómnefndar fullkomlega hæfir til þess að gegna stöðunni. Þá var tekið fram í bréfinu, að við atkvæðagreiðslu á deildarfundi hefði B hlotið eitt atkvæði og D 15 atkvæði en einn seðill hefði verið auður. Væri því tillaga deildarinnar, að D yrði veitt staða lektors í X-fræði. Þetta bréf Y-deildar framsendi háskólarektor menntamálaráðuneytinu með bréfi, dags. 6. maí 1988, og mælti með erindi deildarinnar. Hinn 30. júní 1988 skipaði menntamálaráðherra C í þessa stöðu lektors í X-fræði frá 1. ágúst 1988 að telja. Á fundi sínum 8. júlí 1988 samþykkti háskólaráð ályktun í tilefni af skipun í lektorsstöðu þessa, þar sem stöðuveitingunni var mótmælt og jafnframt vinnubrögðum menntamálaráðherra við hana. Svaraði ráðherra ályktuninni með bréfi, dags. 12. júlí 1988.

III.

Hinn 4. júlí 1989 ritaði skipaður umboðsmaður menntamálaráðherra bréf og mæltist til þess, með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í bréfinu var tekið fram, að gagnvart menntamálaráðuneytinu kvartaði A yfir því, að ráðuneytið hefði ekki leitað álits erlendra fræðimanna varðandi umsókn hans, enda þótt það hefði aflað slíkra umsagna um annan umsækjanda. Öðrum atriðum í kvörtun A taldi umboðsmaður beint gagnvart Háskóla Íslands og Y-deild Háskóla Íslands. Hann óskaði og sérstaklega eftir upplýsingum og gögnum um, hvort og þá með hvaða hætti ráðuneytið hefði aflað umsagna um hæfi umsækjenda, eftir að háskólarektor hefði sent ráðuneytinu dómnefndarálit og samþykkt deildarfundar Y-deildar um umrædda lektorsstöðu. Var vísað til þess, að svarbréfi ráðuneytisins, dags. 29. mars 1989, hefðu fylgt ljósrit af bréfi þess til erlends manns, dr. G., dags. 16. maí 1988, varðandi gögn fyrir umsögn hans. Einnig var vísað til þess, að nefndu bréfi ráðuneytisins hefði fylgt ljósrit af bréfi annars erlends manns N.B., dags. 5. maí 1988, til menntamálaráðherra og var óskað upplýsinga um tilefni bréfsins. Að síðustu vitnaði skipaður umboðsmaður til þess, að í bréfi menntamálaráðherra til háskólaráðs, dags. 7. júlí 1988, kæmi fram, að ráðuneytið hefði haft undir höndum ítarlega umsögn um hæfi C, frá dr. Ö. Óskaði hann eftir því, að ráðuneytið léti honum umsögn þessa í té og upplýsti, hvernig staðið hefði verið að öflun umsagnar dr. Ö og hvaða gögn hann hefði haft undir höndum við gerð hennar.

Með bréfi, dags. 23. ágúst 1989, svaraði menntamálaráðuneytið bréfi umboðsmanns. Í svarbréfinu sagði svo m.a.:

„ ... Viðhorf menntamálaráðuneytisins til kvörtunar A og kvörtunar B og D er eftirfarandi:

Fimm umsóknir bárust um lektorsstöðuna, frá þeim A, B, C og D auk eins umsækjanda er óskaði nafnleyndar. Með bréfi dags. 10. apríl 1987 óskaði menntamálaráðuneytið m.a. eftir umsögn Y-deildar um umsóknirnar. Y-deild kaus að skipa dómnefnd í málið hinn 27. apríl 1987 til þess að fjalla um hæfi umsækjendanna. Hér var ekki um að ræða dómnefnd er skipuð væri á grundvelli 11. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 78/1979. Ráðherra var við skipun í stöðuna af þeim ástæðum óbundinn af niðurstöðum dómnefndar þessarar, enda var staða þessi auglýst og aðdragandi að veitingu hennar hafinn áður en skylt varð, eftir reglugerðarbreytingu, að skipa lögformlegar dómnefndir um lektorsstöður. Hins vegar er ljóst að í 4. mgr. umræddrar 11. gr. háskólalaga er að finna þá sjálfsögðu og eðlilegu reglu að engum manni megi veita prófessorsembætti eða dósentsstarf við háskólann nema meirihluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess.

