Skattar og gjöld. Fargjöld og frádráttur vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Jafnræði skattgreiðenda. Matsreglur ríkisskattstjóra.

(Mál nr. 416/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 8. febrúar 1993.

H kvartaði yfir úrskurði ríkisskattanefndar í máli hans vegna gjaldársins 1989, þar sem greiðslur vinnuveitanda til hans vegna ferða til og frá vinnu, svonefnt rútugjald, hefðu verið skattlagðar sem tekjur samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að frádráttur á móti þessum greiðslum hefði ekki verið talinn heimill samkvæmt 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. sömu laga. A bjó í Reykjavík en starfaði á Keflavíkurflugvelli. A benti m.a. á að sumir starfsmenn fengju endurgjaldslausan flutning til og frá vinnu án þess að slíkt væri skattlagt sem hlunnindi og væri jafnræðis því ekki gætt.

Kvörtun H laut að synjun frádráttar þeirrar fjárhæðar, er nam endurgreiðslu fargjaldanna. Það var niðurstaða umboðsmanns, að úrskurður ríkisskattanefndar og matsreglur ríkisskattstjóra, sem úrskurðurinn byggðist á, hefðu ekki verið í andstöðu við 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar yrði því ekki neitað, að sú niðurstaða, sem þar væri um að ræða, kynni að leiða til nokkurs ójafnræðis miðað við skattlagningu þeirra skattgreiðenda, sem fengju ókeypis flutning milli heimilis og vinnustaðar. Taldi umboðsmaður ástæðu til að beina þeim tilmælum til yfirvalda skattamála að taka það atriði til nánari athugunar og þá eftir atvikum, hvort ástæða væri til að jafna stöðu skattgreiðenda í þessu tilliti.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 26. mars 1991 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því, að með úrskurði ríkisskattanefndar frá 26. febrúar 1991 hefðu greiðslur, er hann hafði fengið vegna starfa sinna á Keflavíkurflugvelli, svonefnt rútugjald, verið skattlagðar sem tekjur samkvæmt 1. tl. A- liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt og að ekki hafi verið heimilt að beita frádráttarlið 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 í því sambandi.

Nefndur úrskurður ríkisskattanefndar er svohljóðandi:

"Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda 1989 að fella niður frádráttarlið 102.760 kr., sem var endurgreitt rútugjald frá vinnuveitanda, Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Sömu fjárhæð hafði kærandi fært til tekna.

Breyting þessi var kærð til skattstjóra með bréfi, dags. 25. ágúst 1989. Skattstjóri synjaði kærunni með úrskurði uppkveðnum 14. nóvember 1989, og segir þar m.a.:

"Fargjöld sem launþegi fær greidd til að standa straum af kostnaði vegna ferða milli vinnustaðar og heimilis eru skattskyldar tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 og heimilast enginn frádráttur á móti slíkum tekjum.

Bent skal á að frádráttur á móti ferða- og dvalarstyrk eru einungis heimill þegar styrkurinn er nýttur í þágu atvinnurekanda. Skv. 1. tl. A-liðs 30. gr. sbr. 29. gr. áðurnefndra laga. Með tilkomu laga nr. 49/1987 féll niður frádráttur vegna umrædds kostnaðar.

Með vísan til ofanritaðs er eigi fallist á kröfu kæranda. Kæru er synjað."

Kærandi skaut máli þessu til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 10. desember 1989, og segir m.a.:

"Í hjálögðu bréfi frá Skattstofu Reykjavíkur er kæru hafnað og vísað til 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. [75]/1981. Þar eiga þeir við flutningspeninga sem þeir kalla tekjur. Það væri rétt ef greitt væri fyrir flutning frá heimili viðkomandi á venjulegan vinnustað t.d. innan stór Reykjavíkursvæðisins, þar sem lögin gera ráð fyrir að allir beri slíkan kostnað sjálfir. Þessi endurgreiðsla er ekki fyrir þann kostnað. Eins og fram kemur í hjálögðum skilmálum vinnuveitanda, er þetta endurgreiðsla á ferðakostnaði milli fjarlægra byggðarlaga.

Í 1. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 er frádráttarheimild fyrir hliðstæðum endurgreiðslum. Varnarliðið hefur hag af því að borga þennan kostnað og gerir það sín vegna með þessum hætti. Samkvæmt almennum ákvæðum 2. kafla 7. gr. laga nr. 75/1981 er kostnaður ekki skattskyldar tekjur, enda verið að mismuna þegnunum ef svo væri. Í áraraðir hefur þessi kostnaður verið frádráttarbær og hjá skattyfirvöldum eru sannanir um að hann er mun meiri en sem nemur endurgreiðslunni."

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 8. maí 1990, gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Úrskurður skattstjóra er staðfestur."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 4. nóvember 1991, upplýsti ég, að mér hefði auk kvörtunar H borist kvörtun frá A og að kvartanirnar lytu að framkvæmd á matsreglum þeim, er ríkisskattstjóri hefði sett á grundvelli 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Tók ég fram, að í báðum tilvikum væri um að ræða launþega, sem fengið hefðu sérstakar greiðslur frá vinnuveitendum sínum vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar, en vinnustaðir þeirra væru í nokkurri fjarlægð frá heimilum þeirra. Þyrftu þeir því að ferðast á milli með eigin bifreið eða almennum áætlunarferðum og greiða kostnað af þeim ferðum. Í bréfinu rakti ég málavexti og lagaatriði í máli A, sjá álit hér að framan í máli nr. 472/1991, lið III.

