Skattar og gjöld. Niðurfelling tolla af frystu grænmeti. Samkeppnisiðnaður. Jafnræði í stjórnsýslu.

(Mál nr. 112/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 15. febrúar 1990.

Umboðsmaður taldi, að fjármálaráðuneytið hefði mismunað fyrirtækinu A, þegar ráðuneytið felldi heimildarlaust niður tolla af innfluttu frystu grænmeti þriggja fyrirtækja en hélt A til laga. Umboðsmaður taldi, að ákvörðun fjármálaráðuneytisins um niðurfellingu tolla af frystu grænmeti yrði ekki reist á auglýsingu nr. 69/1988 um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða sölugjalds af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar. Auglýsing þessi sótti m.a. heimild sína til 13. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987. Umboðsmaður áleit, að einstakar ákvarðanir um tollundanþágur yrðu ekki reistar beinlínis á lagaheimild þessari, þar sem þar væri áskilið, að nánari reglur yrðu settar um framkvæmd ákvæðisins. Þann áskilnað yrði að skýra svo, að setja yrði almennar reglur um undanþágur, enda styddist það við veigamikil rök. Einstaklingsbundnar ákvarðanir, sem ekki byggðust á almennum reglum, væru til þess fallnar að valda óvissu um skilyrði tollundanþágu og þar með ójafnræði milli framleiðenda í samkeppnisgreinum. Ekki yrði séð, að lagaákvæði þetta veitti heimild til setningar reglna um undanþágur, er tæki til þess tilviks, sem um ræddi í málinu, jafnframt því að lokamálsgrein nefndrar 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 fæli ekki í sér neina sjálfstæða undanþáguheimild frá tollum.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 8. mars 1989 leitaði fyrirtækið A til mín með umkvörtun í tilefni af því, að fjármálaráðuneytið hefði með bréfi, dags. 5. ágúst 1988, synjað beiðni þess um niðurfellingu tolla af innfluttu frystu grænmeti til matvælaiðnaðar. Bar A fyrir sig, að önnur fyrirtæki, sem hefðu með höndum hliðstæðan innflutning og pökkun, hefðu fengið aðflutningsgjöld felld niður. Þá kvartaði A yfir því, að því hefði verið neitað um afrit af bréfum og fyrirmælum fjármálaráðuneytisins um niðurfellingu umræddra gjalda hjá öðrum fyrirtækjum.

Í synjunarbréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 5. ágúst 1988, sagði svo:

„Ráðuneytið hefur haft til athugunar erindi fyrirtækisins og fyrirtækisins [G... hf], dags. 6. júlí s.l., varðandi tollmeðferð á frystu grænmeti. Jafnframt er vísað til viðræðna við forsvarsmenn fyrirtækjanna.

Til svars erindinu tekur ráðuneytið fram að afstaða þess sem fram hefur komið í bréfum ráðuneytisins til fyrirtækjanna og viðræðum er óbreytt. Ráðuneytið getur ekki fellt niður toll af vörum þeim sem hér um ræðir án lagabreytinga, sem ekki eru fyrirhugaðar. Þar sem fyrirtækin stunda ekki framleiðslu eða pökkun á frystu grænmeti geta þær undanþáguheimildir sem ráðuneytið hefur samkvæmt tollalögum ekki átt við. Beiðni um niðurfellingu tolls er því synjað.

Varðandi ummæli fyrirtækjanna um að ráðuneytið hafi brotið ákvæði auglýsingar nr. 69/1988 um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða söluskatts af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar skal tekið fram að í 6. gr. tollalaga nr. 55/ 1987 er að finna ýmsar heimildir til handa ráðuneytinu til að fella niður toll af vörum. Samkvæmt lokamálsgrein greinarinnar er kveðið á um að setja megi nánari reglur um heimildir samkvæmt greininni. Hefur það verið gert, bæði með reglugerðum, umburðarbréfum til tollstjóra og einstökum heimildarbréfum til fyrirtækja og einstaklinga, enda kveða lögin ekki á um sérstakar formlegar leiðir vegna notkunar heimildanna. Aðferðir ráðuneytisins við þá notkun byggja á lagaheimildum og almennum stjórnsýsluvenjum sem skapast hafa. Þá skal einnig bent á að það fer eftir eðli undanþága þeirra sem veittar eru hvort um er að ræða almenn fyrirmæli eða undanþágur sem bundnar eru við ákveðna starfsemi eða fyrirtæki. Telur ráðuneytið að það sé í þess forræði að ákvarða notkun heimildanna og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla við veitingu þeirra.“

