Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Dómstólar. Réttarágreiningur sem á undir dómstóla.

(Mál nr. 288/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 25. maí 1990.

Hjónin A og B báru fram kvörtun við mig hinn 25. apríl 1990, er laut að afskiptum starfsmanns byggingarfulltrúa í X-kaupstað af útreikningi á eignarhluta þeirra í húseign nokkurri í kaupstaðnum. Í bréfi mínu til A og B, dags. 25. maí 1990, taldi ég lagaskilyrði bresta til afskipta minna af málinu á svofelldum forsendum sem í bréfinu greinir:

„Samkvæmt kvörtun yðar eru málavextir þeir, að á árinu 1975 var [N], starfsmaður byggingarfulltrúans í [X-kaupstað], fenginn af þáverandi eigendum til þess að reikna út skiptingu milli eignarhluta í húseigninni. Hinn 12. ágúst 1988 var [N] á ný fenginn til þess að gefa yfirlýsingu, er þinglýst var og var þess efnis, að eignarhluti kjallaraíbúðarinnar hefði verið reiknaður miðað við tiltekinn vegg í gangi kjallarans og að rými innan hans hefði verið reiknað sem séreign kjallaraíbúðarinnar. Með yfirlýsingu, dags. 5. júlí 1989, afturkallaði [N] yfirlýsinguna frá 12. ágúst 1988.

Kvörtun yðar lýtur fyrst og fremst að afturköllun yfirlýsingarinnar frá 12. ágúst 1988 svo og tilteknum fullyrðingum í yfirlýsingunni frá 5. júlí 1989.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Útreikningur á eignarhluta íbúðarhúsnæðis telst ekki til stjórnsýslu í þessari merkingu og sama á einnig við yfirlýsingar [N] varðandi umræddan útreikning. Í máli þessu reynir á sönnun um ýmis atriði og þá einkum, hvernig eignarhluti kjallaraíbúðarinnar hafi verið reiknaður í upphafi og hvað tilheyri íbúðinni sem séreign. Ég bendi yður á, að sá ágreiningur, sem enn kann að vera fyrir hendi í máli þessu, verður borinn undir dómstóla.“