Skipulags- og byggingarmál. Gildi byggingarleyfis. Ársfresturinn.

(Mál nr. 149/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 15. janúar 1990.
Umboðsmaður taldi, að deiliskipulag og stækkun byggingarreits hefðu verið „til lykta leidd“ í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 með staðfestingu félagsmálaráðherra á ákvörðun og birtingu auglýsingar um það í Stjórnartíðindum. Kvartanir voru því taldar of seint fram komnar. Umboðsmaður taldi, að aðeins verulegir ágallar varðandi frávik frá staðfestu deiliskipulagi og við málsmeðferð gætu leitt til þess að byggingarleyfi yrði fortakslaust ógilt. Ekki var talið að úrskurður félagsmálaráðherra um byggingarleyfi ráðhúss í Reykjavík hefði verið ólögmætur eða farið í bága við góða stjórnsýsluhætti.

Hinn 28. júní 1989 bárust mér kvartanir nokkurra aðila út af skipulagsmálum og veitingu byggingarleyfis vegna ráðhússbyggingar í Reykjavík. Í samhljóða bréfum mínum, dags. 15. janúar 1990, til þessara aðila sagði:

„Að því leyti sem kvörtun yðar varðar undirbúning og staðfestingu deiliskipulags Kvosarinnar, skal tekið fram, að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 skal bera fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis innan árs frá því „er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur“. Umrætt deiliskipulag var „til lykta leitt“ í skilningi nefnds lagaákvæðis með staðfestingu félagsmálaráðherra 23. febrúar 1988 og auglýsingu hennar í Stjórnartíðindum 29. febrúar 1988. Kvörtun yðar barst mér hins vegar 28. júní 1989. Af þessum sökum brestur lagaskilyrði til þess, að ég fjalli um kvörtun yðar út af deiliskipulaginu. Sama máli gegnir um ákvörðun skipulagsstjórnar ríkisins frá 23. mars 1988 að heimila stækkun byggingarreits ráðhússins, þar sem það mál telst hafa verið „til lykta“ leitt í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 með staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á þeirri ákvörðun hinn 22. apríl 1988 og auglýsingu hennar í Stjórnartíðindum 29. apríl 1988. Enn á hið sama við um þá ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur að heimila sameiningu lóðanna nr. 11 við Vonarstræti og nr. 11 við Tjarnargötu og síðan stækkun lóðarinnar, þar sem félagsmálaráðuneytið hafnaði kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar í bréfi 24. maí 1988.

Að því er varðar veitingu byggingarleyfis fyrir ráðhúsið og þann úrskurð félagsmálaráðuneytis frá 29. júní 1988, að hafna kröfu um ógildingu byggingarleyfisins, þá fullnægir kvörtun yðar skilyrðum 6. gr. laga nr. 13/1987. Ég hef athugað þennan þátt málsins á grundvelli þeirra gagna, sem þér hafið lagt fram. Í úrskurði félagsmálaráðuneytisins var meðal annars fjallað um ýmis frávik byggingarleyfis frá deiliskipulaginu. Niðurstaða ráðuneytisins varð sú, að byggingarleyfið væri ekki í slíku ósamræmi við skipulagið að varðaði ógildingu þess.

Skoðun mín er sú, að samkvæmt almennum reglum um stjórnarathafnir hafi frávik byggingarleyfis frá staðfestu deiliskipulagi og aðrir hugsanlegir gallar á málsmeðferð ekki fortakslaust varðað ógildi byggingarleyfisins. Aðeins verulegir ágallar að þessu leyti hafi að lögum getað leitt til þeirrar niðurstöðu, en slíkt er oft álitamál og matsatriði. Með hliðsjón af þessum reglum stjórnsýsluréttar tel ég athugun mína ekki hafa leitt í ljós, að úrskurður félagsmálaráðuneytisins hafi verið ólögmætur eða farið í bága við góða stjórnsýsluhætti. Miðað við þá niðurstöðu er það álit mitt, að ekki sé ástæða til að fjalla nánar um einstaka annmarka á umræddu byggingarleyfi eða undirbúningi þess.

Samkvæmt framansögðu hef ég ákveðið að fjalla ekki frekar um kvörtun yðar.“