Skattar og gjöld. Frádráttur ökutækjakostnaðar. Akstur milli heimilis og vinnustaðar. Matsreglur ríkisskattstjóra. Jafnræði skattgreiðenda.

(Mál nr. 472/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 8. febrúar 1993.

A kvartaði yfir framkvæmd matsreglna, sem ríkisskattstjóri hafði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og vörðuðu heimild launþega til frádráttar ökutækjakostnaður á móti ökutækjastyrkjum. Vinnuveitandi A, fyrirtækið X, hafði skipulagt sérstakan akstur með hópferðabifreiðum fyrir starfsmenn sína milli heimilis þeirra og vinnustaðar án endurgjalds en vinnustaðurinn var í nokkurri fjarlægð frá heimilum. A fékk ökutækjastyrk greiddan frá X vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, þar sem hann bjó utan akstursleiða hópferðabifreiðanna. Skattstjóri viðurkenndi ekki frádrátt kostnaðar A á móti þessum ökutækjastyrk á þeim forsendum, að samkvæmt 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 mætti draga útgjöld á móti ökutækjastyrkjum frá tekjum í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra og samkvæmt þeim reglum teldist "allur akstur launþega milli heimilis og vinnustaðar vera í hans eigin þágu". Synjun skattstjóra staðfesti ríkisskattanefnd með úrskurði í kærumáli A. Af hálfu A kom m.a. fram, að sumir starfsmenn fengju endurgjaldslausan flutning til og frá vinnu án þess að slíkt væri skattlagt sem hlunnindi og væri jafnræðis því ekki gætt.

Umboðsmaður rakti í áliti sínu þróun ákvæða laga og reglugerða um frádrátt vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar og um frádrátt útgjalda vegna notkunar eigin bifreiðar í þágu vinnuveitanda frá greiðslum fyrir afnotin svo og um skattskyldu greiðslna vegna hvorutveggja. Þá vék umboðsmaður að matsreglum ríkisskattstjóra um frádrátt á móti ökutækjastyrkjum. Umboðsmaður tók fram, að óumdeilt væri, að umræddar greiðslur til A væru skattskyldar. Kvörtunin lyti að synjun frádráttar vegna kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar. Umboðsmaður gat þess, að um langt árabil hefði verið greint á milli þeirra tvenns konar frádráttarheimilda, sem fyrr greinir, og hefði sá greinarmunur haldist allt fram að setningu laga nr. 49/1987, þegar felld hefði verið niður heimild til að draga frá tekjum fargjöld vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Yrði ekki séð, að með þeim breytingum, sem að öðru leyti hefðu verið gerðar á A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 með lögum nr. 49/1987 og síðar lögum nr. 92/1987, hefði verið ætlunin að heimila almennt frádrátt vegna kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar heldur stefnt að því að fækka frádráttarheimildum og þrengja þær. Samkvæmt orðalagi 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eftir breytingarnar væri miðað við, hvort um væri að ræða útgjöld á móti kostnaði, sem sannað væri, að væri ferða- og dvalarkostnaðar vegna atvinnurekanda. Væru útgjöldin þó aðeins frádráttarbær, að þau væru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, sem væri þannig fengið vald til að móta nánar reglur um þetta. Orðalag umrædds lagaákvæðis útilokaði ekki, að tekið væri tillit til kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar væri sá akstur beinlínis í þágu vinnuveitanda svo sem ef bifreiðin yrði að vera tiltæk til erindisreksturs fyrir vinnuveitanda frá vinnustað. Tók umboðsmaður fram, að ekki yrði séð, að A hefði byggt á slíkum þörfum vinnuveitanda fyrir bifreiðina. Það var niðurstaða umboðsmanns, að úrskurður ríkisskattanefndar og matsreglur ríkisskattstjóra að því marki, sem á þær reyndi, hefðu ekki verið andstæðar 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar yrði því ekki neitað, að sú niðurstaða, sem þar væri um að ræða, kynni að leiða til nokkurs ójafnræðis miðað við skattlagningu þeirra skattgreiðenda, sem fengju ókeypis flutning milli heimilis og vinnustaðar. Taldi umboðsmaður ástæðu til að beina þeim tilmælum til yfirvalda skattamála að taka það atriði til nánari athugunar og þá eftir atvikum, hvort ástæða væri til að jafna stöðu skattgreiðenda í þessu tilliti. Í því sambandi yrði athugað, hvort rétt væri að heimila að einhverju leyti frádrátt kostnaðar vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, þegar launþegi sinnti erindum fyrir vinnuveitanda frá vinnustað.

I. Kvörtun.

Hinn 2. júlí 1991 leitaði til mín A, og kvartaði yfir framkvæmd matsreglna, sem ríkisskattstjóri hefði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og tækju til heimildar launþega til þess að mega draga kostnað frá ökutækjastyrkjum.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir, að vinnuveitandi A, X, hefur skipulagt sérstakan akstur með hópbifreiðum fyrir starfsmenn sína milli heimilis þeirra og vinnustaðar, án þess að endurgjald komi fyrir úr hendi starfsmanna. Starfsmenn, sem búa utan þeirra leiða, er hópbifreiðarnar aka, og starfsmenn, sem nota eigin bifreið, annað hvort vegna þess að þeir kjósa það heldur eða vegna þess að þeir hefja störf eða ljúka þeim utan þess tíma, sem hópbifreiðarnar aka, hafa fengið akstur greiddan af félaginu. A fékk slíkar greiðslur á árinu 1989 og á skattframtali sínu gerði hann grein fyrir þeim og óskaði eftir að tekið yrði tillit til kostnaðar á móti ökutækjastyrk vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, en því var synjað. Hinn 24. ágúst 1990 kærði A synjunina til skattstjóra. Í kærunni segir meðal annars:

"1. [X] kostar flutning starfsmanna sem búsettir eru á [...] til og frá vinnu, þeim að kostnaðarlausu. [X] telur sér hag í því að ráða ekki einn verktaka til fólksflutninga í dreifbýlinu, heldur greiða þeim sem búa utan akstursleiða fólksflutningavagna kostnað við að flytja sig til og frá vinnu.

