A bar fram kvörtun út af aðgerðum sauðfjársjúkdómanefndar, Sauðfjárveikivarna og starfsmanna þeirra vegna áforma um förgun á sauðfé í eigu hans vegna riðuveiki. Þar sem A hafði í dómsmáli gert kröfu um ógildingu á þeirri ákvörðun landbúnaðarráðherra að fyrirskipa niðurskurð á sauðfé hans, ákvað ég að fjalla aðeins um þann þátt í kvörtun A, að sami starfsmaður Sauðfjárveikivarna, sem hefði með höndum rannsóknir og greiningu á sýnum, hefði jafnframt komið fram fyrir hönd sauðfjársjúkdómanefndar og Sauðfjárveikivarna sem talsmaður niðurskurðar á einstökum bæjum og við umfjöllun um samþykktir sauðfjársjúkdómanefndar. Ég óskaði eftir skýringum landbúnaðarráðuneytisins í tilefni af kvörtun þessari og í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 27. desember 1989, sagði m.a.:
„Ráðuneytið lítur svo á, að óhjákvæmilegt sé að dýralæknir og sérfræðingur Sauðfjársjúkdómanefndar, sem hefur það hlutverk m.a. að sitja fundi nefndarinnar, taki að einhverju leyti þátt í að framfylgja ákvörðunum nefndarinnar og fær ekki séð hvernig slíkt kemur niður á áreiðanleika rannsókna og greiningu sýna, sérstaklega að því virtu, að frumupplýsingar um hugsanlega riðuveiki í sauðfé koma frá viðkomandi héraðsdýralækni, hvað varðar "klínisk" einkenni og síðan eru niðurstöður rannsókna á heilasýnum ákvarðaðar af sérfræðingi nefndarinnar, ásamt yfirdýralækni og sérfræðingum Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum. Með kvörtun [A] að þessu leyti er því að mati ráðuneytisins ómaklega og án raka vegið að starfi sérfræðings nefndarinnar.“
Í áliti mínu frá 30. nóvember 1990 kom fram, að samkvæmt skipunarbréfi var sami maður rannsóknarlæknir í húsdýrasjúkdómum á vegum landbúnaðarráðuneytisins og laut boðvaldi landbúnaðarráðherra og yfirstjórnar landbúnaðarráðuneytisins í því starfi og kom jafnframt fram fyrir hönd sauðfjársjúkdómanefndar og Sauðfjárveikivarna við framkvæmd niðurskurðar á sauðfé. A taldi, að hlutverk þessi væru ósamrýmanleg. Ég lagði í niðurstöðu álits míns áherslu á, að vandað væri til undirbúnings ákvarðana stjórnvalda um lögheimilaðar aðgerðir vegna búfjársjúkdóma svo sem niðurskurðar. Slíkar ákvarðanir byggðust að verulegu leyti á niðurstöðum rannsókna sérfræðinga. Fyrir lægi, að rannsóknarlækninum væri í senn ætlað að sinna slíkum rannsóknum og vera ráðunautur sauðfjársjúkdómanefndar og þátttakandi í að framkvæma ákvarðanir hennar, og eftir atvikum aðgerðum ákveðnum af landbúnaðarráðherra. Ég taldi hins vegar, að stjórnvöld þau, er færu með ákvörðunarvald um aðgerðir í tilefni af búfjársjúkdómum, væru ekki beinn úrskurðaraðili um niðurstöður rannsókna, þ.e. greiningu á sýnum úr búfé, eftir venjulegum málskotsreglum í þágu réttaröryggis og því væri ekki ólögmætt, að sami maður hefði í senn fyrrgreind störf með höndum. Engu að síður taldi ég heppilegra, að málum yrði þannig skipað innan stjórnsýslunnar, að rannsóknunum yrði sinnt af sjálfstæðum aðila, óháðum þeim stjórnvöldum, sem færu með ákvörðunarvaldið.