Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

(Mál nr. 355/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 19. desember 1990.

Kvörtun A varðaði lög um námslán og námsstyrki og framkvæmd þeirra. Í bréfi mínu til A, dags. 19. desember 1990, tók ég fram, að í kvörtun hans kæmi fram, að hann hefði ekki leitað skriflega úrlausnar stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Á meðan svo væri, brysti skilyrði til þess, að ég gæti fjallað um mál hans, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.