Dómnefndin í þessu máli skilaði áliti sínu 28. apríl 1988 og var niðurstaða hennar sú í stuttu máli að B væri hæfur og D vel hæfur til að gegna henni. Aðrir umsækjendur voru ekki taldir hæfir í stöðuna eins og hún hafði verið auglýst. C var talinn hæfur til kennslu og rannsókna á sviði [X-mála], en ekki talið sýnt fram á að hann væri hæfur til kennslu í undirstöðugreinum [X-fræði].

Þáverandi menntamálaráðherra var ósammála niðurstöðu dómnefndarinnar að því er varðaði C og taldi hana ranga m.a. með tilvísun til álits hinna erlendu sérfræðinga. Því hefur hins vegar áður verið svarað að ekki er vitað á hvaða gögnum dr. [G] byggir umsögn sína og ekki er vitað um tilefni bréfs frá [N.B.] til ráðuneytisins. Það er ennfremur ljóst að af ráðuneytisins hálfu var ekki aflað umsagna um hæfi annarra umsækjenda eftir að rektor Háskóla Íslands hafði með bréfi dags. 9. maí 1988 sent ráðuneytinu dómnefndarálitið.“

Með bréfi til rektors Háskóla Íslands, dags. 4. júlí 1989, mæltist umboðsmaður til þess með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að Háskóli Íslands skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A varðandi það að Háskólinn hafi ekki svarað fyrirspurn hans samkvæmt bréfi, dags. 2. maí 1988.

Svar barst með svohljóðandi bréfi háskólarektors, dags. 8. ágúst 1989:

„Í bréfi yðar, dags. 4. júlí 1989, er óskað skýringa á viðhorf Háskóla Íslands til kvörtunar A. A kvartar yfir því að Háskólinn hafi ekki svarað fyrirspurn hans samkvæmt bréfi dags. 2. maí 1989 en í bréfinu óskar hann "vitneskju um afskipti Háskólans af málinu svo sem varðandi skipun dómnefndar."

Gerð var opinberlega grein fyrir skipun dómnefndar og að fulltrúi rektors í dómnefnd væri ... prófessor og birtist frétt þess efnis í Morgunblaðinu 12. júní 1987. Önnur afskipti af störfum dómnefndar voru ekki af hálfu yfirstjórnar Háskólans.

Gerð hefur verið grein fyrir störfum dómnefndar í fjölmiðlum og málsatvik rakin ítarlega og því vart nauðsyn að rekja þau frekar.“

Skipaður umboðsmaður ritaði Y-deild Háskóla Íslands einnig bréf, dags. 4. júlí 1989, og mæltist til þess með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að Y-deild skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í bréfinu gerði hann grein fyrir því, að þau atriði í kvörtun A, sem lytu að Y-deild, væru eftirfarandi:

a) Að dómnefnd deildarinnar hafi ekki kynnt vísindalega viðurkenningu, sem hann hafi hlotið.

b) Að ekki hafi verið staðið við fyrirheit um að leita álits erlendra fræðimanna.

c) Að deildin hafi ekki svarað fyrirspurnum um málsmeðferðina.

Í tilefni af b-lið í kvörtun A var óskað sérstaklega eftir upplýsingum Y-deildar um það, hvort deildin eða dómnefndin hefði aflað umsagna erlendra fræðimanna um hæfi umsækjenda og þá til hvaða fræðimanna hefði verið leitað og í hvaða formi þeir hefðu skilað umsögnum sínum.