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 14. mars 1989 ritaði ég fjármálaráðherra bréf af ofangreindu tilefni. Ég mæltist til þess með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í kvörtun A kom fram, að þrjú nafngreind fyrirtæki hefðu fengið niðurfellingu þeirra gjalda, sem beiðni A laut að. Af því tilefni óskaði ég eftir því, að ráðuneytið léti mér í té afrit af bréfum eða öðrum fyrirmælum ráðuneytisins, ef ráðuneytið hefði veitt umræddum fyrirtækjum niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna „framleiðslu eða pökkunar“ á frystu grænmeti.

Jafnframt óskaði ég eftir því með vísan til áðurnefnds bréfs fjármálaráðuneytisins, dags. 5. ágúst 1988, til A, að ráðuneytið léti mér í té sýnishorn af umburðarbréfum til tollstjóra og af einstökum heimildarbréfum til fyrirtækja og einstaklinga. Einnig að ráðuneytið veitti mér upplýsingar um, í hvaða mæli slík bréf hefðu að geyma fyrirmæli eða skilyrði umfram það, að einstök fyrirtæki eða einstaklingar skyldu njóta niðurfellingar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt tiltekinni lagaheimild, ákvæðum í reglugerð eða reglum, sem settar hefðu verið samkvæmt heimild í lögum og birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

Fjármálaráðuneytið svaraði tilmælum mínum með bréfi, dags. 22. ágúst 1989. Það er svohljóðandi:

„I. Almennt.

Í fyrsta lagi

Samkvæmt viðauka I (tollskrá) við tollalög nr. 55/1987 er tollur af innfluttu grænmeti 30%. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III við ofangreind lög skyldi tollur þessi lækka í áföngum um 10% og falla niður hinn 1. janúar 1991. Tollalækkun þessari var hins vegar frestað í desember 1988, með lögum nr. 102/1988 um breyting á tollalögum nr. 55/1987.

Í öðru lagi

Í 6. gr. tollalaga er að finna ýmsar heimildir fyrir fjármálaráðherra til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld. Heimildir þessar, ef þær eru notaðar, eru ýmist notaðar með því að gefnar eru út reglugerðir, auglýsingar, umburðar- eða dreifibréf til tollstjóra, þar sem þeim er falin framkvæmd tiltekinna heimilda, eða fyrirtækjum og einstaklingum eru veittar heimildir til að tollafgreiða vörur án greiðslu aðflutningsgjalda, að uppfylltum skilyrðum sem ráðuneytið setur. Aðflutningsgjöld eru ekki felld niður nema skýrar lagaheimildir séu fyrir hendi og er það almenn regla ráðuneytisins að skýra undanþáguheimildir tollalaga, svo sem annarra skattalaga, þröngt.

I þriðja lagi

Í 13. tl. 6. gr. tollalaga er heimild til handa fjármálaráðherra til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkvæmt ákvæðum um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og ákvæðum samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu (EBE), svo og af vélum, vélahlutum og varahlutum sem notaðir eru til aðvinnslu sömu vara. Jafnframt að lækka eða fella niður gjöld af efnivöru í innlenda iðnaðarvöru ef gjöldin af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni. Fjármálaráðuneytinu ber að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið og samtök iðnaðarins. Hefur svo verið gert og gildir auglýsing nr. 69/1988 um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða söluskatts af aðföngum til samkeppnisiðnaðar, um framkvæmd heimildarinnar. Í I. kafla hennar er að finna ákvæði um niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda af vélum og tækjum sem notuð eru til framleiðslu vara sem teljast til samkeppnisiðnaðar. Innheimtumenn ríkissjóðs, þ.e. tollstjórar í hverju umdæmi, annast framkvæmd niðurfellinga eða endurgreiðslna gjalda af vélum og tækjum að uppfylltum nánar greindum skilyrðum. Í II. kafla ofangreindrar auglýsingar er hins vegar að finna ákvæði um niðurfellingu aðflutningsgjalda af hráefnum til framleiðslu samkeppnisiðnaðarvöru. Fjármálaráðuneytið annast niðurfellingar gjalda af hráefnum, samkvæmt skriflegri beiðni fyrirtækja þar sem tilgreina ber nákvæmlega framleiðslu fyrirtækis, hvaða hráefni það er sem fyrirtækið notar til framleiðslunnar og hvernig það nýtist í framleiðslu fyrirtækisins. Að uppfylltum skilyrðum auglýsingarinnar er fyrirtækinu afhent ráðuneytisbréf, þar sem fram kemur heimild til fyrirtækisins til að tollafgreiða nánar tilgreint hráefni, án greiðslu aðflutningsgjalda, enda verði hráefni þetta eingöngu notað til framleiðslu ákveðinnar vörutegundar.