Sé slík endurgreiðsla á kostnaði skattskyld þá eru þau "hlunnindi", sem starfsmenn fá, sem fluttir eru til og frá vinnustað þeim að kostnaðarlausu, skattskyld með sama hætti. Nú eru "hlunnindi" þeirra starfsmanna, sem fluttir eru til og frá vinnu þeim að kostnaðarlausu, með fólksflutningabifreiðum þess verktaka sem ekur milli [...] og [...], ekki skattlögð.

Í réttarríki eiga allir að vera jafnir fyrir lögum, og ekki á að vera hægt að túlka þau misjafnlega eftir búsetu manna. Ég tel því, að samkvæmt þessari grundvallarreglu, fái ekki staðist að leggja skatt á "hlunnindi" sumra einstaklinga þegar hliðstæð "hlunnindi" annarra eru ekki skattlögð.

2. Sé það ætlun skattyfirvalda að brjóta þá grundvallarreglu réttarríkis sem getið er um í lið 1 hér að framan, þá krefst ég þess til vara að þær greiðslur sem ég hef fengið fyrir flutning til og frá vinnustað mínum séu skattlagðar, ekki sem launatekjur, heldur sem greiðslur til "verktaka í flutningum", á sama hátt og sá verktaki er skattlagður sem flytur starfsfólk milli [...] og [...] á kostnað [X]."

Skattstjóri Vesturlandsumdæmis synjaði kæru A með úrskurði, dags. 19. október 1990. Þar kemur fram, að samkvæmt 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 skuli ákvarða frádrátt á móti ökutækjastyrk í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, en samkvæmt þeim teljist "allur akstur launþega milli heimilis og vinnustaðar vera í hans eigin þágu".

Með bréfi, dags. 23. október 1990, kærði A úrskurð skattstjóra Vesturlands til ríkisskattanefndar. Í bréfinu segir meðal annars:

"Þá vil ég einnig benda á þá rökleysu sem felst í úrskurði skattstjóra að tekin er til greina akstursþörf fyrir vinnuveitandann út frá vinnustað, sem verandi í hans þágu, en ekki að koma ökutækinu á vinnustað til þess að geta nýtt það þaðan í þágu vinnuveitandans.

Nú hagar svo til á því landsvæði sem umræddur akstur fer fram á að þar eru engir almenningsvagnar og því útilokað að komast til og frá vinnustað með slíkum farartækjum og láta bifreið standa á vinnustað.

Þessum úrskurði má líkja við það að tveir menn sem störfuðu hjá sama fyrirtæki, og annar fengi strætisvagnamiða án greiðslu en hinn peninga til kaupa á samskonar miða, væru meðhöndlaðir með sín hvoru móti þ.e.a.s. sá sem fær farseðil án greiðslu er ekki skattlagður en hinn er skattlagður eins og ef um laun væri að ræða. Slík tvöfeldni í túlkun laga og reglugerða fær ekki staðist með neinu móti.

Þá má geta þess að Skattstjóra Vesturlandsumdæmis er fullkunnugt um tilhögun flutnings starfsmanna [X] til og frá [...] en fyrirtækið hefur ritað skattstjóranum bréf dags. 12. maí 1989 og gert grein fyrir tilhögun mála."

Í tilvitnuðu bréfi X frá 12. maí 1989 segir svo:

"Greiðslur félagsins fyrir afnot af eigin bifreiðum starfsmanna fara í öllum tilfellum eftir töxtum ríkisins eins og þeir eru á hverjum tíma.

Greiðslum þessum má skipta í fjóra flokka:

1. Starfsmaður býr á [...] eða í leið almenningsvagna, sem félagið leigir til flutnings á starfsfólki af [...], en kýs engu að síður að nota eigin bíl til að fara að og frá vinnu. Hann fær greiðslu á þriðjungi venjulegs kílómetragjalds, en það svarar til þess kostnaðar, sem fyrirtækið mundi hafa af flutningi hans í almenningsvagni. Með því að bíllinn er á vinnustað er starfsmaður öðru hverju fenginn til að skjótast á bílnum erinda fyrirtækisins og fær þá fullt kílómetragjald fyrir þann akstur.

2. Starfsmaður býr utan leiða almenningsvagnanna og kemur að ósk fyrirtækisins þess vegna á eigin bíl og fær þriðjungsgreiðslu, sem fyrr var lýst.

3. Nokkrir starfsmenn, einkum verkstjórar í ofndeild og starfsfólk í mötuneyti kemur akandi á sínum bílum og fær fulla greiðslu fyrir þar eð fyrirtækið óskar þess sérstaklega, að starfsmaður hefji eða ljúki vinnu á annarlegum tímum, þegar almenningsvagnar eru ekki til reiðu þessum starfsmönnum, en með aðgerð félagsins fyrirmunað að nýta fríar ferðir og fær útlagðan kostnað greiddan með þessum hætti.

4. Fáeinir starfsmenn fá fasta greiðslu á mánuði hverjum sem svarar ákveðnum akstri í þágu fyrirtækisins hvern mánuð. Allir aka þessir starfsmenn mikið í þágu fyrirtækisins, þótt það sé e.t.v. nokkuð mismikið eftir aðstæðum t.d. í rekstri. Þegar vandamál eru í rekstrinum eru aukaferðir manna tíðari. Sömuleiðis eru erindi þessara manna til Reykjavíkur erinda félagsins mistíð."

Niðurlag úrskurðar ríkisskattanefndar frá 23. maí 1991 er svohljóðandi:

"Hin kærða lækkun skattstjóra á frádrætti frá tekjufærðum ökutækjastyrk vegna kostnaðar við rekstur bifreiðar varðar eingöngu þann þátt er lýtur að greiðslu vegna aksturs kæranda milli heimilis og vinnustaðar. Þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er staðfestur."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 4. nóvember 1991, upplýsti ég, að mér hefði auk kvörtunar A borist kvörtun frá H, sem einnig lyti að framkvæmd á matsreglum þeim, er ríkisskattstjóri hefði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981. Tók ég fram, að í báðum tilvikum væri um að ræða launþega, sem fengið hefðu sérstakar greiðslur frá vinnuveitendum sínum vegna ferða að og frá vinnustað, en vinnustaðir A og H væru í nokkurri fjarlægð frá heimilum þeirra og þyrftu þeir því að ferðast á milli með eigin bifreið eða almennum áætlunarferðum og greiða kostnað af þeim ferðum. Eftir að hafa gert ríkisskattstjóra grein fyrir helstu málavöxtum í máli A og H, sagði svo í bréfi mínu:

"Samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum eru greiðslur, sem launþegi fær í formi ökutækjastyrks eða flutningspeninga, þ.m.t. til að standa straum af kostnaði vegna ferða milli vinnustaðar og heimilis, skattskyldar tekjur. Við setningu laga nr. 75/1981 voru ákvæði í 2. og 3. tl. A-liðar 30. gr. um frádrátt manna frá tekjum utan atvinnurekstrar af þessu tilefni, m.a. um heimild til að draga frá fargjöld vegna ferða á vegum atvinnurekenda og vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Með lögum nr. 49/1987 var umræddum ákvæðum A-liðar 30. gr. breytt og hljóðaði 1. tl. ákvæðisins svo eftir þá breytingu:

"Útgjöld vegna móttekinna ökutækjastyrkja og dagpeninga sem sannað er að sé kostnaður vegna ferða á vegum atvinnurekenda og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra."

Þessu ákvæði var síðan breytt aftur með lögum nr. 92/1987 og hljóðar nú svo:

"Útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra."

Í athugasemdum með því frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 49/1987, kemur fram, að með þeirri breytingu átti að þrengja frádráttarheimildir, en þó var áfram gert ráð fyrir að sönnuð útgjöld vegna móttekinna ökutækjastyrkja og dagpeninga yrðu frádráttarbær. Tillaga að því ákvæði laga nr. 92/1987, sem rakið var hér að framan, kom fram sem breytingartillaga frá þingnefnd og sagði framsögumaður nefndarinnar, er hann mælti fyrir tillögunni, að eðlilegt hefði þótt að útvíkka gildandi ákvæði nokkuð, enda útlagður kostnaður ekki eðlilegur skattstofn.

Í þeim tveimur tilvikum, sem kvartanirnar fjalla um, liggur fyrir að hlutaðeigandi vinnuveitendur hafa fallist á að greiða starfsmönnum sínum sérstakar greiðslur í tilefni af kostnaði, sem starfsmennirnir hafa af því að koma sér að og frá vinnustað. Það er einnig sameiginlegt í þessum tilvikum að þeir, sem bera fram kvartanirnar, benda á að hluti starfsmanna á sömu vinnustöðum og þeir vinna, í öðru tilvikinu að vísu hjá öðrum vinnuveitanda, fái ókeypis flutning til og frá vinnu, án þess að slíkt sé skattlagt sem hlunnindi. Frá sjónarhóli þeirra, sem kvartanirnar bera fram, felst í þessu brot á jafnræði milli skattgreiðenda."

Í lok bréfs míns óskaði ég skýringa á því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hvaða marki ríkisskattstjóri teldi, að ákvæði núgildandi laga nr. 75/1981 girtu fyrir, að þeir launþegar, sem fengið hefðu greiðslur frá vinnuveitendum sínum vegna kostnaðar við ferðir að og frá vinnustað, gætu fært þær á móti til frádráttar kostnaði, sem sanna mætti að væri vegna slíkra ferða, og hvort það væri mat ríkisskattstjóra, að kostnaður launþega vegna ferða að og frá vinnu gæti ekki fallið undir ferðakostnað "vegna atvinnurekanda", sbr. 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Þá óskaði ég ennfremur eftir því, að ríkisskattstjóri skýrði, hvort og þá með hvaða hætti gildandi lög og matsreglur ríkisskattstjóra samkvæmt 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, gripu á því jafnræði, sem kvartanirnar lytu að. Af þessu tilefni taldi ég rétt að vekja athygli ríkisskattstjóra á úrskurði ríkisskattanefndar uppkveðnum 30. september 1976, en þar segir m.a.:

"Altítt er, að í kjarasamningum stéttarfélaga launþega og vinnuveitenda séu ákvæði þess efnis, að þeir síðarnefndu láti starfsfólki sínu í té ókeypis flutning til og frá vinnu, sé dagleg vinnustöð utan ákveðins svæðis eða fjarri heimili starfsmanna. Þessi flutningsskylda mun efnd með mismunandi hætti, en algengt mun, að vinnuveitandi inni hana af hendi með því að leggja til eigin ökutæki með ökumanni. Ekki er til þess vitað, að slík þjónusta sé eða hafi nokkurn tímann verið reiknuð viðkomandi starfsmönnum til skatt- eða útsvarsskyldra tekna. Í öðrum tilvikum svo sem því er hér ræðir um, þegar flutningsskylda hvílir á vinnuveitandanum endurgreiðir hann vinnuþega hin útlögðu fargjöld eða flutningskostnað, sem hann hefir innt af hendi. Ráða hagkvæmnisástæður því gjarnan hvor leiðin er valin. Ekki eru sjáanleg efnisrök til að gera skattalegan mun hér á. Með vísan til þess er rakið hefir verið, þykir eigi grundvöllur til að skýra 4. og 15. gr. laga nr. 11/1975 svo, að hún eigi við í tilviki sem þessu. Með þessum rökum er krafa kærenda tekin til greina."

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. apríl 1992, bárust mér umbeðnar skýringar og eru þær svohljóðandi:

"Með lögum nr. 49/1987 var 2. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978 felldur niður en sá liður fjallaði um frádrátt frá tekjum vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar, hvort sem launagreiðandi greiddi þær ferðir eða ekki, en slíkar greiðslur, þ.m.t. svonefnd "endurgreidd fargjöld", voru og eru taldar til skattskyldra tekna skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Rétt þykir að vekja athygli á að í greinargerð um einstakar greinar frumvarps þess er varð síðar að lögum nr. 40/1978, segir um 2. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. að töluliðurinn sé "í samræmi við C-lið 12. gr. gildandi laga", þ.e. laga nr. 68/1971, sem fjallaði um langferðir vegna atvinnu manns, og 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963, með síðari breytingum, var byggð á.

Eins og kemur fram í bréfi yðar var orðalagi 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 49/1987 breytt í lögum nr. 92/1987. Sú orðalagsbreyting var gerð til þess að tryggja að óumdeildur útlagður kostnaður, s.s. ferðakostnaður launþega sem sendur er frá starfsstöð á vegum launagreiðanda, greiðslu til alþingismanna samkvæmt lögum nr. [75/1980] um þingfararkaup alþingismanna o.fl., yrði örugglega utan skattlagningar.

