Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til tölvunefndar.

(Mál nr. 341/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 1. nóvember 1990.

A taldi, að óheimilt hefði verið, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, að skrá þær upplýsingar um skuldastöðu, er fram kæmu í bréfl fyrirtækis nokkurs, er hefði með höndum söfnun slíkra upplýsinga. Í svarbréfi mínu til A, dags. 1. nóvember 1990, benti ég honum á, að samkvæmt 14. gr. laga nr. 121/1989, sbr. 20. gr. sömu laga, gæti hann, ef hann teldi upplýsingarnar rangar, óskað eftir leiðréttingu skrárhaldara. Ef hann neitaði leiðréttingu eða svaraði ekki slíkri kröfu innan tilskilins tíma, væri unnt að fara fram á, að tölvunefnd kvæði á um, hvort og að hvaða marki bæri að taka til greina kröfu um leiðréttingu upplýsinga eða afmáningu þeirra. Sama gilti teldi aðili, að á skrá væru upplýsingar, sem óheimilt væri að skrásetja. Benti ég A á þessa leið, enda væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það ekki fellt úrskurð sinn, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.