Sveitarfélög. Atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga.

(Mál nr. 221/1989)

Máli lokið með bréfi, dags. 8. janúar 1990.

A gerði athugasemdir við lagaákvæði um atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga, sbr. 108. gr. og 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Í bréfi mínu til A, dags. 8. janúar 1990, kom fram, að ákvæði 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 væru afdráttarlaus um það, hvenær atkvæðagreiðsla samkvæmt 108. gr. sömu laga girti fyrir sameiningu sveitarfélaga. Það væri því aðeins, að meirihluti atkvæðisbærra íbúa sveitarfélags synjaði sameiningu og skipti þátttaka í atkvæðagreiðslu eða úrslit hennar að öðru leyti ekki máli. Í bréfi mínu sagði svo orðrétt:

„Ofangreind ákvæði 109. gr. sveitarstjórnarlaga geyma sérreglu um tiltekna atkvæðagreiðslu. Þau brjóta því ekki í bága við lagareglur, sem gilda um annars konar atkvæðagreiðslur og kosningar. Ég fæ heldur ekki séð, að ákvæði 109. gr. fari á neinn hátt í bága við stjórnarskrána. Almennt er umboðsmanni Alþingis ekki ætlað að fjalla um lög eða löggjafarstörf Alþingis. Slíkt kemur því aðeins til greina, að um sé að ræða „meinbugi“ á lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt framansögðu tel ég að umrædd ákvæði 109. gr. sveitarstjórnarlaga geti ekki talist til „meinbuga“ á lögum. Þótt segja megi að þessi ákvæði 109. gr. séu óvenjuleg, miðað við þær reglur sem almennt gilda um atkvæðagreiðslur og kosningar, er það að mínum dómi ekki nægileg ástæða til að ég taki málið upp á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987.“