Vafalaust geta verið skiptar skoðanir á því hvort orðalagsbreyting 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. í lögum nr. 92/1987 hafi verið útvíkkun á gildandi ákvæða samkvæmt lögum nr. 49/1987, eða um hafi verið að ræða nákvæmara orðalag til þess að koma í veg fyrir ágreining, en tilgangur löggjafans kemur mjög greinilega fram í almennum athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 49/1987, þ.e. í kafla um "Helstu breytingar", undirkafla "Breyttur skattstofn" síðari málslið 3. mgr. en þar segir:

"Eins er gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum til að koma í veg fyrir að menn greiði skatt af raunverulegum kostnaði sem þeir hafa, t.d. vegna notkunar bifreiða í þágu vinnuveitanda eða á ferðalögum vegna starfs síns."

Það er álit ríkisskattstjóra að greiðslu launagreiðanda til launamanns vegna kostnaðar við ferðir að og frá vinnu geti ekki fallið undir hugtakið "ferðakostnaður vegna atvinnurekanda" af þeirri ástæðu að viðkomandi starfsmaður er þá ekki að störfum í þágu launagreiðandans. Ákvæði 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum fjalla um leyfilegan frádrátt á móti mótteknum greiðslum sem launþegi hefur fengið frá launagreiðanda sem endurgreiðslu á útlögðum sönnuðum kostnaði vegna erindisrekstrar launþegans í þágu launagreiðanda í vinnutíma launþegans og utan venjulegrar starfsstöðvar.

Til þess að launþega leyfist frádráttur á móti mótteknum greiðslum frá launagreiðanda verða að vera fyrir hendi öruggar heimildir samkvæmt gildandi lögum en þau ákvæði sem áður voru í gildi varðandi kostnað launþega við ferðir milli heimilis og vinnustaðar voru felld úr gildi með gildistöku laga nr. 49/1987.

Það er álit ríkisskattstjóra að allar starfstengdar greiðslur launagreiðanda til launþega sem ekki uppfylla það skilyrði 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 að vera endurgreiðsla á sönnuðum útlögðum kostnaði við störf í þágu launagreiðanda, teljist til launagreiðslna án nokkurs frádráttar og skiptir hvorki máli í því sambandi nafngiftir greiðslna né samkomulag viðkomandi aðila um eðli greiðslnanna, þ.m.t. sögulegur bakgrunnur samkomulagsins.

Hvað við kemur málum þeirra tveggja manna sem um getur í bréfi yðar hefur annar þeirra, [H], fengið greidd svonefnd "endurgreidd fargjöld" frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli en hinn, [A], hefur fengið greiðslu frá [X] á [...] til þess að "flytja sig til og frá vinnu" svo að notuð séu orð [A] sjálfs í kærubréfi til skattstjóra Vesturlandsumdæmis.

Eins og áður hefur komið fram er það álit ríkisskattstjóra að umræddar greiðslur falli undir ákvæði 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 sem starfstengdar greiðslur. Ástæður þessara greiðslna eru ekki þær að viðkomandi menn fái þessar greiðslur vegna erindisrekstrar þeirra fyrir launagreiðanda frá starfsstöð og í umsömdum vinnutíma heldur er um að ræða samkomulag launþega og launagreiðanda um sérstakar launagreiðslur vegna aðstæðna sem að þeirra mati gefa tilefni til slíkra greiðslna og er skattyfirvöldum algjörlega óviðkomandi. Hvort slíkar greiðslur nægja til þess að uppfylla þær þarfir sem aðilar semja um þegar opinber gjöld hafa verið reiknuð af slíkum greiðslum verður að telja til þeirra einkamála.

Að síðustu óskið þér eftir því að ríkisskattstjóri skýri hvort og þá með hvaða hætti gildandi lög og matsreglur ríkisskattstjóra skv. 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, grípi á því jafnræði sem kvartanir lúta að. Hér er komið að atriði sem hvorki er einfalt úrlausnar né heldur alltaf augljóst að um skattalega mismunun sé að ræða. Er t.d. [A] mismunað skattalega gagnvart þeim vinnufélögum hans sem ekið er frítt frá [...] til [...] þar sem hann fær sérstaka greiðslu umfram aðra að eigin sögn til þess að standa undir kostnaði til þess að "flytja sig til og frá vinnu"? Þó reiknuð séu opinber gjöld af þeirri greiðslu sem [A] fær í hendur vegna sérstaks samkomulags við [X] heldur hann eftir um 60% af þeirri greiðslu. Ósagt skal látið hvort þessi u.þ.b. 60% eru peningalega hliðstæð þeim kostnaði sem [X] verður fyrir vegna flutnings hvers starfsmanns sem fluttur er frítt eða peningalega hliðstætt því mögulega hlunnindamati sem starfsfélagar [A] yrðu skattlagðir af ef slíku hlunnindamati væri beitt.

Hér hefur aðeins verið borin saman skattaleg meðferð [A] við starfsfélaga hans, sem ekið er frítt frá [...] til [...], og virðist nokkuð jafnræði í skattalegri meðferð þeirra félaga, þó svo að félagar [A] séu ekki skattlagðir af þeim "hlunnindum" að vera ekið frítt til og frá vinnustað sem staðsettur er á svæði utan leiða áætlunarbifreiða, en þetta er sá grundvöllur sem [A] byggir umkvörtun sína á. Hins vegar svarar þessi samanburður ekki því hvers vegna umræddir starfsfélagar [A] hafa ekki verið skattlagðir af umræddum "hlunnindum", sbr. síðar um það atriði, né heldur er skattaleg meðferð þeirra félaga borin saman ef starfsfélagar [A] væru skattlagðir af nefndum "hlunnindum" og hann einnig af þeim greiðslum sem hann fær til þess að "flytja sig til og frá vinnu". Til upplýsingar skal tekið fram að vegalengd frá [...] til [...] er u.þ.b. 15 km, en vegalengd frá heimili [A] er 3-5 km samkvæmt upplýsingum skattstjóra Vesturlandsumdæmis.

