Hinn 10. apríl 1990 kvartaði A við mig út af afgreiðslu Húsnæðisstofnunar ríkisins á beiðni hans um lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Í bréfi mínu til A, dags. 2. maí 1990, vísaði ég til þess, að í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 86/1988 um Húsnæðisstofnun ríkisins væri tekið fram, að stofnunin væri sjálfstæð ríkisstofnun, er lyti sérstakri stjórn, húsnæðismálastjórn, og heyrði undir félagsmálaráðuneytið. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 86/1988 væri eitt af hlutverkum húsnæðismálastjórnar að skera úr vafa- eða ágreiningsmálum varðandi einstakar lánveitingar.
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri það skilyrði, að leitað skyldi til æðra stjórnvalds, áður en leitað væri til umboðsmanns. Með því að ekki yrði séð, að A hefði leitað eftir úrskurði stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins um það málefni, er kvörtunin varðaði, brysti skilyrði fyrir því að umboðsmaður hefði að svo stöddu afskipti af kvörtuninni.