Skattar og gjöld. Jöfnunargjald á innfluttar kartöflur.

(Mál nr. 85/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. maí 1990.

Fyrirtækið A bar fram kvörtun 6. mars 1989 vegna synjunar landbúnaðarráðuneytisins um leyfi til að flytja bökunarkartöflur til landsins, en sú synjun var studd því, að ákveðið hefði verið að mæla ekki með slíkum innflutningi fyrr en innlend framleiðsla hefði selst. A kvartaði einnig yfir því, að ráðuneytið hefði ekki fallist á beiðni um að það felldi niður eða lækkaði jöfnunargjald á franskar kartöflur á þeim forsendum, að íslenska framleiðslan hentaði ekki veitingahúsum og skyndibitastöðum og álagning 150% viðbótarjöfnunargjalds hefði íþyngt rekstri þeirra. Þá taldi A ekki eðlilegt að formaður þeirrar nefndar, sem gefa ætti ráðherra umsögn vegna innflutnings á grænmeti, væri starfsmaður ráðuneytisins og fjallaði þar um þessi sömu mál.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 25. maí 1990, taldi ég, að álagning sérstaks jöfnunargjalds af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim samkvæmt ýmsum reglugerðum ætti sér ótvíræða lagastoð í 1. gr. laga nr. 25/1986 um breytingu á lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og að gjaldtaka sú, sem kvörtunin lyti að, væri innan þeirra marka, sem lagaákvæði fortakslaust heimilaði. Þá taldi ég, að ekkert hefði komið fram um það, að ólögmæt sjónarmið hefðu legið til grundvallar álagningu jöfnunargjalds skv. reglugerðunum og tók sérstaklega fram, að svonefnt GATT-samkomulag hefði hvorki lagagildi hér á landi né væri því ætlað að stofna beinlínis til réttinda til handa einstaklingum. Þá áleit ég, að heimild landbúnaðarráðherra skv. reglugerð til að fella niður jöfnunargjald af vörum í ákveðnum tollflokkum, enda væru vörurnar fluttar inn til umtalsverðrar innlendrar iðnaðarframleiðslu, ætti sér viðhlítandi stoð í fyrrnefndum lögum og ekkert lægi fyrir um að ólögmætum sjónarmiðum hefði verið beitt við ákvörðun undanþágunnar. Starfsmaður landbúnaðarráðuneytisins var oddamaður nefndar skv. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1985, sem lætur landbúnaðarráðherra í té álit um innflutningsleyfi, m.a. á kartöflum. Ég taldi ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þetta, þar sem nefnd þessi væri ráðgefandi og færi ekki með úrskurðarvald.