Hvað varðar mál [H] fær hann greidda ferðapeninga sem áður hafa verið nefndir "endurgreidd fargjöld". Hér er um að ræða alveg hliðstæða greiðslu við greiðslu þá er [A] fær, þ.e. til þess að standa undir kostnaði við að flytja sig til og frá vinnustað og fellur því undir ákvæði [1]. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 sem starfstengd laun.

Í bréfi yðar er vitnað til bréfs [H] þar sem eftir honum er haft að "hjá öðrum vinnuveitendum á Keflavíkurflugvelli en hjá varnarliðinu tíðkist að starfsmönnum sé ekið endurgjaldslaust milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar".

Þetta er mjög ofmælt.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um aðila, aðra en varnarliðið, sem starfsemi hafa á Keflavíkurflugvelli, s.s. Flugleiðir hf., Aðalverktaka sf., Flugmálastjórn, Veðurstofu Íslands og Lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, er sárafáum starfsmönnum, sem starfsstöð hafa á Keflavíkurflugvelli, gefinn kostur á ferð milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar án greiðslu. Fleiri aðilar en hér eru nefndir hafa starfsemi á Keflavíkurflugvelli en ekki ástæða til að telja þá alla upp. Flugleiðir hf. aka engum starfsmanni sem telst hafa starfsstöð á Keflavíkurflugvelli. Flugáhöfnum er ekið frá starfsstöð í Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Flugáhafnir teljast ekki til starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Ýmsir yfirmenn og trúnaðarmenn sem starfsstöð hafa í Reykjavík, s.s. yfirflugeftirlitsmaður og yfirflugvirki þurfa oft út frá starfsstöð sinni í Reykjavík og fara á milli í bifreiðum Flugleiða hf. Aðalverktakar sf. aka starfsmönnum frítt í lok og við upphaf vinnuviku til og frá Reykjavíkursvæðinu.

Enginn starfsmaður Lögreglustjóraembættisins nýtur frírra ferða til eða frá Keflavíkurflugvelli.

Hver vakt flugumferðarstjóra á vegum Flugmálastjórnar sem vinnur vaktavinnu hefur sameiginlega bifreið í eigu Flugmálastjórnar til flutnings starfsmanna milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar en verða sjálfir að annast akstur. Um er að ræða 28 menn á þrem vöktum. Um aðra starfsmenn Flugmálastjórnar gilda aðrar reglur. Starfsmenn Veðurstofu Íslands, svonefndir háloftaathugunarmenn, vinna á vöktum og hafa eina bifreið til afnota til flutnings á háloftaathugunarmönnum milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Fráfarandi vakt skilar bifreiðinni til næstu vaktar. Bifreiðinni aka starfsmennirnir sjálfir. Bifreiðina á Alþjóðaflugmálastofnunin.

Samkvæmt framanrituðu er um tiltölulega fáa menn að ræða sem eru fluttir til og frá vinnustað þeim að kostnaðarlausu milli Reykjavíkursvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Hvort um fleiri aðila kynni að vera að ræða verður að sjálfsögðu ekkert fullyrt.

Við þær aðstæður sem eru fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli og annars staðar þar sem um er að ræða marga launagreiðendur skapast aðstæður til samanburðar á því hvort einhverjir njóti umfram aðra skattskyldra hlunninda sem meta eigi til peningaverðs. Telja verður að [H] hafi bent á slíka mismunun.

Ekki er á það fallist að skattaleg meðferð þeirra greiðslna sem um er að ræða og sem [H] móttók sé röng heldur að þeir sem notið hafa frírra ferða milli heimilis og vinnustaðar við ríkjandi aðstæður séu hugsanlega ekki skattlagðir rétt og úr því þurfi að bæta með mati á slíkum hlunnindum þar sem það á við. Slíkt mat gæti þurft nokkurn undirbúning og verið nokkuð erfitt í framkvæmd.

Þess skal þó að lokum getið að á einu sviði, skyldu framangreindu vandamáli, er fyrir hendi mat á hlunnindum sem eru hliðstæð umræddum mögulegum hlunnindum, en það er hlunnindamat gagnvart þeim launþegum sem hafa heimild til endurgjaldslausrar notkunar bifreiðar í eigu launagreiðanda til aksturs utan vinnutíma milli heimilis og vinnustaðar og tilfallandi og einstök afnot."

Með bréfi, dags. 15. apríl 1992, gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir í tilefni af framangreindum skýringum ríkisskattstjóra. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 28. apríl 1992.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu gerði ég grein fyrir þróun lagaákvæða um frádrátt ferðakostnaðar:

"Með 7. gr. laga nr. 41/1954 varð sú breyting gerð á 10. gr. laga nr. 6/1935 um tekjuskatt og eignarskatt, að aukið var við stafliðnum i, þannig að heimilt varð að draga frá tekjum:

"i. Ferðakostnað þeirra skattgreiðenda, er fara langferðir vegna atvinnu sinnar, eftir mati skattyfirvalda. Nánari ákvæði skulu sett í reglugerð um þennan frádrátt."

Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að fyrrnefndum lögum, kemur fram, að meðal nýmæla þess sé að heimila "...frádrátt vegna kostnaðar við lengri ferðir til atvinnusóknar". (Alþt. 1953, A-deild, bls. 1030.) Í skýringum við umræddan staflið segir:

"Margir kosta nú orðið miklu til ferðalaga vegna atvinnu sinnar. Verður að telja sanngjarnt að taka tillit til þess, þegar um langferðir er að ræða. Hins vegar er ekki hægt að setja í lögin ákvæði, er nái yfir svo margháttuð atvik, er hér geta komið til greina. Verður þess vegna að gera ráð fyrir mati skattanefndar og fyrirmælum í reglugerð." (Alþt. 1953, A-deild, bls. 1034.)

Lög nr. 6/1935 voru síðar endurútgefin sem lög nr. 46/1954. Með stoð í þeim lögum var sett reglugerð nr. 147/1955 um tekjuskatt og eignarskatt. Í B-lið 32. gr. reglugerðarinnar er að finna svohljóðandi fyrirmæli:

"Þeir, sem langferðir fara vegna atvinnu sinnar mega draga ferðakostnaðinn frá tekjum sínum, enda sé ferðakostnaðurinn ekki endurgreiddur af atvinnuveitanda.

