Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málsaðild. Sala tilraunastöðvar.

(Mál nr. 291/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. júní 1990.

A bar fram kvartanir, er vörðuðu tilraunastöð nokkra í landbúnaði. M.a. beindist kvörtun A að því að forstjóra Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins væri óheimilt að leggja stöðina niður, meðan lög um hana væru í gildi, en í fjárlögum hafði fjármálaráðherra verið veitt heimild til að selja stöðina. Varðandi þennan þátt í kvörtun A tók ég fram í bréfi til hans, dags. 21. júní 1990, að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis gæti hver sá borið fram kvörtun, er teldi stjórnvald hafa beitt sig rangindum. Teldi ég, að af gögnum málsins yrði ekki ráðið, að ákvörðun um sölu stöðvarinnar varðaði A svo sérstaklega, að hann gæti af því tilefni borið fram kvörtun samkvæmt lögum nr. 13/1987. Brysti því skilyrði til afskipta af þessari kvörtun hans.