II. Málefni fyrirtækisins A.

Fyrirtækið hefur óskað eftir því við ráðuneytið að það felli niður 30% toll af grænmeti sem það flytur til landsins. Beiðni, sem svarað var með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. mars 1988, var ekki unnt að taka afstöðu til þar sem fyrirtækið gerði ekki ljóst í beiðni sinni til hvaða framleiðslu það hygðist nota það grænmeti sem það óskaði eftir að tollur yrði felldur niður af. Var fyrirtækinu því bent á að kynna sér þau ákvæði sem giltu um niðurfellingu tollsins og haga umsókn sinni í samræmi við það.

Í júlí 1988 fór fyrirtækið þess enn á leit að því yrði heimilað að flytja til landsins grænmeti án greiðslu tolls. Í viðræðum við forsvarsmann fyrirtækisins kom fram að fyrirtækið stundar enga framleiðslu. Það grænmeti sem það flytur til landsins er flutt inn í smásöluumbúðum sem seldar eru í verslanir eða í stærri umbúðum sem fyrirtækið selur beint til veitingahúsa. Engin aðvinnsla fer fram á hinni innfluttu vöru. Má því ljóst vera að ofangreind heimild 13. tl. 6. gr. tollalaga getur ekki átt við um innflutning fyrirtækisins þar sem það stundar ekki iðnaðarframleiðslu heldur eingöngu heildverslun. Vegna þessa augljósa skorts á lagaheimild hefur ráðuneytið synjað beiðnum fyrirtækisins, bæði skriflega og munnlega. Vill ráðuneytið sérstaklega benda á að það er rangt sem fram kemur í kvörtun fyrirtækisins að það stundi einhverja aðvinnslu á því grænmeti sem það flytur til landsins. Ráðuneytið telur að átelja beri þessi vinnubrögð fyrirtækisins.

III. Heimildir sem ráðuneytið hefur veitt fyrirtækjum til tollfrjáls innflutnings á grænmeti.

Með vísan til heimildar í 13. tl. 6. gr. tollalaga hefur ráðuneytið veitt þremur fyrirtækjum heimild til tollfrjáls innflutnings á grænmeti sem fyrirtækin vinna að. Fyrirtæki þessi eru ..., ... og ... Heimild til tollfrjáls innflutnings þessara fyrirtækja er bundin því skilyrði m.a. að það sé flutt inn í 25 kg umbúðum og hreinsað og pakkað í smásöluumbúðir hér á landi. Auk þess eru frekari skilyrði sett fyrir niðurfellingu tolls og koma þau fram í bréfum ráðuneytisins til fyrirtækjanna en þau fylgja hjálagt til fróðleiks.

Í framhaldi af bréfi fyrirtækisins A, dags. 18. mars 1988, sem fylgir hjálagt í ljósriti, fór ráðuneytið þess á leit við embætti ríkistollstjóra, með bréfi, dags. 23. mars 1988, ljósrit fylgir hjálagt, að skoðaður yrði innflutningur og aðvinnsla hinna ofangreindu fyrirtækja á því grænmeti sem það flutti til landsins án greiðslu tolls. Hjálagt fylgja skýrslur tollgæslumanna þeirra sem unnu að skoðun þessari en ráðuneytið sá ekki ástæðu til neinna aðgerða í framhaldi af henni.

