Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málsaðild. Staða starfsdeildar gagnvart stjórnvaldi.

(Mál nr. 299/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. júní 1990.

Mér barst kvörtun 13 fréttamanna á fréttastofu ríkisútvarpsins, dags. 14. maí 1990. Tilefni kvörtunarinnar var það, að þeir töldu, að útvarpsráð hefði farið út fyrir valdmörk sín og skert sjálfstæði fréttastofunnar og tjáningarfrelsi fréttamanna með afskiptum sínum af tiltekinni frétt og flutningi hennar, í fyrsta lagi með því að úrskurða, að fréttin, sem þegar hafði verið birt, væri hlutdræg, í öðru lagi með því að þvinga fréttastofuna til að birta ályktun ráðsins gegn vilja fréttastjóra og í þriðja lagi með því að ómerkja frétt, sem fréttastofan hafði birt og lýst yfir, að hún stæði við. Fréttamennirnir reifuðu viðeigandi ákvæði útvarpslaga nr. 68/1985 og reglugerðar um Ríkisútvarpið frá 23. júlí 1986 og töldu útvarpsráð hafa farið út fyrir valdmörk sín í málinu svo sem þau væru ákveðin í réttarheimildum þessum.

Ég tilkynnti talsmanni fréttamannanna með bréfi, dags. 21. júní 1990, að ég teldi kvörtunina ekki uppfylla skilyrði laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis þannig að um hana yrði fjallað samkvæmt þeim lögum. Orðrétt sagði í bréfinu:

„Samkvæmt 2. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal umboðsmaður gæta þess, að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún

fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Í 1. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis er hlutverk hans nánar skilgreint svo, að hann skuli gæta þess, að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra. Hefur umboðsmaður í því skyni eftirlit með, að jafnræði sé virt í stjórnsýslustörfum og að stjórnsýsla sé að öðru leyti í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.

Í niðurlagi kvörtunar yðar og þeirra tólf nafngreindu fréttamanna, sem undir kvörtunina rita ásamt yður, segir, að útvarpsráð hafi farið út fyrir valdmörk sín, er það úrskurðaði um erindi X, ómerkti frétt fréttastofunnar og hlutaðist til um, að ályktun ráðsins frá 28. apríl s.l. skyldi birt í fréttatíma Ríkisútvarpsins.

Af lýsingu yðar á málavöxtum og því, hvernig þér afmarkið kvörtun yðar, má ráða, að þér teljið útvarpsráð með ályktunum sínum og athöfnum hafa skert tjáningarfrelsi fréttamanna í staril og þar með sjálfstæði fréttastofu Ríkisútvarpsins. Óskið þér því í raun eftir áliti mínu um það, hver sé staða fréttastofu Ríkisútvarpsins sem starfsdeildar þeirrar stofnunar gagnvart útvarpsráði. Með hliðsjón af þessu og hlutverki umboðsmanns Alþingis, svo sem því hefur að framan verið lýst, er það álit mitt, sbr. 10. gr. laga nr. 13/1987, að kvörtun yðar uppfylli ekki skilyrði þeirra laga til þess að um hana verði fjallað samkvæmt lögum nr. 13/1987. Er afskiptum mínum af máli þessu því lokið.“