Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Lagasetning Alþingis. Sala fyrirtækja í eigu ríkisins og réttarstaða starfsmanna.

(Mál nr. 242/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. mars 1990.

A, eitt af félögum opinberra starfsmanna, bar fram kvörtun við mig hinn 30. janúar 1990 vegna þess að það taldi, að með ýmsum lögum hefðu verið skert þau réttindi, sem ríkisstarfsmönnum væru tryggð með 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins jafnframt því, að í vissum tilvikum hefðu lög beinlínis verið brotin á tilteknum starfsmönnum. Í bréfi mínu til A, dags. 27. mars 1990, sagði:

„l. Ég skil aðfinnslur [A...] svo, að í fyrsta lagi telji félagið, að með ýmsum lögum hafi með óheimilum hætti verið skert þau réttindi, sem ríkisstarfsmönnum ber samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í öðru lagi hafi ríkisstarfsmönnum verið mismunað varðandi rétt til launa samkv. 14. gr. í lögum, sem hafa lagt ýmsar ríkisstofnanir niður. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Af því leiðir, að umboðsmanni er almennt ekki ætlað að hafa afskipti af lögum og löggjafarstarfi Alþingis. Því brestur skilyrði til þess, að farið verði með umrædda þætti í aðfinnslum [A...] sem kvörtun samkvæmt lögum nr. 13/1987. Ég lít á nefndar athugasemdir félagsins sem ábendingar um “meinbugi“ á gildandi lögum í skilningi 11. gr. laga nr. 13/1987. ...

2. Í þriðja lagi tel ég koma fram í fyrrgreindu bréfi [A...], að í vissum tilvikum hafi í framkvæmd beinlínis verið brotin lög á tilteknum starfsmönnum, sbr. t.d. það, sem segir í niðurlagi greinargerðar í bréfinu um [X-stofnun] og í athugasemdum varðandi [Y-stofnun]. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 getur hver sá borið fram kvörtun við umboðsmann, sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum. Til þess að ég geti fjallað nánar um nefnd atriði í aðfinnslum félagsins, verða þeir einstaklingar, sem í hlut eiga, eða félagið í umboði þeirra að bera fram kvörtun. Verður þá að gera grein fyrir máli hvers einstaklings um sig.“