Opinberir starfsmenn. Launagreiðslur til maka látins starfsmanns. Sönnun um föst laun.

(Mál nr. 169/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. desember 1990.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 1989, kvartaði A m.a. yfir því, að ekki hefði verið tekið tillit til „fastrar yfirvinnu“ við uppgjör launagreiðslna eftir lát eiginmanns síns, B, er verið hafði opinber starfsmaður. Taldi A vinnu þessa hafa numið 100 klst. á mánuði. Ég leitaði upplýsinga og skýringa hjá Launaskrifstofu ríkisins um þetta málefni.

Í bréfi mínu til A, dags. 3. desember 1990, vísaði ég til þess, að samkvæmt 3. mgr. 21. gr., sbr. 1. mgr. sömu greinar, laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, bæri að greiða maka látins starfsmanns þau föstu laun, er stöðu hans hefðu fylgt, í þrjá mánuði. Ég gat þess, að í svarbréfum Launaskrifstofu ríkisins kæmi fram, að skrifstofunni væri ekki kunnugt um, að sérstakt samkomulag hefði verið gert við B um greiðslu fyrir vinnu utan dagvinnutíma og að skrifstofan vænti þess, að yfirvinnugreiðslur til B hefðu svarað til vinnuframlags. Ég greindi og frá því, að í bréfi launaskrifstofunnar væri að finna upplýsingar um yfirvinnugreiðslur til B frá 1. janúar 1985 til dánardægurs. Þar kæmi fram, að greiðslur þessar hefðu lengst af verið breytilegar eftir mánuðum, en síðustu 5 mánuðina hefði hann fengið greitt fyrir 90 tíma mánaðarlega og síðustu 7 mánuði þar á undan hefði hann fengið mánaðarlega greitt fyrir 100 tíma að einum mánuði undanskildum, er greiddir hefðu verið 90 tímar. Ennfremur gat ég þess, að upplýst væri, að vinnutími B hefði að hluta til verið utan fasts dagvinnutíma. Í svarbréfi mínu tjáði ég A, að á grundvelli fyrirliggjandi gagna yrði ekki fullyrt, að komist hefði á samkomulag milli B og stjórnenda þeirrar stofnunar, er hann starfaði hjá, eða fjármálaráðuneytisins sem launagreiðanda um það, að auk fastra dagvinnulauna hefði hann átt að fá greiddan tiltekinn fjölda yfirvinnutíma, þannig að slík greiðsla hefði orðið hluti af föstum launum samkvæmt 21. gr. laga nr. 38/1954. Væri því niðurstaða mín sú, að afgreiðsla launaskrifstofunnar hefði verið í samræmi við lög og gæfi ekki tilefni til frekari athugunar af minni hálfu á kvörtun A.