Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Lagasetning Alþingis. Álagning sérstaks eignarskatts og ráðstöfun hans.

(Mál nr. 352/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. desember 1990.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 1990, fór A fram á, að ég tæki til úrlausnar lögmæti skattheimtu ríkisins á hendur honum í tilefni af álagningu sérstaks eignarskatts samkvæmt lögum nr. 49/1986 um þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu, sbr. lög nr. 40/1987, og nú lög nr. 83/1989 um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Bar A fyrir sig, að fjármálaráðherra hefði upplýst á Alþingi, að aðeins hluti innheimts skatts hefði runnið til þeirra verkefna, er lögin kvæðu á um. Vildi hann fá því svarað, hvort hann gæti krafið fjármálaráðherra endurgreiðslu á því hlutfalli skattsins, sem ekki hefði runnið til hinna sérstöku, lögmæltu verkefna en mismunurinn hefði verið notaður til almennra útgjalda ríkissjóðs. Í svarbréfi mínu til A, dags. 3. desember 1990, vísaði ég til þess, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar væri greint í lögunum, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá skyldi umboðsmaður gæta þess, að jafnræði væri í heiðri haft í stjórnsýslu og að hún færi að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Í 5. gr. laganna segði, að umboðsmaður gæti tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða af sjálfs sín frumkvæði, en kvörtun gæti hver borið fram við umboðsmann, er teldi stjórnvald hafa beitt sig rangindum. Þá tók ég fram í bréfinu, að umboðsmanni væri ekki ætlað að láta uppi almenn álit um framkvæmd einstakra laga, heldur tæki hann mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar, sem fram væri borin í tilefni af tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalda. Ég tjáði A því, að nauðsynlegt væri, að hann tilgreindi nákvæmlega, hvaða ákvarðanir væri um að ræða og upplýsti m.a., hvort og þá með hvaða hætti álagning og innheimta hins sérstaka eignarskatts hefði beinst að honum og hvenær stjórnsýsluákvarðanir um það hefðu verið teknar. Það væri því niðurstaða mín, að ekki væru uppfyllt lagaskilyrði til þess, að ég gæti tekið erindi hans til frekari athugunar sem kvörtun.