Opinberir starfsmenn. Samráð um skrá yfir opinbera starfsmenn, sem ekki hafa heimild til verkfalls.

(Mál nr. 241/1990)

Lokið með bréfi, dags. 21. september 1990.

Skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna skulu fjármálaráðherra og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár fyrir 1. febrúar ár hvert um störf þau, sem falla undir ákvæði 3.-6. tölul. fyrri mgr. þessarar lagagreinar. Starfsmenn þeir, sem undir þessi ákvæði falla, hafa ekki heimild til verkfalls, m.a. þeir, sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu.

Hinn 26, janúar 1990 báru samtök ríkisstarfsmanna fram kvörtun fyrir hönd hlutaðeigandi aðildarfélaga innan þess í tilefni af bréfi Launaskrifstofu ríkisins, dagsettu, fimmtudaginn 25. janúar 1990, til stéttarfélaga ríkisstarfsmanna. Í bréfi launaskrifstofunnar voru kynnt drög að skrá yfir þá starfsmenn, sem gegndu nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu og hefðu því ekki heimild til verkfalls, sbr. 3. tl. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í bréfi launaskrifstofunnar var óskað eftir því, að umsögn viðkomandi stéttarfélaga um listann hefði borist „fyrir helgina“.

Í kvörtun sinni vísuðu samtökin m.a. til þess, að í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum þessum, segði, að með 19. gr. væri verið að leggja kjaradeilunefnd niður og í hennar stað væri farin sú leið, að birtur yrði árlega listi um störf þessi, sem byggður yrði á samkomulagi aðila. Samtökin tóku fram, að ljóst væri að tillögur fjármálaráðuneytisins fælu í sér miklar breytingar á eðli og umfangi undanþáganna og ekki á færi félaganna að kanna forsendur ráðuneytisins og taka afstöðu til tillagna þess á einum sólarhring.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 21. september 1990, lýsti ég ákvæðum 19. gr, laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna en í seinni mgr. 19. gr. er meðal annars mælt fyrir um samráð við viðkomandi stéttarfélög, áður en fjármálaráðherra og sveitarfélög birti skrár um störf þau, sem falla undir ákvæði 3.-6. tölul. fyrri mgr. 19. gr. Síðan sagði orðrétt í áliti mínu:

"Samkvæmt ótvíræðu orðalagi þessa ákvæðis er ekki gerð krafa um, að samkomulag sé um nefnda skrá milli þeirra aðila, sem þar er um að ræða. Fyrirmælin í lok ákvæðisins um meðferð ágreinings sýna einnig, að samkomulags er ekki krafist. Ummæli í greinargerð með frumv. að lögum nr. 94/1986 geta ekki breytt þessari niðurstöðu. Að mínum dómi á að skýra seinni mgr. 19. gr. svo, að fjármálaráðherra og sveitarfélögum beri að kynna stéttarfélögum hugmyndir sínar um það, hvaða störf beri að taka á slíka skrá, og eigi síðan viðræður við stéttarfélög um ágreining, ef hann rís. Ætla verður hæfilegan tíma til þessa og tel ég, að sá tími, sem Launaskrifstofa ríkisins setti stéttarfélögum ríkisstarfsmanna til svara samkvæmt fyrrgreindu bréfi frá 25. janúar 1990, hafi verið of skammur. Í greinargerð fjármálaráðuneytisins frá 10. apríl 1990, sem áður er rakin, er því heitið, að í framtíðinni fái stéttarfélög rýmri tíma til umsagnar en raun hafi orðið á í umrætt skipti. Með hliðsjón af því fyrirheiti tel ég ekki ástæðu til frekari athugasemda af minni hálfu.“