Það telst því aðeins langferð, að ferðakostnaður milli heimilis og atvinnustaðar nemi að minnsta kosti kr. 250 fram og til baka, enda sé miðað við venjuleg og óhjákvæmileg útgjöld...."

Með lögum nr. 70/1962 um tekjuskatt og eignarskatt voru síðastnefnd lög felld úr gildi. Í C-lið 12. gr. laga nr. 70/1962 er að finna samhljóða ákvæði og í i-lið 10. gr. laga nr. 46/1954. Með stoð í lögum nr. 70/1962 var sett reglugerð nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt, en sú reglugerð felldi úr gildi fyrrnefnda reglugerð. Í B- og C-liðum 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963 voru svohljóðandi fyrirmæli:

"B. Þeir, sem fá greidda bifreiðastyrki, risnu, skrifstofufé og þess háttar, sbr. 3. tl. A liðar 13. gr., en hafa hins vegar sannanlegan kostnað vegna þessa, mega draga kostnaðinn frá þessum tekjum sínum.

C. Þeir, sem langferðir fara vegna atvinnu sinnar, mega draga ferðakostnaðinn frá tekjum sínum, enda sé ferðakostnaðurinn ekki endurgreiddur af atvinnuveitanda.

Það telst því aðeins langferð, að ferðakostnaður milli heimilis og atvinnustaðar nemi að minnsta kosti kr. 250.00 fram og til baka, enda sé miðað við venjuleg og óhjákvæmileg útgjöld...."

Ofangreindu reglugerðarákvæði virðist síðast hafa verið breytt með reglugerð nr. 445/1977, en fram til þess hafði tilvitnuðum fyrirmælum 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963 ekki verið breytt. Lög nr. 70/1962 voru síðan endurútgefin sem lög nr. 55/1964. Þau lög voru endurútgefin sem lög nr. 90/1965, sem síðan voru endurútgefin sem lög nr. 68/1971.

Með 4. gr. laga nr. 11/1975 var síðasta málslið A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 breytt þannig, að til tekna skyldi ennfremur teljast:

"... fæði, húsnæði, endurgreiðsla flutningskostnaðar milli heimilis og vinnustaðar, afnot bifreiðar, svo og hvers konar aðrar greiðslur eða hlunnindi sem látin eru í té sem kaupgjald eða jafna má til kaupgreiðslu."

Í skýringum við 4. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 11/1975, kemur eftirfarandi fram:

"Hér eru sett inn fyllri ákvæði í greindan málsl. gildandi laga er taka af allan vafa um það að hvers konar greiðslur, sem látnar eru í té sem kaupgjald eða hlunnindi sem jafna má til kaupgreiðslu, séu skattskyldar tekjur nema þær séu þá sérstaklega undanþegnar, sbr. 10. gr. laganna. Hvort og að hve miklu leyti þessar tekjur reiknist sem skattgjaldstekjur fer að öðrum ákvæðum skattalaga um heimildir til frádráttar frá skattskyldum tekjum." (Alþt. 1974, A-deild, bls. 1225.)

Lög nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt felldu úr gildi fyrrnefnd lög nr. 68/1971 með síðari breytingum. Með lögunum voru gerðar allnokkrar breytingar á löggjöf um tekjuskatt og eignarskatt. Rétt þykir, að gera hér grein fyrir 1. tl. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laganna, en þar segir að til tekna teljist:

"Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljast til dæmis hvers konar... ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi... Hvorki skiptir máli hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum."

Í skýringum við 7. gr. þess frumvarps, sem varð að lögum nr. 40/1978, er tekið fram, að ákvæði 1. tl. A-liðar ákvæðisins geymi meðal annars fyllri upptalningu en A-liður gildandi laga á því, hvaða launagreiðslur og starfstengd fríðindi og hlunnindi teljist til tekna. (Alþt. 1977, A-deild, bls. 2568.)

Í 2. og 3. tl. A- liðar 30. gr. laga nr. 40/1978 var tekið fram, að frá tekjum manna, sem ekki væru tengdar atvinnurekstri mætti draga:

"2. Fargjöld vegna ferða á vegum atvinnurekanda og vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.

"3. Útgjöld vegna móttekins risnufjár og ökutækjastyrkja í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra."

Í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 40/1978, fylgdu framangreindum fyrirmælum svohljóðandi skýringar:

"2. tl. A-liðs er í samræmi við C-lið 12. gr. gildandi laga.

Í 3. tl. A-liðs eru útgjöld vegna móttekins risnufjár og ökutækjastyrkja heimiluð til frádráttar eins og verið hefur í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra." (Alþt. 1977, A-deild, bls. 2573.)

Lög nr. 40/1978 voru síðar endurútgefin sem lög nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Verður hér vísað til laga nr. 75/1981 sem núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.

Með lögum nr. 49/1987 voru allmiklar breytingar gerðar á lögum nr. 75/1981, þ. á m. á fyrirmælum A-liðar 30. gr. laganna, sem fjallar um frádrátt frá tekjum þeirra, er standa utan atvinnurekstrar. Eftir breytinguna hljóðaði 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 þannig:

"1. Útgjöld vegna móttekinna ökutækjastyrkja og dagpeninga sem sannað er að séu kostnaður vegna ferða á vegum atvinnurekenda og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra."

Í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 49/1987, segir, að frumvarpið sé flutt í tengslum við frumvarp um staðgreiðslu skatta og að með því sé gerð "...allróttæk breyting á reglum um álagningu beinna skatta á einstaklinga". Er meðal annars tekið fram, að í frumvarpinu sé lagt til, að einn skattstofn verði myndaður af heildargreiðslum vinnuveitanda til launþega, "... þ.e. inn í stofninn gangi allar launagreiðslur auk ýmissa sérstakra liða, svo sem bifreiðastyrkja, dagpeninga og annarra starfstengdra greiðslna, fríðinda og hlunninda". (Alþt. 1986, A-deild, bls. 2974-5.) Síðan segir í almennum athugasemdum við frumvarpið:

"Þessi nýi stofn mun samsvara núgildandi útsvarsstofni að viðbættum núverandi frádráttarliðum sem eru skyldusparnaður, kostnaður á móti ökutækjastyrk og dagpeningum, hlunnindum,...

