Stjórnun fiskveiða. Sameining aflamarks fiskiskips bundin skilyrðum.

(Mál nr. 317/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 13. nóvember 1990.

Hinn 17. febrúar 1989 seldi A hlutafélaginu B veiðiheimildir m/b X, er B hugðist sameina veiðiheimildum skips síns b/v Y. Féllst sjávarútvegsráðuneytið á aflamarkssameiningu þessa með þeim skilyrðum m.a., að A veiddi eftirstöðvar af kvóta X frá 1988 og að endurnýjunarheimild í stað X félli niður. A kvartaði 20. júlí 1990 yfir meðferð ráðuneytisins og skilyrðum þess. Ég vék sæti í þessu máli og skipuðu forsetar Alþingis Friðgeir Björnsson, yfirborgardómara, 16. ágúst 1990 til að fara með málið sem umboðsmaður. Í niðurstöðu álits skipaðs umboðsmanns frá 13. nóvember 1990 taldi hann skilyrðið um veiði eftirstöðva aflamarks fyrra árs eiga sér stoð í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Að því er endurnýjunarheimild áhrærir þá taldi umboðsmaður, að afgreiðsla sjávarútvegsráðuneytisins hefði verið lögum samkvæmt, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1988, er áskildi, að færsla veiðiheimilda milli skipa hlyti samþykki ráðuneytisins og að rekstri þess skips, sem veiðiheimild væri færð frá, væri hætt. Þá taldi umboðsmaður, að kvörtun A yfir því, að honum hefðu verið veittar rangar upplýsingar hjá sjávarútvegsráðuneytinu, varðandi skyldu til framsals allrar veiðiheimildar, ætti ekki við rök að styðjast.