Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til sveitarstjórna. Einkaréttarleg samningsatriði.

(Mál nr. 358/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 3. desember 1990.

A kvartaði hinn 28. október 1990 yfir þeirri ákvörðun lífeyrissjóðsins X að lækka áunnin réttindi sjóðfélaga í tilefni af yfirtöku lífeyrissjóðsins Y á skuldbindingum X. Í svarbréfi mínu til A, dags. 3. desember 1990, gat ég þess, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, væri launamönnum og þeim, sem stunduðu atvinnurekstur, skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi lífeyrissjóðurinn samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð, staðfestri af fjármálaráðuneytinu. Af lögum nr. 55/1980 yrði og ráðið, að lífeyrissjóðir, sem orðið hefðu til vegna samninga milli launþega og vinnuveitenda, störfuðu samkvæmt reglugerðum, sem aðilar hefðu komið sér saman um og fjármálaráðuneytið hefði staðfest. Ráðuneytið hefði staðfest á sínum tíma reglugerð fyrir lífeyrissjóðinn X. Færi um réttindi og skyldur sjóðfélaga eftir reglugerðinni, en hún hefði verið grundvölluð á kjarasamningi. Í reglugerðinni kæmi fram, að breytingar á henni væru samningsatriði launþega og atvinnurekenda og færi um þær eftir sömu reglum og giltu um uppsögn kjarasamninga. Þá sætti ágreiningur út af reglugerðinni úrlausn gerðardóms, er aðilar skipuðu í og sem nánar væri kveðið á um. Ég tjáði A, að samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 2. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis tæki starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Utan starfssviðsins féllu afskipti af samningum einstaklinga og samtökum þeirra og með hliðsjón af fyrrnefndum reglugerðarákvæðum teldi ég, að ekki væru uppfyllt skilyrði laga til þess að ég gæti frekar fjallað um kvörtunina.