Svar Y-deildar Háskóla Íslands barst með svohljóðandi bréfi, dags. 25. júlí s.l.:

„Sem svar við erindi þínu varðandi kvörtun Dr. A vegna dómnefndarálits um umsækjendur margumræddrar stöðu í [X-fræði] skal það tekið fram að Y-deild hefur svarað fyrirspurnum A, eftir bestu vitund, sbr. bréf hennar dags. 13. maí 1988.

Það er rétt sem fram kemur í bréfi A dags. 17. maí að deildin veitti dómnefnd heimild til þess að leita umsagnar erlendra aðila um umsækjendur eða einstök verk þeirra. Hins vegar er það rangt að það hafi verið gefin einhver „fyrirheit“ um það að leita til erlendra aðila. Hér er aðeins um heimild að ræða og dómnefnd er það í sjálfsvald sett hvort hún nýtir hana eða ekki. Mér er persónulega kunnugt um það að dómnefnd kannaði þennan kost en féll síðan frá því að nýta sér þessa heimild þegar í ljós kom að það hefði að öllum líkindum tafið verkið um meira en heilt ár, auk þess sem það hefði kostað u.þ.b. eina og hálfa milljón á verðlagi í júní 1987 að fá löggiltan skjalaþýðanda til þess að þýða verk umsækjenda yfir á erlend tungumál. Þá var það einnig dregið í efa að slík þýðing sem gerð væri af hlutlausum aðila er þekkti lítið til umrædds fræðasviðs gæfi í alla staði rétta mynd af verkum viðkomandi einstaklinga. Annars er rétt að leita til dómnefndar, en formaður hennar var ..., til þess að fá skýringar frá fyrstu hendi á því hvers vegna dómnefnd ákvað að nýta sér ekki þessa heimild.

Að lokum vil ég fyrir hönd Y-deildar benda á að greint hefur verið frá öllum þáttum þessa máls opinberlega í smáatriðum og með ítarlegri hætti en dæmi eru um. Þannig hefur bæði Y-deild, háskólarektor og dómnefnd gert grein fyrir hinum ýmsu þáttum þessa máls opinberlega, oftar en einu sinni. Y-deild hefur þar engu við að bæta.“

V.

Í niðurstöðu álits skipaðs umboðsmanns Alþingis, dags. 24. janúar 1990, sagði svo:

„Í umsókn sinni um lektorsstöðuna gerir A grein fyrir námsferli sínum, prófum, viðurkenningum og störfum í 38 liðum. Í dómnefndaráliti er 8 þeirra getið. Í bréfi A til mín dags. 8. mars 1989 skýrir hann fyrsta lið kvörtunar sinnar, sem er að dómnefnd deildarinnar hafi ekki kynnt vísindalega viðurkenningu sem hann hafi hlotið, þannig að í dómnefndarálitinu sé ekki getið þriggja dómnefndarálita um hæfni hans til að skipa tvær kennarastöður og eina lektorsstöðu.

Umsókn sína sendi A menntamálaráðuneytinu, eins og gera skyldi samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins. Menntamálaráðuneytið sendi síðan umsóknina Y-deild Háskóla Íslands til umsagnar. Báðir þessir aðilar gátu þannig kynnt sér umsókn A þar á meðal það sem tekið var fram um námsferil hans, próf og viðurkenningar og engin ástæða er til að ætla að þeir hafi látið það undir höfuð leggjast.

Þótt dómnefnd Y-deildar hafi ekki sérstaklega greint frá þeim hæfnisdómum er A tilgreinir í umsókn sinni, verður það hvorki talið brjóta í bága við lög né góða stjórnsýsluhætti. Má og líta til þess að álit dómnefndar er þannig upp byggt og úr garði gert að nokkuð hefði skotið skökku við hefði dómnefndin talið upp allt það sem A tilgreindi um námsferil sinn, próf, viðurkenningar og störf og hlaut því að verða að velja þar og hafna.

