A kvartaði yfir röngum vinnubrögðum sjávarútvegsráðuneytisins við veitingu veiðileyfa, nánar tiltekið við úthlutun leyfa til rækjuveiða í Arnarfirði og úthlutun botnfiskveiðiréttinda til m/b X frá og með setningu laga nr. 82/1983 um breyting á lögum nr. 81/1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38/1981 og reglugerð nr. 44/1984 um stjórn botnfiskveiða 1984.
Í bréfi mínu til A, dags. 28. desember 1990, fjallaði ég um lagagrundvöll leyfisveitinga þessara. Sagði svo um það í bréfinu:
„Með framangreindum lagaheimildum var fiskiskipum 10 brl. og stærri úthlutað ákveðnu magni af botnfiski miðað við fyrri aflareynslu. Voru umrædd skip flokkuð eftir stærð og gerð og einnig tekið tillit til þeirra tekna, sem sum höfðu af sérveiðum, þ. á m. rækjuveiðum. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 81/1976 og síðar 2. gr. laga nr. 97/ 1985 um stjórn botnfiskveiða 1986-1987 og 3. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 má enginn stunda rækjuveiðar, nema hann hafi til þess sérstakt leyfi. Samkvæmt lögum nr. 12/1975 um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, getur sjávarútvegsráðherra sett almennar og svæðisbundnar reglur, er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkvæmt sérstökum leyfum ráðuneytisins til rækjuveiða og vinnslugetu rækjuiðnaðarins, meðal annars með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta, sem veiðileyfi hljóta. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 12. nóvember 1990 er rakið, hvernig staðið hefur verið að framkvæmd framangreindra lagaheimilda, að því er varðar rækjuveiðar á Arnarfirði og ákvörðun á botnfiskaflamarki báta, sem aðgang hafa að sérveiðum.“
Ég tjáði A, að sjávarútvegsráðuneytið hefði samkvæmt framansögðu heimild til þess að veita mönnum rækjuveiðileyfi og setja svæðisbundnar reglur í því sambandi. Af gögnum málsins og fyrrnefndum lagaheimildum yrði ekki séð, að þau réttindi, sem A teldi sig hafa öðlast við ákvörðun botnfiskaflamarks m/b X, hefðu reist skorður við því, að sjávarútvegsráðuneytið veitti öðrum leyfi til rækjuveiða í Arnarfirði. Þá tók ég fram, að skerðing sú, sem skip þyrftu að þola vegna sérveiða sinna, styddist að mínum dómi við fullnægjandi lagaheimildir. Ég tjáði A því, að eins og hér háttaði til, sæi ég ekki ástæðu til frekari afskipta af kvörtun hans.