Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Lagasetning Alþingis. Gjaldskylda manna utan trúfélaga.

(Mál nr. 272/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. apríl 1990.

A kvartaði yfir því, að hluti af opinberum gjöldum hans rynni til Háskóla Íslands, þar sem hann væri utan trúfélaga. Í bréfi mínu til A, dags. 25. apríl 1990, lýsti ég ákvæðum 2.-4. mgr. 64. gr. stjórnarskrár og ákvæðum laga nr. 91/1987 um sóknargjöld og sagði síðan:

„Kvörtun yðar beinist í raun að þeirri skipan, sem ákveðin hefur verið í lögum og stjórnarskrá. Kvartanir verða hins vegar aðeins bornar upp við umboðsmann Alþingis út af stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar.“