Vegna breytts álagningarkerfis, einkum mikillar hækkunar á persónuafslætti, mun síðasttalda atriðið þó ekki valda álagningu gjalda nema til komi aðrar tekjur í verulegum mæli. Eins er gert ráð fyrir sérstökum ákvæðum til að koma í veg fyrir að menn greiði skatt af raunverulegum kostnaði sem þeir hafa, t.d. vegna notkunar bifreiða í þágu vinnuveitanda eða á ferðalögum vegna starfs síns." (Alþt. 1986, A-deild, bls. 2975.)

Í skýringum við 3. og 4. gr. þess frumvarps, sem varð að lögum nr. 49/1987, er eftirfarandi tekið fram:

"Eins og rakið er í almennum athugasemdum hér að framan er afnám hinna fjölmörgu frádráttarheimilda frá tekjum, sem í gildi hafa verið lengri eða skemmri tíma, forsenda þess að tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta sem bæði uppfyllir þær kröfur að vera einfalt og öruggt í framkvæmd. Af þessum sökum verður ekki komist hjá því að afnema nær allar gildandi frádráttarheimildir frá tekjum, sem um ræðir í A-, C-, D- og E-lið 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Á móti kemur, að persónuafsláttur er rúmlega tvöfaldaður,...

Um þá frádráttarliði, sem gert er ráð fyrir að haldi gildi sínu og kveðið er á um í þessari grein, skal eftirfarandi tekið fram.

Um 1. tölulið. Gert er ráð fyrir að sönnuð útgjöld vegna móttekinna ökutækjastyrkja og dagpeninga verði frádráttarbær frá tekjum við álagningu tekjuskatts. Hins vegar verður meginreglan sú að óheimilt verður að draga þessar greiðslur frá heildarlaunum við ákvörðun staðgreiðslu, sbr. frumvarp til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Jafnframt þessu er gert ráð fyrir hertum reglum varðandi mat á því, hvort hér sé um raunveruleg útgjöld að ræða eða ekki." (Alþt. 1986, A-deild, bls. 2983.)

Með 2. gr. laga nr. 92/1987, "um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar með talin breyting samkvæmt lögum nr. 49/1987 sem taka eiga gildi 1. janúar 1988", var 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 enn breytt og hljóðar nú þannig:

"Útgjöld að hámarki móttekin fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að sé ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra."

Upphaflega var framangreint ákvæði ekki í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 92/1987, heldur kom til síðar í meðferð fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis. Í ræðu framsögumanns meiri hluta nefndarinnar, sem gerði meðal annars grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar við 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sagði svo:

"1. brtt. fjallar um hver útgjöld séu undanþegin staðgreiðslu og þar þótti eðlilegt að útvíkka þá grein nokkuð, enda er útlagður kostnaður ekki eðlilegur skattstofn." (Alþt. 1986, B-deild, dálk. 3110.)

Breytingar skv. lögum á frádráttarliðum 30. gr. laga nr. 75/1981 má að meginstefnu rekja til setningar laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu skatta. Í því sambandi segir svo í almennum athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 92/1987:

"Með lögum nr. 49/1987, um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, voru gerðar veigamiklar breytingar á skattlagningu einstaklinga. Tildrög og meginástæða þeirra breytinga voru ákvarðanir sem teknar voru með lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu skatta.

Helstu breytingar tekjuskattslaganna, sem gerðar voru í framangreindum lögum, voru annars vegar þær að skattstofn tekjuskatts og útsvars var sameinaður í einn stofn og niður felldar nær allar sérstakar frádráttarheimildir og hins vegar var álagning tekjuskatts og útsvars ákveðin með einu skatthlutfalli og almennum persónuafslætti og sjómannaafslætti." (Alþt. 1987, A-deild, bls. 1046.)

Í lið 7.4 í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1990 segir, að frá ökutækjastyrkjum, sem launþegi hefur fært til tekna, skuli "... leyfa sem frádrátt sannanlegan kostnað vegna öflunar þessara tekna". Meðal skilyrða er, að hlutaðeigandi leggi fram greinargerð fyrir heildarnotkun ökutækisins á árinu, þannig að sundurliðaður verði akstur til og frá vinnu, akstur í eigin þágu og akstur í þágu vinnuveitanda. Þá segir í leiðbeiningunum:

"Til frádráttar skal leyfa þann hluta af heildarrekstrarkostnaði bifreiðarinnar sem svarar til afnota hennar í þágu vinnuveitanda,..."

Ofangreindar leiðbeiningar eru byggðar á auglýsingu nr. 4/1990 um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1989 (framtalsárið 1990), en þar eru í grein 3.1.0 nánari fyrirmæli um frádrátt kostnaðar vegna öflunar ökutækjastyrks.

V. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 8. febrúar 1993, var svohljóðandi:

"Ekki er um það deilt, að þær greiðslur, sem A hefur fengið frá vinnuveitanda sínum vegna aksturs eigin bifreiðar milli heimilis og vinnustaðar, teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Kvörtun A lýtur að því, hvort það fái samrýmst fyrirmælum 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, að einungis skuli leyfa til frádráttar "...þann hluta heildarrekstrarkostnaðar bifreiðar sem svarar til afnota hennar í þágu vinnuveitanda,..." en ekki kostnað af akstri milli heimilis og vinnustaðar. Bendir A sérstaklega á, að synjun um frádrátt leiði til ójafnræðis miðað við þá menn, sem fái ókeypis flutning.

