Opinberir starfsmenn. Auglýsing lausrar stöðu. Staða lögð niður. Forgangur til opinbers starfs.

(Mál nr. 244/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 28. desember 1990.

A kvartaði 7. febrúar 1990 annars vegar yfir því, að brotinn hefði verið á honum réttur samkvæmt 2. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um forgang til opinbers starfs, er dómsmálaráðuneytið um áramótin 1989/1990 setti til bráðabirgða menn til þess að gegna störfum prófdómenda við almennt bifreiðastjórapróf og hins vegar yfir því, að ekki hefði verið gætt 5. gr. nefndra laga um auglýsingu og ráðningu í nefndar stöður. Staða A sem bifreiðaeftirlitsmanns var lögð niður frá 31. desember 1988, er Bifreiðaeftirlit ríkisins hætti starfsemi sinni.

Ég tók fram í bréfi mínu til A, dags. 28. desember 1990, að í skipunarbréfi hans frá 27. janúar 1977 væri ekki nánar skýrt, í hverju starf hans sem bifreiðaeftirlitsmanns hefði verið fólgið, og yrði því við afmörkun þess að líta til 15. gr. umferðarlaga nr. 40/1968, sbr. 65. gr. núgildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Þar kæmi fram, að Bifreiðaeftirlit ríkisins annaðist skráningu ökutækja, skoðun þeirra og eftirlit og að við stofnunina skyldu „ ... starfa eftirlitsmenn ökutækja, bifreiðaeftirlitsmenn, sem hafa lögregluvald á starfssviði sínu.“ Þá væri tekið fram, að dómsmálaráðherra setti reglur um starfsemi bifreiðaeftirlitsins og starfssvið bifreiðaeftirlitsmanna. Í 33. gr. umferðarlaga nr. 40/1968 hefði m.a. verið tekið fram, að dómsmálaráðherra löggilti prófdómendur. Sambærilegt ákvæði væri ekki að finna í núgildandi umferðarlögum, en í b-lið 1. mgr. 52. gr. laganna segði, að dómsmálaráðherra setti reglur um ökupróf. Í 20. gr. reglugerðar nr. 787/1983 um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., sbr. reglugerð nr. 115/1988, væri svo kveðið á, að bifreiðaeftirlitsmenn væru prófdómendur við almenn bifreiðastjórapróf og próf í akstri bifhjóla og jafnframt, að dómsmálaráðherra gæti löggilt aðra hæfa menn til prófdómarastarfs.

Um forgangsrétt A samkvæmt 2. og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 sagði svo í bréfi mínu til hans:

„Samkvæmt framansögðu er það ljóst, að það var meðal starfsskyldna yðar sem bifreiðaeftirlitsmanns að vera prófdómari við almenn bifreiðastjórapróf og próf í akstri bifhjóla eftir því, sem stjórnendur Bifreiðaeftirlits ríkisins höguðu starfsskiptingu milli bifreiðaeftirlitsmanna. Um sjálfstæða skipun í stöðu prófdómara var ekki að ræða í tilviki yðar. Að virtum skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í bréfi þess frá 3. maí 1990, er það niðurstaða mín, að störf prófdómara við bifreiðastjórapróf, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið setti menn til að gegna um áramótin 1989 -1990, falli ekki undir það ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954, að stofnað hafi verið aftur til sömu stöðu og þér gegnduð. Samkvæmt þessu tel ég, að þér hafið ekki átt rétt samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 til umræddra starfa. Hvað varðar hugsanlegan forgangsrétt yðar til þessara starfa samkvæmt 3. mgr. 14. gr. sömu laga, skal tekið fram, að sá réttur er háður því að viðkomandi sæki um starfið. Í því tilviki, sem hér er fjallað um, voru störfin ekki auglýst og ekki var um að ræða umsókn af hálfu yðar um þessi störf. Eins og atvikum er háttað í máli yðar, skortir á að uppfyllt séu þau skilyrði, sem 3. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 setur fyrir því að reynt geti á forgangsrétt samkvæmt því ákvæði.“

Að því er varðar ætluð brot í 5. gr. laga nr. 38/1954 sagði svo í bréfinu:

„Kvörtun yðar lýtur einnig að því, að ekki hafi verið gætt fyrirmæla 5. gr. laga nr. 38/1954 um auglýsingu og ráðningu í stöður áðurnefndra prófdómenda. Í bréfi dóms-og kirkjumálaráðuneytisins frá 3. maí 1990 kemur fram sú skýring, að umræddar stöður hafi ekki verið auglýstar, þar sem um bráðabirgðafyrirkomulag hafi verið að ræða. Eins og orðalagi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1954 er háttað, er ekki ótvírætt, til hvaða starfa hjá ríkinu skylda greinarinnar um auglýsingar á lausum stöðum tekur. Á það m.a. við í því tilviki, sem kvörtun yðar lýtur að. Mér hafa borist fleiri ábendingar og athugasemdir vegna framkvæmdar stjórnvalda á áðurnefndri 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1954. Ég hef því til athugunar, hvort rétt sé að taka þetta mál til meðferðar að eigin frumkvæði og óska þá eftir skýringum og upplýsingum um framkvæmd þessara mála hjá stjórnvöldum almennt af hálfu fjármálaráðuneytisins, sem fer með réttindi ríkisstarfsmanna og skyldur, sbr. 5. gr. Í 9. tl. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Með hliðsjón af þessu hef ég ákveðið að fjalla ekki sérstaklega um þann þátt í kvörtun yðar, sem lýtur að því að tilgreindar stöður prófdómenda hafi ekki verið auglýstar.“