Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til sveitarstjórna. Kvörtun þarf að beinast að tilteknum stjórnsýslugerningi.

(Mál nr. 360/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. nóvember 1990.

A og B báru fram kvörtun við mig hinn 15. nóvember 1990 og beindist kvörtun þeirra að Vegagerð ríkisins. Í kvörtuninni var almennt fjallað um ástand vega í X-hreppi, án þess að tilgreindar væru einstakar ákvarðanir starfsmanna Vegagerðarinnar eða framkvæmdir, sem stofnuninni hefði borið að sinna en hún látið hjá líða. Í bréfi mínu til A og B, dags. 27. nóvember 1990, tók ég fram, að skv. lögum og reglum um umboðsmann Alþingis gæti hver sá, sem teldi sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem hefði stjórnsýslu með höndum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Til þess að hann gæti fjallað um málið þyrfti kvörtunin að beinast að tilteknum stjórnsýslugerningi. Kvörtun þeirra uppfyllti ekki lagaskilyrði til þess að ég gæti fjallað um hana.