Í lok bréfs míns til ríkisskattstjóra óskaði ég skýringa á því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hvaða marki ríkisskattstjóri teldi, að ákvæði núgildandi laga nr. 75/1981 girtu fyrir, að þeir launþegar, sem fengið hefðu greiðslur frá vinnuveitendum sínum vegna kostnaðar við ferðir að og frá vinnustað, gætu fært þær á móti til frádráttar kostnaði, sem sanna mætti að væri vegna slíkra ferða og hvort það væri mat ríkisskattstjóra, að kostnaður launþega vegna ferða að og frá vinnu gæti ekki fallið undir ferðakostnað "vegna atvinnurekanda", sbr. 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 með síðari breytingum. Þá óskaði ég ennfremur eftir því, að ríkisskattstjóri skýrði, hvort og þá með hvaða hætti gildandi lög og matsreglur ríkisskattstjóra samkvæmt 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, gripu á því jafnræði, sem kvartanirnar lytu að.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. apríl 1992, bárust mér umbeðnar skýringar. Bréfið er í heild tekið upp í áliti í máli nr. 472/1991 í skýrslunni.

Með bréfi, dags. 15. apríl 1992, gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindum skýringum ríkisskattstjóra. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 30. maí 1992.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í IV. þætti álitsins rakti ég þróun ákvæða laga og reglugerða um frádrátt vegna langferða milli heimilis og vinnustaða og frádrátt útgjalda vegna notkunar eigin bifreiðar í þágu vinnuveitanda frá greiðslum fyrir afnotin. (Sjá IV. þátt í áliti mínu í máli nr. 472/1991) Niðurstaða álits míns í máli H, dags. 8. febrúar 1993, var svohljóðandi:

"Ekki er um það deilt, að þær greiðslur, sem H hefur fengið frá vinnuveitanda sínum vegna fargjalda milli heimilis og vinnustaðar, teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Kvörtun H lýtur að því, hvort það fái samrýmst fyrirmælum 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981, að synja um frádrátt þeirrar fjárhæðar, er nam endurgreiðslu fargjalda milli heimilis og vinnustaðar. Bendir H sérstaklega á, að synjun þessi leiði til ójafnræðis miðað við þá menn, sem fái ókeypis flutning.

Í IV. kafla voru annars vegar raktar lagareglur um heimild skattgreiðenda til þess að draga frá tekjum sínum kostnað af ferðum á milli heimilis og vinnustaðar og hins vegar reglur um heimild skattgreiðenda til þess að draga útgjöld frá greiðslum, sem þeir fá vegna nota eigin bifreiðar í þágu vinnuveitanda. Með ákvæðum B- og C-liða 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963 virðist í fyrsta sinn greint milli þessara tvenns konar frádráttarheimilda. Hélst sá greinarmunur allt fram að setningu laga nr. 49/1987. Þá var fellt niður ákvæði 2. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981 um heimild til að draga frá tekjum fargjöld vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar. Verður ekki séð, að með þeim breytingum, sem að öðru leyti voru gerðar á A-lið 30. gr. laga nr. 75/1981 með lögum nr. 49/1987 og síðar lögum nr. 92/1987, hafi verið ætlunin að heimila almennt frádrátt vegna kostnaðar af akstri milli heimilis og vinnustaðar. Eins og áður hefur verið lýst, stefndu bæði lög nr. 49/1987 og lög nr. 92/1987 að því að fækka frádráttarheimildum og þrengja þær.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að fyrrgreindur úrskurður ríkisskattanefndar frá 26. febrúar 1991 og matsreglur ríkisskattstjóra, sem sá úrskurður byggði á, hafi ekki verið andstæðar 1. tl. A-liðar 30. gr. laga nr. 75/1981. Hins vegar verður ekki neitað, að sú niðurstaða, sem þar var um að ræða, kann að leiða til nokkurs ójafnræðis miðað við skattlagningu þeirra skattgreiðenda, sem fá ókeypis flutning milli heimilis og vinnustaðar. Tel ég ástæðu til að beina þeim tilmælum til yfirvalda skattamála, að taka það atriði til nánari athugunar og þá eftir atvikum, hvort ástæða sé til að jafna stöðu skattgreiðenda í þessu tilliti."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1993, óskaði ég eftir upplýsingum hjá ríkisskattstjóra um það, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af framangreindu áliti mínu. Svar ríkisskattstjóra, dags. 22. nóvember 1993, hljóðar svo:

"Í bréfi yðar, dags. 5. nóvember sl., óskið þér eftir upplýsingum um það hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar í tilefni af áliti yðar frá 8. febrúar 1993 í máli [H]. Í greindu áliti yðar var þeim tilmælum beint til skattyfirvalda að taka til nánari athugunar, með tilliti til ójafnræðis sem kynni að verða milli þeirra skattgreiðenda er fá ókeypis flutning milli heimilis og vinnustaðar og þeirra sem fá beinar greiðslur, hvort ekki væri ástæða til að jafna stöðu skattgreiðenda í þessu tilliti.

Tilmæli yðar hafa verið til athugunar hjá embætti mínu að undanförnu. Ég er sammála yður um það að hér getur í ýmsum tilvikum verið um að ræða ákveðið ósamræmi í skattlagningu milli gjaldenda. Í framhaldi af því hefur verið ákveðið að setja nýjar reglur í skattmat þar sem metið verður til tekna launþega það hagræði sem þeir hafa af því að vinnuveitandi lætur þeim í té ókeypis flutning til og frá vinnu. Þessar reglur eru í vinnslu ennþá en munu koma fram í skattmati ríkisskattstjóra í staðgreiðslu fyrir árið 1994 og taka gildi 1. janúar nk."