Sveitarfélög. Undantekning frá lagaskyldu til sameiningar sveitarfélaga.

(Mál nr. 266/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 28. desember 1990.

Með bréfi, dags. 27. maí 1990, kvartaði A yfir því, að félagsmálaráðuneytið hefði ákveðið sameiningu hreppanna X og Y í eitt sveitarfélag á grundvelli 2. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, þ.e.a.s. að íbúafjöldi X hefði verið lægri en 50 í þrjú ár samfleytt og sá hreppur því sameinaður nágrannasveitarfélaginu Y. A taldi, að ráðuneytinu hefði borið að beita undanþáguákvæði 3. mgr. 5. gr. sveitarstjórnarlaga í þessu tilfelli, þ.e.a.s. hindri sérstakar ástæður það að mati ráðuneytisins, að íbúar fámennari sveitarfélagsins geti myndað félagslega heild með íbúum nágrannasveitarfélagsins. A taldi undanþáguákvæðið hafa átt við sakir erfiðra samgangna yfir vetrarmánuðina á umræddu svæði. Í bréfi mínu til A, dags. 28. desember 1990, gat ég þess, að samkvæmt þeim gögnum, sem ég hefði fengið afhent frá félagsmálaráðuneytinu vegna málsins, væri ljóst, að nefnd þeirri, sem skipuð hefði verið vegna sameiningarinnar samkvæmt 107. gr. sveitarstjórnarlaga, og ráðuneytinu hefðu verið kunn þau atriði, sem kvörtunin fjallaði um, áður en ráðuneytið hefði ákveðið sameiningu X við Y. Þá hefði einnig verið leitt í ljós, að ráðuneytið hefði beitt sér fyrir úrbótum í samgöngumálum innan hins sameinaða sveitarfélags. Ég skýrði A frá því, að við athugun mína á málinu hefði ekki annað komið fram en að undirbúningur og ákvörðun um sameiningu hefði verið í samræmi við lög. Teldi ég ekkert fram komið, er haggaði því mati ráðuneytisins, að undantekningarákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 8/1986 hefðu ekki átt við í þessu tilviki. Væri því niðurstaða mín, að ekki væri tilefni til frekari athugunar minnar á kvörtuninni.