Sveitarfélög. Framkvæmd sameiningar sveitarfélaga.

(Mál nr. 265/1990)

Lokið með bréfi, dags. 21. september 1990.

Með bréfum, dags. 15. mars 1990 og 4. apríl 1990, kvartaði A ásamt þremur öðrum hreppsnefndarmönnum í X-hreppi yfir sameiningu hreppsins við Y-kaupstað samkvæmt auglýsingu félagsmálaráðuneytisins svo og yfir því, hvernig að sameiningunni hefði verið staðið af hálfu ráðuneytisins.

Í bréfi mínu til A, dags. 21. september 1990, sagði:

„Ákvæði 2. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 geymir þá meginreglu, að hafi íbúafjöldi sveitarfélags verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt, þá skuli félagsmálaráðuneytið eiga frumkvæði að því að sameina það nágrannasveitarfélagi. Fyrir liggur, að [X-hreppur] féll undir þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Undantekningu skal gera frá ofangreindri meginreglu, þegar svo stendur á sem segir í 3. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga, en ég tel ljóst, að þetta undantekningarákvæði hafi ekki átt við.

Í 9. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga er félagsmálaráðuneytinu hins vegar heimilað að fresta sameiningu sveitarfélaga, þótt fyrrgreind meginregla 2. mgr. 5. gr. eigi við, og eru þeirri heimild ekki settar neinar skorður berum orðum. Þar sem slík frestun á hins vegar að heyra undantekningum til, tel ég að félagsmálaráðuneytið verði ekki gagnrýnt fyrir að setja sér það markmið að ljúka sameiningu sveitarfélaga samkvæmt 2. mgr. 5. gr. á síðastliðnu kjörtímabili sveitarstjórna og að fylgja því eftir gagnvart [X-hreppi].

Samkvæmt 8. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga á félagsmálaráðuneytið að óska eftir umsögn viðkomandi sveitarstjórna, þegar á sameiningu reynir. Ráðuneytið óskaði slíkrar umsagnar í bréfi til hreppsnefndar [X-hrepps], dags. 27. febrúar 1990. Voru þar talin tiltekin atriði, er ráðuneytið áleit rétt að fjallað yrði um, og óskað var eftir því að svar bærist ráðuneytinu fyrir 10. mars. Ég tel, að hreppsnefndin hefði átt að óska eftir framlengingu þessa frests, ef hún ætlaði að láta í té umsögn um þau atriði, sem að sameiningunni lutu, og frestur til þess væri að hennar áliti of skammur. Ég tel því ekki ástæðu til athugasemda við framkvæmd félagsmálaráðuneytisins að þessu leyti.

Í fyrrgreindri auglýsingu nr. 133/1990 var ákveðið, sbr. 6. og 7. tölulið auglýsingarinnar, að sameiningin tæki gildi 1. apríl 1990 og að áður kjörin bæjarstjórn [Y-kaupstaðar] skyldi fara með stjórn hins nýja [Y-kaupstaðar] fram að næstu almennu sveitarstjórnarkosningum. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi ákvörðun félagsmálaráðuneytisins hafi átt sér nægilega stoð í 8. mgr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar er svo mælt fyrir, að ráðuneytið ákveði, hvernig að sameiningu sveitarfélaga skuli staðið, svo og í 112. gr. laganna, sem heimilar ráðuneytinu meðal annars að ákveða, frá hvaða tíma sameining taki gildi. Af ákvæðum 112. og 113. gr. sveitarstjórnarlaga kemur einnig fram, að ekki er skylt að kosningar til sveitarstjórnar fari fram þegar að sameiningu lokinni. Af ákvörðun um sameiningu [X-hrepps] við [Y-kaupstað] leiddi samkvæmt þessu óhjákvæmilega, að hreppsnefnd [X-hrepps] var lögð niður frá og með 1. apríl. Í samræmi við þessa ákvörðun var eðlilegt, að skjöl og bókhaldsgögn [Xhrepps] yrðu afhent [Y-kaupstað] til varðveislu, sbr. 5. tölul. umræddrar auglýsingar.

Niðurstaða mín er samkvæmt framansögðu sú, að ekki sé ástæða til þess að ég fjalli frekar um kvörtun þessa.“