Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til tollstjóra og ríkistollanefndar.

(Mál nr. 325/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 1. október 1990.

A kvartaði út af gjöldum, sem honum var gert að greiða við tollafgreiðslu á erlendum ritum, er hann fékk send. Í bréfi mínu til A, dags. 1. október 1990, vísaði ég til þess, að samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt giltu ákvæði tollalaga nr. 55/1987 m.a. um skattskyldu og úrskurði um skattskyldu, væri ekki annað tekið fram í lögum nr. 50/1988 eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Benti ég á, að risi ágreiningur um skattskyldu við innflutning vöru, mætti skjóta honum til tollstjóra og úrskurði hans síðan til ríkistollanefndar, sbr. 100. og 101. gr. tollalaga. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis væri ekki unnt að bera fram kvörtun, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það ekki fellt úrskurð sinn. Brysti því skilyrði til þess, að ég gæti að svo stöddu fjallað um málið.