Stjórnun fiskveiða. Synjun um leyfi til botnfiskveiða.

(Mál nr. 118/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. september 1990.

M/b X hafði leyfi til botnfiskveiða fyrir árið 1984. Báturinn eyðilagðist í óveðri 5. janúar 1984 og var ekki haldið til veiða eftir það og hann ekki endurbyggður. Var báturinn metinn óbætandi eftir skemmdir þessar. A var talinn hafa eignast bátinn 18. apríl 1984. Hinn 30. maí 1989 bar A fram kvörtun út af „þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins að svipta m/b X leyfi til botnfiskveiða og aflakvóta, neita að gefa út nýtt leyfi fyrir bátinn eða annan sem keyptur yrði í staðinn.“

Ég vék sæti í þessu máli og var Friðgeir Björnsson, yfirborgardómari, skipaður 15. júní 1989 til að fara með mál þetta. A og sjávarútvegsráðuneytið greindi á um það, hvort báturinn hefði hlotið veiðiheimild fyrir árið 1985. Ekki upplýstist það og stóð þar staðhæfing gegn staðhæfingu. Bátnum var hins vegar úthlutað leyfi til botnfiskveiða með aflakvóta fyrir árið 1986 fyrir mistök að því er sjávarútvegsráðuneytið hélt fram. Eftir það synjaði ráðuneytið um veiðiheimild fyrir m/b X svo og fyrir bát, er keyptur yrði í hans stað, svokallaða endurnýjunarheimild, á þeim grundvelli að báturinn væri horfinn varanlega úr rekstri. A hélt því fram, að þar sem bátnum hefði verið úthlutað leyfum til botnfiskveiða 1984, 1985 og 1986 hefði hann verið í rekstri í skilningi laga nr. 97/1985.

Skipaður umboðsmaður taldi, að m/b X hefði hvorki átt að fá botnfiskveiðileyfi árið 1985 né 1986 með því að telja yrði, að hann hefði verið horfinn varanlega úr rekstri. Á sömu forsendum hefði sjávarútvegsráðuneytinu verið rétt að synja um veiðiheimild síðar. Umboðsmaður taldi, að A gæti ekki byggt rétt til veiðiheimilda á mistökum sjávarútvegsráðuneytisins. Þrátt fyrir niðurstöðu sína átaldi umboðsmaður það, að sjávarútvegsráðuneytið skyldi ekki á umræddu tímabili, þ.e. árin 1985-1987, hafa haft betri reiður á skráningu fiskiskipa m.t.t. veiðiheimilda og þann hringlandahátt, sem einkenndi meðferð ráðuneytisins á veiðiheimildum m/b X.