Í IV. kafla hér að framan hafa annars vegar verið raktar lagareglur um heimild skattgreiðenda til þess að draga frá tekjum sínum kostnað af ferðum á milli heimilis og vinnustaðar og hins vegar reglur um heimild skattgreiðenda til þess að draga útgjöld frá greiðslum, sem þeir fá vegna nota eigin bifreiðar í þágu vinnuveitanda. Með ákvæðum B- og C-liða 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963 virðist í fyrsta sinn greint milli þessara tvenns konar frádráttarheimilda. Hélst sá greinarmunur allt fram að setningu laga nr. 49/1987. Þá var fellt niður ákvæði 2. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um heimild til að draga frá tekjum fargjöld vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Verður ekki séð, að með þeim breytingum, sem að öðru leyti voru gerðar á A-lið 30. gr. laga nr. 75/1981 með lögum nr. 49/1987 og síðar lögum nr. 92/1987, hafi verið ætlunin að heimila almennt frádrátt vegna kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar. Eins og áður hefur verið lýst, stefndu bæði lög nr. 49/1987 og lög nr. 92/1987 að því að fækka frádráttarheimildum og þrengja þær. Samkvæmt orðalagi 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 er viðmiðunin eftir nefndar breytingar, hvort um sé að ræða útgjöld á móti kostnaði, sem sannað er að sé ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda. Þessi útgjöld eru þó aðeins frádráttarbær að þau séu í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Þarna er ríkisskattstjóra fengið það vald að móta nánar reglur um þetta efni, en miðað við tilvitnuð lögskýringargögn á í þeim matsreglum að afmarka, hvað séu sönnuð útgjöld í þessu sambandi. Af orðalagi 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 verður ekki dregin sú ályktun, að það útiloki að tekið sé tillit til kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar, ef sá akstur er beinlínis í þágu vinnuveitanda, svo sem ef áskilið er að starfsmaður hafi eigin bifreið tiltæka á vinnustað til að reka erindi vinnuveitanda þaðan.

Af úrskurði ríkisskattanefndar frá 23. maí 1991 og gögnum málsins verður ekki séð að A hafi þar sérstaklega byggt á því eða fært fram gögn til stuðnings því, að kostnaður sá, sem hann gerði kröfu um að kæmi til frádráttar vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar, væri að einhverju eða öllu leyti til að koma bifreið hans á vinnustað hans, þannig að hann gæti að ósk vinnuveitanda sinnt akstri á eigin bifreið vegna erinda út frá vinnustað. Í kærunni var fjallað almennt um kostnað af akstri milli heimilis og vinnustaðar. Í samræmi við það, sem að framan greinir, er það niðurstaða mín, að úrskurður ríkisskattanefndar frá 23. maí 1991, og matsreglur ríkisskattstjóra að því marki, sem á þær reyndi, hafi ekki verið andstæðar 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum.

Hins vegar verður því ekki neitað, að sú niðurstaða, sem þar var um að ræða, kann að leiða til nokkurs ójafnræðis miðað við skattlagningu þeirra skattgreiðenda, sem fá ókeypis flutning milli heimilis og vinnustaðar. Tel ég ástæðu til að beina þeim tilmælum til yfirvalda skattamála, að taka það atriði til nánari athugunar og þá eftir atvikum, hvort ástæða sé til að jafna stöðu skattgreiðenda í þessu tilliti. Í því sambandi tel ég rétt að hugað sé að því, hvort réttmætt sé að heimila að einhverju leyti frádrátt kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar, þegar svo stendur á, að launþegi kemur á bíl sínum á vinnustað til að geta sinnt þaðan erindum í þágu vinnuveitanda."

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1993, óskaði ég eftir upplýsingum hjá ríkisskattstjóra um það, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af framangreindu áliti mínu. Svar ríkisskattstjóra barst mér með bréfi, dags. 20. desember 1993, og hljóðar það svo:

"Svo sem ég lýsti í bréfi mínu til yðar, dags. 22. nóvember sl., vegna máls nr. 416/1991, hefur verið ákveðið að setja nýjar reglur í skattmat þar sem metið verður til tekna launþega það hagræði sem hann hefur af því að vinnuveitandi hans lætur honum í té ókeypis flutning til og frá vinnu. Þessar nýju reglur munu gilda frá 1. janúar 1994. Samkvæmt gildandi skattmati í staðgreiðslu telst það launamanni til skattskyldra tekna fái hann að nota fólksbifreið launagreiðanda síns til aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Þá telst það í öllum tilvikum til skattskyldra tekna launamanns fái hann beinar greiðslur frá vinnuveitanda sínum til að koma sér úr og í vinnu án tillits til þess hvað þessar greiðslur eru kallaðar. Enginn frádráttur er heimill á móti slíkum greiðslum samkvæmt gildandi framkvæmd.

Ég tel að þessi framkvæmd, sem byggir á gildandi lögum, verði eftir 1. janúar nk. í samræmi við jafnræðisreglu þá sem ríkja á milli gjaldenda sem eins eða svipað er ástatt um. Þessi framkvæmd er byggð á þeirri meginreglu að skattalög veita ekki frádrátt vegna kostnaðar gjaldanda við að koma sér í og úr vinnu og telja það honum til skattskyldra tekna fái hann greiðslur frá vinnuveitanda sínum til þess að standa undir slíkum flutningi eða sé honum á einn eða annan hátt látinn í té ókeypis flutningur.

Þá vil ég ennfremur minna á að þau mál sem vísað hefur verið til yðar og fjalla um akstur eða flutning milli heimilis og vinnustaðar hafa ekki fjallað um frádrátt kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar, þegar svo stendur á að launþegi kemur á bíl sínum á vinnustað til að geta sinnt þaðan erindum í þágu vinnuveitanda, sbr. bréf yðar frá 8. febrúar sl. Ég held þó að almennt séð verði ekki unnt að rökstyðja einhverja sérreglu sem gilda ætti í þessum tilvikum þegar það er haft í huga hversu algengt það er að fólk fer á eigin bíl úr og í vinnu. Slík sérregla myndi að mínu mati ganga gegn þeim jafnræðissjónarmiðum sem æskilegt er að taka mið af við setningu stjórnvaldsreglna."

Í framhaldi af framangreindum bréfaskiptum mínum, hélt ég fund með ríkisskattstjóra 10. febrúar 1994 og ritaði honum í framhaldi af fundinum bréf, dags. 24. febrúar 1994. Bréfið hljóðar svo:

"Ég vísa til bréfs yðar frá 20. desember 1993 varðandi álit mitt frá 8. febrúar 1993 í máli nr. 472 [...] og fundar okkar 10. febrúar s.l. Miðað við gildandi lög tel ég ekki ástæðu til sérstakra athugasemda í þessu sambandi. Að því er tekur til hugsanlegs frádráttar kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar, þegar launþegi kemur á bíl sínum á vinnustað til að geta sinnt þaðan erindum í þágu vinnuveitanda, þá skilst mér að ekki liggi fyrir skýrar úrlausnir um það atriði."