Skattar og gjöld. Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtabóta. Afturvirkni skattalaga.

(Mál nr. 326/1990, 327/1990, 338/1990 og 339/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. nóvember 1990.

Á árinu 1990 báru fjórir aðilar fram kvörtun við mig út af ætlaðri afturvirkni ákvæða 9. gr. laga nr. 117 28. desember 1989, er breyttu C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, en með hinu umdeilda lagaákvæði var m.a. girt fyrir það, að áfallnar uppsafnaðar verðbætur af lánum, sem kaupandi yfirtæki við sölu íbúðar, teldust til vaxtagjalda hjá seljanda og mynduðu þannig grunn til ákvörðunar vaxtabóta seljanda. Með lögum nr. 79 31. maí 1989 um breyting á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt voru vaxtabætur teknar upp í stað húsnæðisbóta og vaxtaafsláttar og skyldi hið nýja fyrirkomulag taka gildi frá og með álagningarárinu 1990. Með 9. gr. laga nr. 117, 28. desember 1989 voru gerðar breytingar á hinum nýju reglum og var tekjuárið þá nánast liðið.

Í bréfum mínum til þeirra, sem kvörtun báru fram, dags. 30. nóvember 1990, tjáði ég þeim, að umboðsmanni Alþingis væri ekki ætlað að fjalla um kvartanir út af lögum, sem Alþingi hefði sett, þar sem starfssvið hans tæki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Því brysti skilyrði til þess að ég tæki kvartanirnar til frekari athugunar sem slíkar. Ég tók hins vegar fram í bréfum mínum, að ég skildi erindi þeirra svo, að með þeim væru þeir að vekja athygli mína á því, að nefnd ákvæði laga nr. 117/1989 féllu að þeirra áliti undir „meinbugi“ á lögum í merkingu 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Af því tilefni vakti ég athygli á orðum fjármálaráðherra í umræðum vegna fyrirspurnar á Alþingi um þessi ákvæði laga nr. 117/ 1989. Kom fram í orðum hans, að hann hygðist leggja fram á Alþingi frv. til laga, þar sem kveðið yrði á um það, að umræddar breytingar skv. 9. gr. laga nr. 117/1989 öðluðust ekki gildi fyrr en 1. janúar 1990 og að heimilt yrði að hækka vaxtabætur á árinu 1990 vegna greiddra vaxta á árinu 1989 í þeim tilvikum, þar sem það ætti við. Ég benti því á, að það kæmi til kasta Alþingis á næstunni að fjalla um málefni það, sem umrædd erindi beindust að, og með hliðsjón af því væri niðurstaða mín, að ekki væri rétt, að ég tæki lög nr. 117/ 1989 til athugunar á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Rétt er að geta þess, að það gekk eftir, sem fjármálaráðherra sagði í tilefni fyrrnefndrar fyrirspurnar. Hann lagði fram frv. til laga, þar sem m.a. var gert ráð fyrir frestun á gildistöku umræddra ákvæða laga nr. 117/1989. Var það samþykkt á Alþingi, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 112 27. desember 1990 um breyting á lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.