IV. Takmörkun á innflutningi grænmetis og kartaflna.

Af gefnu tilefni og vegna viðtala fyrirsvarsmanns A við þetta ráðuneyti svo og vegna ljósrits af bréfi fyrirtækisins, dags. 24. júlí 1987, sem fylgir kvörtun þess til yðar, varðandi innflutningstakmarkanir á innfluttar matjurtir vill ráðuneytið benda á að innflutningstakmarkanir á innfluttar matjurtir eru ákveðnar af landbúnaðarráðuneytinu og kemur þetta ráðuneyti ekki nálægt slíkum ákvörðunum þó að þeim sé framfylgt af tollstjórum. Þykir rétt að benda fyrirtækinu á að snúa sér til rétts aðila með athugasemdir vegna þessa þar sem ábendingar ráðuneytisins virðast ekki hafa komist til skila.

V. Lokaorð.

Svo sem að framan er rakið, samkvæmt gögnum í máli þessu og lagaheimildum sem raktar hafa verið telur ráðuneytið að kvörtun fyrirtækisins A eigi ekki við rök að styðjast þar sem innflutningur þess á frystu grænmeti er eingöngu til endursölu en engin aðvinnsla fer fram sem fallið getur undir heimildir ráðuneytisins um niðurfellingu tolls af hráefni til samkeppnisiðnaðar. Á meðan fyrirtækið getur ekki sýnt fram á aðvinnslu á hinni innfluttu vöru mun ráðuneytið ekki fella niður toll af því grænmeti sem fyrirtækið flytur til landsins. Það er Alþingis að ákveða hvort tollur af innfluttu grænmeti er felldur niður eða ekki en ekki ráðuneytisins nema skýrar lagaheimildir liggi til grundvallar.

Svo sem að framan er greint frá sendir ráðuneytið hjálagt ljósrit af ýmsum afgreiðslum og rannsóknum sem gerðar hafa verið vegna þessa máls. Það er framkvæmdaregla í ráðuneytinu að bréf og afgreiðslur þess eru ekki afhentar óviðkomandi aðilum enda telur ráðuneytið að það hafi trúnaðarskyldum að gegna gagnvart þeim aðilum sem í ráðuneytið leita. Allar almennar ákvarðanir eru hins vegar birtar í Stjórnartíðindum og ef um er að ræða umburðarbréf eða dreifibréf til innheimtumanna ríkissjóðs eða skatt- og tollyfirvalda er öllum frjáls aðgangur að slíkum ákvörðunum. Þó að yður, herra umboðsmaður, séu sendar afgreiðslur vegna framangreindra fyrirtækja er þess vænst að þér virðið þær reglur sem gilda í ráðuneytinu um þessi mál.

Að lokum vill ráðuneytið biðjast velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu erindis yðar en sem skapast hefur af miklum önnum í ráðuneytinu.“ Fjármálaráðuneytið sendi A afrit af þessu bréfi sínu. A gerði ýmsar athugasemdir við bréfið með bréfi, dags. 28. ágúst 1989. Vék A að auglýsingu nr. 69/1988. A taldi, að fjármálaráðuneytið hefði ekki lagastoð fyrir heimildum til tollafgreiðslu vöru án greiðslu aðflutningsgjalda og að ekki lægi fyrir hvaða skilyrði ráðuneytið setti einstökum aðilum fyrir niðurfellingu tolla. Ekki yrði séð, að lagaheimildir fyrir undanþágum væru túlkaðar þröngt heldur væri farið frjálslega með túlkun tollalaga og niðurfellingarheimildir teygðar og sveigðar fyrir einstaka aðila án þess að allir sætu við sama borð. Umræddar vörur væru hvorki hráefni til framleiðslu innlendrar iðnaðarvöru né svonefndar samkeppnisvörur skv. samningum við EFTA og EB. Staðhæfði A, að skilyrðum nefndrar auglýsingar fyrir niðurfellingu tolla hefði ekki verið fullnægt, enda ekki um neina aðvinnslu að ræða.

III. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 15. febrúar 1990, sagði:

„Kvörtun A varðar aðeins tolla af frystu grænmeti, sem flutt hefur verið inn og síðan dreift til kaupenda hér á landi, eftir atvikum að lokinni hreinsun og pökkun í smærri umbúðir. Verður ekki fjallað um önnur tilvik í áliti þessu. Kvörtunin lýtur að mismunun, er lýsi sér í því, að tiltekin fyrirtæki hafi verið tekin út úr og þeim veitt undanþága frá tolli, án þess að heimild sé til þess í lögum.

Af gögnum málsins kemur fram, að fjármálaráðuneytið hefur í þremur bréfum, dags. 11. ágúst 1987 og 23. febrúar 1988, ákveðið að fella niður toll af grænmeti, sem þrjú nafngreind fyrirtæki flyttu inn. Fyrir liggur, að a.m.k. eitt þessara fyrirtækja flutti inn fryst grænmeti, sem það síðan dreifði hér á landi, eftir að hafa pakkað grænmetinu á ný. Í greinargerð fjármálaráðuneytisins frá 22. ágúst 1989, sem að framan (II) er rakin, er tekið fram, að tollfrjáls innflutningur umræddra fyrirtækja hafi meðal annars verið bundinn því skilyrði, að grænmetið yrði flutt inn í 25 kg umbúðum og hreinsað og pakkað í smásöluumbúðir hér á landi.

Fjármálaráðuneytið byggir ofangreinda ákvörðun sína um að fella niður tolla af frystu grænmeti á 13. tölul. og lokamálsgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987. Ákvæði þessi eru svohljóðandi:

„6. gr.

…..

13. Að endurgreiða eða fella niður gjöld af hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkvæmt ákvæðum um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og ákvæðum samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu (EBE), svo og af vélum, vélarhlutum og varahlutum sem notaðir eru til aðvinnslu sömu vara. Jafnframt að lækka eða fella niður gjöld af efnivöru í innlenda iðnaðarvöru ef gjöldin af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni. Fjármálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæða þessa töluliðar að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið og samtök iðnaðarins.

...

Ráðherra getur sett nánari reglur um undanþágu-, lækkunar- og samræmingarheimildir samkvæmt þessari grein.“

Samkvæmt heimild í 13. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, 7. gr. laga nr. 97/1987 um vörugjald og 3. tölul. 7. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt birti fjármálaráðuneytið auglýsingu nr. 69/1988 um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda eða sölugjalds af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar.

8. gr. auglýsingar nr. 69/1988 er svohljóðandi:

„Af efnivörum og hlutum sem notað er til framleiðslu iðnaðarvara í samkeppnisiðnaði og fallið geta undir tollskrárnúmer í 1. gr. skal heimilt þegar við tollafgreiðslu að fella niður toll og vörugjald að uppfylltum skilyrðum 3. gr.

Af öðrum efnivörum og hlutum svo og hráefni til framleiðslu iðnaðarvara í samkeppnisiðnaði mun fjármálaráðuneytið fella niður aðflutningsgjöld svo og fella niður eða lækka gjöld af efnivörum í aðrar innlendar iðnaðarvörur, ef gjöld af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni. Iðnfyrirtæki er framleiða slíkar vörur geta vegna innflutnings á ótollafgreiddum vörum sótt um tollívilnun í skriflegu erindi til fjármálaráðuneytisins, þar sem gerð skal grein fyrir viðkomandi framleiðslu, aðföngum þeim sem óskað er eftir að njóti tollívilnana og þýðingu þeirra fyrir framleiðsluna. Til frekari skýringa skulu fylgja erindinu tæknilegar upplýsingar um vöruna, teikningar, myndir eða sérstök lýsing.

Ráðuneytið mun þó eigi lækka eða fella niður toll af neðangreindu:

a. Innfluttu efni sem jafnframt er framleitt innanlands og tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af vegna samninga við EFTA og EB. Nú fellur hráefni, efnivara eða hlutar til framleiðslu undir tollskrárnúmer sem tollar hafa verið felldir niður af vegna samninga við EFTA eða EB, en talið er að innlend framleiðsla sé engin eða óveruleg á slíkum vörum eða vörum með sama notagildi og mun ráðuneytið þá að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið taka sérstaklega til athugunar beiðnir um niðurfellingu gjalda, enda verði beiðnir þar að lútandi studdar fullnægjandi gögnum, m.a. um vægi kostnaðar þeirra í viðkomandi framleiðslu.