Þá kvartar A út af því að ekki hafi verið staðið við fyrirheit um að leita álits erlendra fræðimanna og byggir þar á því sem haft er eftir Z, forseta Y-deildar í frétt í Morgunblaðinu 4. júní 1987 að í stað þess að fá erlendan sérfræðing í dómnefndina hefði verið horfið að því að senda rit á erlendum málum til erlendra aðila til umsagnar og myndi nefndin taka tillit til umsagnar í samræmi við bókun deildarfundar.

Forseti Y-deildar Z tók fram í bréfi sínu til mín dags. 25. júlí 1989, sem fyrr er rakið, að hér hefði einungis verið um að ræða heimild Y-deildar dómnefndinni til handa, en ekki gefin fyrirheit.

Líta verður svo á að hér sé um að ræða áform um vinnubrögð dómnefndarinnar en ekki loforð til umsækjenda sem þeir geti byggt rétt á. Þótt horfið hafi verið frá þessum áformum verður það ekki talið brot á lögum né góðum stjórnsýsluháttum.

Þá kvartar A undan því að menntamálaráðuneytið hafi ekki bætt úr því vegna sín að ekki hafi verið staðið við fyrirheit um að leita álits erlendra fræðimanna, enda þótt það hafi aflað umsagnar um annan umsækjanda. Skilja verður þennan lið kvörtunar A á þann veg að hann telji að menntamálaráðherra hafi borið að leita álits erlendra fræðimanna á hæfni sinni þar sem sú aðferð hafi verið viðhöfð að því er einn umsækjanda varðaði.

Hér ber þess að gæta að A hafði ekki verið metinn hæfur til að gegna lektorsstarfinu af dómnefnd Y-deildar og ekkert er komið fram um það að menntamálaráðherra hafi ekki getað fallist á þann dóm.

Hins vegar leitaði menntamálaráðherra álits tveggja aðila á hæfni þess umsækjenda sem af dómnefnd Y-deildar var ekki talinn hæfur að fullu til þess að gegna lektorsstarfinu eins og fyrr er rakið og fékk álit hins þriðja óumbeðið. Telja verður að þessi niðurstaða dómnefndar hafi ein sér, burtséð frá niðurstöðu hennar að öðru leyti, gefið menntamálaráðherra réttmæta ástæðu til þess að kanna frekar og sérstaklega hæfi C. Telja verður að þetta hafi menntamálaráðherra verið fyllilega heimilt án þess að leita álits sömu aðila eða annarra á hæfni A. Ráðherra hlýtur ætíð í tilvikum sem þessum að geta sjálfstætt leitað álits þeirra sem hann sjálfur telur að geti gefið álit sem honum komi að gagni. Þannig verður ekki talið að menntamálaráðherra hafi sýnt A mismunun sem talist geti brot á lögum eða góðum stjórnsýsluháttum.

Þá kvartar A út af því að deildin, þ.e. Y-deild og háskólinn hafi ekki svarað fyrirspurnum um málsmeðferð, og hefur vísað um það til tveggja bréfa annars til Háskóla Íslands dags. 2. maí 1988 og hins til Y-deildar Háskóla Íslands dags. 16. maí 1988. A munu ekki hafa borist svarbréf við þessum bréfum.

Þessir aðilar hafa báðir skýrt viðhorf sitt til þessarar kvörtunar A eins og fyrr er rakið. Í stuttu máli eru svör þeirra á þá leið að frá málinu öllu hafi verið skýrt ítarlega í fjölmiðlum og verður að skilja svör þeirra svo að af þeim sökum hafi þeim ekki þótt þörf á að svara bréfum A, enda þótt það komi ekki skýrlega fram.

Telja verður að það sé meginregla að hver sá sem ber upp erindi við stjórnvöld eins og háskólinn og deildir hans verða að teljast, eigi rétt á því að fá í hendur skriflegt svar þess stjórnvalds sem í hlut á. Því hefði háskólinn og Y-deild hans átt að svara framangreindum bréfum A. Eins og fyrr kemur fram tel ég ekki að öðru leyti ástæðu til athugasemda í tilefni af kvörtun A.“