b. Efni sem við aðvinnslu skiptir ekki um tollskrárnúmer samkvæmt tollalögum, þ.e. óveruleg eða einföld aðvinnsla er eigi talin fullnægjandi svo sem sigtun, flokkun, umbúðaskipti, átöppun, ásetning merkimiða og blöndun.“

Þá segir í 10. gr. auglýsingar nr. 69/1988:

„Samkeppnisiðnaður í auglýsingu þessari tekur til iðngreina sem framleiða iðnaðarvörur er tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkvæmt ákvæðum samnings um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), sbr. viðauka I við tollalög nr. 55/1987, sbr. lög nr. 96/1987, svo og iðngreina sem framleiða iðnaðarvörur í 25.-99. kafla í tollskránni, sem tollar hafa verið felldir niður af samkvæmt viðauka I í tollalögum, án tillits til uppruna, enda falli vörur þessar undir tollalækkunarákvæði nefndra fríverslunarsamninga. Skipasmíðar skulu teljast til samkeppnisiðnaðar í þessu sambandi.“

Ég tel, að ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að fella niður tolla af frystu grænmeti verði ekki reist á auglýsingu nr. 69/1988. Tollskrárnúmer frysts grænmetis er ekki talið í 1. gr. auglýsingarinnar og getur því ekki notið tollundanþágu samkvæmt 1. mgr. 8. gr. Að því er varðar skilyrði undanþágu samkvæmt 2. mgr. 8. gr., þá verður ekki séð, að um hafi verið að ræða efnivörur eða hráefni til framleiðslu iðnaðarvara í samkeppnisiðnaði, sbr. 10. gr. auglýsingarinnar. Verður ekki séð, að fryst grænmeti geti með nokkru móti talist til iðnaðarvara, „sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkvæmt ákvæðum samnings um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA)“, sbr. samning um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu frá 4. janúar 1960 (sjá auglýsingu nr. 7/1970 um aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA)), einkum 21. gr. þess samnings og ákvæði viðauka D. Ekki er heldur um að ræða iðngrein, sem framleiðir iðnaðarvörur í 25.-99. kafla tollskrár, svo sem nánar segir í 10. gr. auglýsingarinnar. Þá geta hér ekki átt við ákvæði 2. mgr. 8. gr. auglýsingarinnar um að „fella niður eða lækka gjöld af efnivörum í aðrar innlendar iðnaðarvörur, ef gjöld af sams konar iðnaðarvöru framleiddri erlendis eru jafnhá eða lægri en af efnivörunni“. Auk þess fer ekki milli mála, að í tilviki því, sem hér er til umræðu, er eigi fullnægt skilyrðum b-liðar 3. mgr. 8. gr. auglýsingarinnar.

Einstakar ákvarðanir um tollundanþágu verða að mínum dómi ekki reistar beinlínis á ákvæðum 13. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987. Þar er áskilið, að nánari „reglur“ séu settar um framkvæmd þessa ákvæðis. Verður að skýra þann áskilnað svo, að setja verði almennar reglur um undanþágur. Slíkur áskilnaður styðst við veigamikil rök. Einstaklingsbundnar ákvarðanir, sem ekki byggðust á almennum reglum, væru fallnar til að valda óvissu um skilyrði tollundanþágu og þar með ójafnræði milli framleiðenda í samkeppnisgreinum. Tekið skal fram, að ekki verður séð að í 13. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 sé heimild til að setja reglur er feli í sér undanþágur í tilviki sem því, sem hér er fjallað um.

Þá tel ég augljóst, að lokamálsgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 geymi ekki neina sjálfstæða heimild til að veita undanþágur frá tollum. Þar er aðeins heimilað að setja reglur um undanþágur, sem veita má samkvæmt hinum eiginlegu heimildarákvæðum 13. gr..

Það er því skoðun mín, að heimild hafi skort í tilviki því, sem um ræðir í áliti þessu, til að veita nefndar undanþágur frá tollum af frystu grænmeti. Eru það tilmæli mín, að fjármálaráðuneytið geri ráðstafanir til þess að koma þessum málum í löglegt horf.“